Um gæludýr sem jólagjöf

Dýr á aldrei að gefa í gjöf á Jólunum

2008-09sep-002Krúttlegur hvolpur birtist upp úr kassa með rauða slaufu og dillandi skott. Börnin æða á móti hvolpinum með opinn faðm og gleðin leynir sér ekki. Hvolpurinn situr alsæll og kyssir vanga hægri vinstri. Í kringum börnin liggja jólagjafir og pappírinn af þeim á víð og dreif um stofuna. Pabbi og mamma sitja í bakgrunninum, njóta gleði barnanna og brosa. Fullkomna jólagjöfin er mætt.

 

Þessi saga er dæmi um hugljúfa jólastund sem fólk ímyndar sér kannski þegar það ákveður að gefa gæludýr í jólagjöf en fyrir mörgum eru hvolpar, og gæludýr yfir höfuð, fullkomna gjöfin um jólin. Gæludýr tákna í hugum margra þennan jákvæða undrunar spenning, sakleysið, ástina og von fyrir framtíðinni sem við finnum mörg fyrir á jólunum. Að geta gefið einhverjum það að finna fyrir þessum jákvæðu tilfinningum allan ársins hring er lokkandi tilhugsun. Þegar þessi saga spilar í sjónvarpinu er allt fullkomið, sameinaður krútt kraftur hvolpa og kósýheita virkar mjög vel í auglýsingum og list. Það er þegar fólk reynir að endurleika þennan ímyndunar veruleika auglýsinganna með alvöru lífveru í hlutverki hvolpsins sem hlutirnir byrja að ganga á afturfótunum. Í verstu tilfellum losar fólk sig við dýrið stuttu seinna, í bestu tilfellum verður dýrið hluti af fjölskyldunni eftir erfiða byrjun.

 

Gleymum því ekki að dýrum fylgir ábyrgð og kostnaður

img-coll-1647Ef nýr eigandi dýrsins fær það sem gjöf en bað ekki um það, hefur viðkomandi ekki gert neinar ráðstafanir, leitað sér upplýsinga um eða verið tilbúinn fyrir þá ábyrgð sem fylgir því að hugsa um dýrið alla ævi þess. Að sjálfsögðu getur nýr eigandi verið mjög spenntur þegar nýi fjölskyldumeðlimurinn er kynntur. Það er erfitt að standast stór augu og krúttlegan loðbolta. En ef viðkomandi er ekki undirbúinn, getur nýja „gjöfin“ breyst úr yndislegri hugmynd í mjög slæma eftir stuttan tíma vegna þess að nýi eigandinn var ekki búinn undir ábyrgðina eða kostnaðinn sem fylgir.

Eigandi dýrs þarf að vera tilbúinn að vaka yfir þessum krílum þegar þau veikjast og bruna með þau til dýralæknis á öllum tímum sólarhrings. Fyrir utan bólusetningar og skrásetningargjöld, eiga dýr það nefnilega til að togna, brotna, skera sig, éta eitthvað sem þeim verður meint af, fá pestir, ofnæmi, magakveisur og krabbamein, svo fátt eitt sé talið. Dýr þurfa mat, svefnstað, dót, hreyfingu, þjálfun, snyrtingu og umönnun. Allt kostar þetta tíma, fyrirhöfn og peninga sem gefandinn tekur enga ábyrgð á og leggst öll þessi ábyrgð á manneskju sem er líklegast ekki tilbúin að taka við henni.

 

Dýr þurfa tíma til að aðlagast nýjum stað

img-coll-1653Þegar dýr er að fara á nýtt heimili þá þarf undirbúningurinn að vera mikill hjá öllum fjölskyldumeðlimum, reglur og verkaskiptingar gagnvart nýja fjölskyldumeðliminum þurfa að vera á hreinu og allir á sömu blaðsíðu. Það er oft mjög stressandi fyrir dýr að skipta um heimili, því er mikilvægt að þau komi inn í rólegar aðstæður og að næstu vikurnar séu eins nálægt því að vera hversdagslegar og hægt er. Ungviði sem eru að fara frá mæðrum sínum í fyrsta skipti eru jafnan óörugg og hvernig fyrstu kynni þeirra af nýju fólki á nýjum stað ganga setur tóninn fyrir hvernig þau muni bregðast við nýju fólki á nýjum stöðum í framtíðinni. Nýjan fjölskyldumeðlim þarf að kynna fyrir fólki á rólegum og hljóðlátum tíma, með lágmarki af hávaða, blikkandi ljósum, hrópum, gestagangi og öðrum algengum jólalátum. Jólatíðin er annasöm, stundum stressandi og áherslur fólks oft á öðru en þörfum dýranna sem eru að skipta um heimili.Til dæmis taka innkaup, eldamennska og þrif mikinn tíma og áramótaskreytingar, aðrir jólapakkar, jólaboð og fleiri jólatengdir þættir taka yfir venjulegar heimilisaðstæður dagana eftir aðfangadag.

 

Tímasetningin gefur röng skilaboð

Lifandi dýr, með tilfinningalíf og þarfir á alls ekki að líta sömu augum og leikfang. Jólagjafir eru alla jafna dauðir hlutir, leikföng, leikir, föt og því um líkt. Börn geta upplifað dýrið á sama hátt og aðrar gjafir sem hægt er að skila eða setja í kassa eftir að leikurinn er búinn. Börn þurfa að vera meðvituð um það að dýrið sé nýr fjölskyldumeðlimur. Með því að setja nýjan fjölskyldumeðlim í flokk með jóladóti sem er ónýtt, hent eða orðið óspennandi eftir nokkra mánuði verður fyrsta tenging barns við nýjan fjölskyldumeðlim að hann sé jafngildur púslinu og sokkunum frá Önnu frænku. Þessi hugtengsl grefur undan grundvallar hugmyndindum sem margir foreldrar nota gæludýraeign til að kenna svo sem samkennd, ábyrgð og virðingu fyrir lífi annarra.

 

Ef þessi listi hefur ekki fælt þig frá því að gefa ástvini dýr um þessi jól

Þá mæli ég með því að gefa frekar loforð um dýr. Það er hægt að gera á marga mismunandi vegu, góðar hugmyndir eru t.d. að gefa ól, matardall, bæli, gjafabréf í skoðun hjá dýralækni, bók eða videó um hvernig á að velja það dýr eða tegund sem hentar best, kort með texta um gjöfina sem er klippt í púsl og dreift í hina ýmsu pakka eða gjafabréf í gæludýrabúð. Þessar gjafir geymast vel undir trénu og ekki minni ánægja með að fá loforð um dýr og geta eytt restinni af jólunum í að velja og undirbúa heimkomu nýs fjölskyldumeðlims. Svo þegar undirbúningsvinnan er unnin og búið að pakka niður jólaösinni er hægt að uppfylla loforðið við gríðarlega kæti og minna álag fyrir dýrið í fullvissu um að þetta sé hin fullkomna viðbót við fjölskylduna.

 

Pistilhöfundur er Svala Jónsdóttir, líffræðingur og sjálfboðaliði Dýrahjálpar. Upprunalegt heiti pistils er „Ekki dýr í gjöf um Jólin.“

 

 

This entry was posted in Adsent and tagged , , . Bookmark the permalink.

Comments are closed.