Átta sinnum fjórir

Fyrir tveim árum síðan átti ég í orðaskaki við mann. Hann stóð gleiður fyrir framan mig úti á miðri götu og segir „ég hef átt hund í tólf ár, ég veit vel hvernig þeir eru.“

Fimm mínútum fyrr hafði ársgömul tík losnað úr taum hjá mér. Hún hafði í ógáti smokkað af sér hálsbandinu eins og stundum gerist með hvolpa. Hún rauk að grindverki á garði þar sem var eldri hundur. Einhverra hluta vegna fóru hundurinn og tíkin að rífast og úr varð eitthvað glefs. Þetta var raunar hættulaust, enda grindverk á milli, en hann fékk smáskrámu.

Eigandi hundsins var staddur í garðinum. Hann beið ekki boðanna heldur æddi með þjósti út á götu og sparkaði í kviðinn á tíkinni. Um svipað leyti heyrði tíkin að ég var að kalla á hana og rauk til mín og fékk aftur á sig hálsólina. Ég æddi til mannsins og segi við hann „varstu að sparka í hundinn?“

Hann hélt nú að það væri í lagi að sparka í hundinn. Grimmi Sheffer hundurinn minn hefði „ráðist á hundinn sinn!“ Enn í dag réttlætir hann árás sína á hvolpinn. Hver sá sem horft hefði á hefði séð hvernig hann nýtti áflog hundanna sem réttlætingu til að fá útrás fyrir sína eigin reiði og ofbeldiskennd. Svo ég vitni í manninn „allir vita að Sheffer hundar eru grimmir vargar!“

Hugsunarháttur hunds

Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef hitt fólk sem bendir á hund – sinn hund eða annarra – og viðhefur stórar yfirlýsingar um það hvernig hundurinn þeirra hugsar, hvers eðlis þetta hundakyn eða annað er, og allt sé stafur á bók, því viðkomandi hefur átt hund í svo og svo mörg ár, eða umgengist náið einhvern sem átt hefur hund í svo og svo mörg ár.

Tökum annað skemmtilegt dæmi. Ég æfði um skamman tíma með Björgunarhundasveit Íslands og þar var Labrador hundur sem ekki vildi sækja dót og skila til eiganda síns. Eigandinn var að temja sinn annan leitarhund, en sá fyrri hafði mistekist og var á eftirlaunum. Áður var reynt að kenna sama Labrador hundi gelt markeringu en hafði mistekist, og hafði verið skemmtilegt sjónarspil að sjá þau mistök.

Gelt markering er þegar hundur kemur til eiganda síns, staðnæmist hjá honum, og geltir á eigandann, sem merki um að hann hafi fundið týnda manninn.

Á einni æfingu sem oftar er fyrrgreindur maður að æfa með Labrador tíkinni sinni. Hún var rétt um ársgömul og eins og er siður Labrador hunda vildi hún óð hlaupa á eftir hlut sem var kastað. Eins og ungir Labrador hugsa þá vildi hún líka stríða þeim sem kastaði. Það er venja með unga Labrador hunda að þeir hlaupa að hlutnum, taka hann kannski í munninn en sleppa aftur og sækja eigandann til að hlaupa með sér á eftir hlutnum. Einnig reyna þeir að tæla eigandann til að ná af sér hlutnum – voða voða gaman.

Yfirleitt hleypur maður með þeim hálfa leið, eða stríðir þeim á einhvern máta til baka, til dæmis með því að snúa í aðra átt, en aldrei að fara að dótinu séu þeir nærri því. Séu þeir búnir að gleyma dótinu – og séu að skoða eitthvað annað – sækir maður það sjálfur og endurtekur leikinn. Smátt og smátt slípast leikurinn og endar þannig að Labbinn fattar að leikurinn er skemmtilegri ef hann kemur með dótið alla leið til baka, því þá er því kastað strax aftur.

Aðal málið er þetta – og á við um alla hundaþjálfun: Hafðu markmiðið skýrt og láttu þér vera sama hve langan tíma tekur að slípa leikinn í rétta átt. Hundur vinnur best í því sem er leikur.

Téður maður var búinn að reyna vikum saman að slípa þennan leik en leikurinn versnaði. Tíkin elskaði að stríða eiganda sínum svo um munaði og hún hafði yfirhöndina alla leið. Hann var ófær um að sjá hvernig litla tíkin sem elskaði hann var bara að leika við hann. Í stað þess að njóta leiksins og slípa hann í réttan farveg varð hann bara stressaður yfir að mistakast að skikka hana í markmiðafarveg sinn. Innri streita er eitthvað sem þú getur falið fyrir fólki en aldrei fyrir hundi.

Einhverju sinni fékk ég nóg af að horfa á skrípaleikinn og lék sjálfur við tíkina. Innan tíu mínútna var hún búin að fatta minn leik og farin að leika hann líka. Smátt og smátt fór hún að skila dótinu til mín. Í stað þess að segja „sýndu mér betur hvað þú gerir öðruvísi en ég, svo ég nái betra sambandi við hundinn“ brást hann við af öfund. Hann vissi jú vel hvernig hundar hugsa, enda átt hund í átján ár, og æft leitarhunda í tólf!

Hvernig ég veit að öfund kom upp, er efni í aðra sögu sem ekki verður rituð opinberlega. Markmið skrifa minna er ekki að kasta rýrð á aðra, heldur vekja til umhugsunar um tungumál hunda. Eins og margir vita leiðbeini ég bæði á námskeiðum og æfingum á vegum Hundasport.is, en ég hef aldrei sagt „ég veit betur“ eða „ég veit best“ eða „ég hef ávallt rétt fyrir mér.“

Viðhorf mitt frá upphafi til enda í öllu hundastarfi og þjálfun er þetta:

  • Ég reyni eftir bestu getu að lesa hvern hund.
  • Ég nota þær aðferðir sem ég hef lært af hundunum að virka vel en veit að til eru aðrar og stundum virka aðrar betur.
  • Á æfingum og námskeiðum velur leiðbeinandi þær aðferðir sem notaðar eru fyrir hópinn en allar aðferðir má ræða og endurskoða (þegar hundar eru í bíl/búri/bandi). Meðan hundar eru í vinnu eða í hópvinnu ræður leiðbeinandi til að tryggja sem minnst átök og uppnám meðal hundanna.
  • Að mismunandi skoðanir eigenda eru jafnréttháar svo fremi að menn séu „sammála um að vera ósammála í friðsemd.“ Deilur í dýraþjálfun eru engum til framdráttar, hvorki samfélagi eigenda þeirra né dýrunum.
  • Tilgangur þjálfunar er hámörkun á ánægju fyrir mann og dýr en ekki að „fá viðurkenningu samfélags.“ Þetta síðarnefnda á við þegar menn bítast um hver viti betur vegna reynslu af þjálfun eða hafi átt hunda svo og svo lengi.

Með framansögðu er ég í raun að undirstrika eina af undirstoðum allrar þjálfunar hjá Hundasport.is: Þegar hundurinn er ósammála reglunni er reglunni fleygt. Á þetta viðhorf við um allt, hvolpa og hunda, reynda þjálfara og byrjendur.

Til þess að lesa hund þarf að læra táknmál hans, og hundar hafa mismunandi táknmál eftir persónuleika. Til þess að geta séð þennan mismun þarf að þroska næmi sem fólk notar lítið í daglegu lífi innan dagmenningar, enda er menning okkar byggð á raunsæi, reglum og vísindahyggju, eða mælingahyggju, sem er fjarlæg hinu náttúrulega sem hundar lifa í. Því þarf að þroska næmi til að lesa misræmi á milli okkar hugmynda og táknmáls dýranna, næmi sem ekki er auðvelt að rækta sé maður upptekinn af viðurkenningu fyrir reynslu sína og þekkingu eða fyrirfram mótuðum hugmyndum, skoðunum eða bókum.

Í þessu ljósi sagði ég nýlega við reyndan þjálfara, mann sem hefur margfalda reynslu í þjálfun vinnuhunda og af hópstarfi annarra þjálfara miðað við mína reynslu, að oft man ég ekki reglurnar nú orðið, nema aðstæður krefjist, því ég er yfirleitt upptekinn af að lesa einstaklinga. Að lesa einstaklinga og þroska næmi á persónuleika þeirra. Þetta er ástæðan fyrir því að hundar mínir standa sig vel í vinnu, því hver og einn fær að þroska sjálfan sig í stað bælingu undir ægivald minna markmiða og mótaðra hugarreglna.

Því miður er þetta einnig ástæðan fyrir að mínir hundar eru oft óþekkir á vettvangi s.s. í göngutúrum eða á útisvæðum því ég er latur við hlýðniþjálfun – nokkuð sem ég er þó byrjaður að laga og gengur vel. Um þetta mun ég þó rita aðra grein á næstunni og rekja betur, bæði mistökin mín og hvernig ég er að vinna úr þeim.

Hér birtist önnur grunnstoð í æfingum Hundasport.is: Bæði leiðbeinendur og þáttakendur gera mistök og daginn sem þeir hætta að gera mistök þurfa þeir að byrja aftur á byrjunarreit. Því daginn sem þú hættir að geta viðurkennt eða séð eigin mistök hættirðu að læra af þeim. Þannig hættirðu að læra af hinum fólkinu og hundum þeirra en eftir hvert vinnuferli hunds á æfingum berum við saman bækur okkar, hvað við sáum og hvað lærðum við bæði um hund og mann. Til að geta þetta þarf bæði næmi og virðingu.

Markmið þjálfunar hjá Hundasport.is er ávallt dýrið, en ekki viðurkenning eigandans fyrir getu sína og reynslu innan samfélags.

Sé eigandi hunds að leita eftir prófum, viðurkenningu eða einhverju sem skiptir máli í samfélagi manna þá er hugsanlegt að hann fengi meira út þjálfun í hóp sem hefur áhuga á því sama og hann.

Mig langar ekki að segja margar reynslu sögur af fólki sem hefur fullyrt mikið af yfirlýsingum þess hvort hundar sínir séu á einn eða annan veg, meðan hundurinn var við hlið þess með mörg tákn á lofti að segja aðra sögu. Stundum bendi ég fólki á þessi tákn en reyni þó yfirleitt að athuga hvort viðkomandi sé til í að heyra það sem hundurinn segir, ekki minn sannleika heldur að lesa táknin. Því fólk er misviðkvæmt fyrir ábendingum.

Oft hendi ég þessum reynslusögum í kistuna og geymi sem allra fæstar þeirra. Þær skipta mig engu, frekar en álit annara á mér og mínum hóp.

Við æfum reglulega, við lærum og vinnum saman, okkur líður vel saman og okkur er slétt sama hvernig aðrir gera það eða hafa það. Hundarnir mínir eru stundum óþekkir, stundum frábærir, rétt eins og lífið er oft upp og niður þá erum við (ég og hópurinn) oft upp og niður. Reynsla mín er sú að þeir sem duglegast dæma hópinn minn eftir niður-ástandinu hafa lítinn áhuga á þeirri vinnu og því næmi sem æfingar hjá Hundasport.is sækist eftir, svo ég sækist ekki eftir rökræðum við þetta fólk.

Til gamans langar mig að segja frá því þegar ég fór með Ljúf í skapgerðarmat á vegum Hundaræktarfélags. Ég kann reglurnar í skapgerðarmati og við hjá Hundasport höfum vilja til að setja upp árlegt skapgerðarmat fyrir okkar hunda. Sérstaklega til að kenna þeim að bregðast við mismundandi áreiti og vinna úr mismunandi aðstæðum.

Hundurinn var prófaður í sjö atriðum og stóð sig framúrskarandi í fimm þeirra. Í tveim atriðum stóð hann sig í meðallagi. Allt ferlið var tekið upp á myndband og sá sem stýrði myndavélinni er reyndur leiðbeinandi.

Reglur skapgerðarmats eiga að vera uppsettar á þann veg að hundurinn fái algjöran fókus á þá þætti sem eru prófaðir. Dómarinn á að vera hæfur til að benda á raunhæf úrræði við lélegu mati á stökum atriðum.

Í fyrra atriðinu sem var í meðallagi varð hundurinn fyrir truflun frá meðstjórnanda dómarans. Þessi meðstjórnandi hefur reynslu af Sheffer hundum og ætti að vita hve næmir þessir hundar eru fyrir umhverfistruflun þegar þeir eru í nýjum aðstæðum. Því vissi hundurinn ekki próf-aðstæður síðari hluta atriðisins og fékk mínus fyrir það. Hefði dómarinn verið reyndur Sheffer þjálfari, hefði hann séð þetta og látið prófa þetta atriði aftur.

Síðara atriðið var áhugaverðara. Hundinum var stillt upp við aðstæður sem áttu að reyna á þolgæði hans í óvissubið með eiganda sínum. Reglurnar skilgreina að gæta þurfi þess að vindátt sé rétt í þessum aðstæðum, en vindáttin var af öfugri átt. Ljúfur er þjálfaður víðavangsleitarhundur og í vindáttinni kom lykt af manneskju sem var að fela sig vegna næsta atriðis. Ljúfur veit af reynslu hvað þetta merkir og var því æstur og baldinn til að fara í leit.

Reyndur leitarþjálfari hefði gefið honum toppeinkun fyrir greind og vinnusemi, auk þess sem hann hefði séð hvernig Ljúfur reyndi sem best hann mátti að bíða rólegur. Dómarinn gaf stóran mínus fyrir þetta – og er þó sjálfur reyndur hlýðniþjálfari. Þegar honum var bent á þetta í yfirferð um prófið reyndi hann að gera lítið úr þessu, en við Ljúfur áttum í raun rétt á því að atriðið yrði endurtekið.

Nú þekki ég dómarann lítillega og vil alls ekki kasta rýrð á hans ágætu störf í þágu bættrar hundamenningar á landinu. Ég hef sýnt myndbandið reyndu fólki og geymi athugasemdir þeirra með sjálfum mér. Til stóð að setja myndbandið á Youtube og skrifa nánar um skapgerðarmat, bæði til að útskýra hvernig það er unnið og sýna dæmi, en ákvað að fleygja myndbandinu. Hundasport.is ætlar, sem fyrr segir, að setja upp sitt eigið mat fyrir sína hunda og verða þá gerð okkar eigin myndbönd (bæði með kostum og kynjum).

Sem fyrr segir, það eru til trilljón sögur úr hundamenningu um hundaþjálfun og hundauppeldi. Sýnist sitt hverjum og fólk er stórlega ósammála um smæstu hluti. Við eigum að vera sammála um að vera ósammála.

Maðurinn sem ekki gat leikið við hundinn sinn ætti samt að geta æft leitarhunda eins og honum lystir, það kemur að því að hann lærir að lesa hunda. Maðurinn sem sparkar í ókunnuga hunda ætti ekki að eiga hund né koma nálægt neinum dýrum. Hundurinn hans sýnir óöryggishegðun nærri ókunnugu fólki og hundum, merki sem oft gefur til kynna að hann búi við tilfinningalegt eða líkamlegt óöryggi. Þó er þetta mætur maður í sínu samfélagi. Matsmaðurinn sem dæmir Sheffer hunda mun líklega læra um það hundakyn einhvern tíma og ef fólkið í ræktunarfélaginu er sátt við hans störf þá er það bara fínt.

Við gerum öll mistök og einu slæmu mistökin eru þau að geta ekki viðurkennt þau. Ég hef séð konu koma inn á æfingar og hafði aldrei átt hund áður, hún var nýbúin að fá sér hvolp. Á annarri mætingu tók hún eftir að reynd hundakona var vön að gera atriði með sínum hundi sem var í eðli sínu rangt. Ekkert okkar hafði tekið eftir því. Það skiptir engu hve lengi ég hef átt hund, eða hve marga, betur sjá augu en auga. Sérstaklega á þetta við um skoðanir. Ég hef skoðanir og þú hefur skoðanir en það eru bara skoðanir. Þegar við heyrum og virðum skoðanir hvors annars erum við á réttri leið og getum unnið saman, þegar við notum skoðanir okkar til að dæma annað fólk eða hundana þeirra, erum við hætt að vinna saman.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.