Af naglasnyrtingum og klóklippingum

Var að klippa neglur (klær) í morgun. Er soldið montinn yfir hvað það gengur alltaf vel. Þegar ég tek klippurnar úr skúffunni setja þau sig flest í stellingar og ég get alltaf haldið klónni á milli tveggja fingra.

User commentsLykillinn að því að klippa klær, er Ljúfi að þakka, en honum var mjög illa við naglasnyrtingu þegar ég eignaðist hann. Við unnum saman í þessu, þar til hann var tilbúinn að leggjast á hliðina, rétta mér framfótinn og leyfa mér að halda einni kló milli tveggja fingra meðan (hataðar) klippurnar tóku fremsta broddinn af klónni.

Síðustu árin hans var honum slétt sama þó hann fengi naglasnyrtingu. Margir halda að maður þurfi að beita hundana valdi  við ýmsar aðstæður, en það er rangt. Með samkomulagi og gagnvirkum samskiptum, má ná býsna langt.

Hér er notað hugtakið Vald en ekki hugtakið Ofbeldi.

Auðvitað er þannig með hunda – og þá sérstaklega þá stærri – að við vissar aðstæður þarf að draga verulega skýrar línur. Til eru aðferðir til að beita valdi án ofbeldis, sem þá veldur ekki dýrum skaða eða sársauka. Margar þessara aðferða virka oft harkalegar séðar utanfrá og óreyndir gagnrýna þær oft að ósekju.

Sumar aðferðir sem maður hefur lært af reyndu hundafólki hefur maður síðar meir lagt af og aðrar tekið upp sem maður hefur þá ýmist lært af reynslu og íhugun eða beinlínis af hundunum sjálfum. Ef maður tekur sér tíma og minnir sig á að mannveran sem foringinn er leiðtogi en ekki stjórnandi og að samskipti gefa betri árangur en skipanir, þá verður leiðin að árangrinum skemmtilegur farvegur.

Athygli og næmi spila hér stórt hlutverk. Sem dæmi má nefna að Sunna er eini hundurinn minn sem ekki þarf naglasnyrtingu því hún nagar neglurnar. En ef ég klippi ekki ímyndaða rönd hjá henni líka, setur hún upp móðgunarsvip.

Það er eins með þetta eins og allt annað, sé maður næmur á svipbrigði og hreyfingar sem gefa meira til kynna en þær sýna, nær maður að skapa gagnvirkt samlíf manns og dýrs.

Taki maður mark á innsæinu frekar en að ákveða fyrirfram eitthvað sem mannlegur hugur heldur að hljóti að vera, er líklegra að maður sjái eða skilji hvað hundshugurinn heldur að hljóti að vera.

Aftur að naglasnyrtingu:

Margir hunda eigendur eru meðvitaðir um að hundaklær vaxa alla ævina eins og mannaneglur og að hundar sem ekki ganga mikið á klöppum eða malbiki ná ekki að slípa klærnar með náttúrulegum hætti. Langar klær geta haft í för með sér óþægindi fyrir hundinn, bæði hvað varðar líkamsstöðu og álag á liðamót í fótum.

Auk þess er hreinlega ljótt að sjá of langar klær og maður sér það stundum hjá fólki sem ekki er meðvitað um þetta eða kann ekki að bregðast við því. Í sumum tilfellum veit fólk af þessu en gleymir að huga að því.

Ég hef séð í athugasemdum á spjallsvæðum eins og Hundasamfélaginu á Facebook að margir vita ekki hvernig á að bera sig að.

Langflestir vilja leita til aðila sem hafa sérhæft sig í feld- og klósnyrtingu. Þó upphaf greinarinnar gæti gefið annað til kynna þá styð ég það viðhorf að leita til aðila sem kunna vel til verka á þessu sviði frekar en að kássast í þessu sjálfur og hugsanlega skemma neglur eða meiða hundinn með klippunum.

Fyrstu skiptin sem hundar hjá mér voru klósnyrtir, var það framkvæmt af vönum aðilum sem gátu gert þetta af kunnáttu og öryggi. Þegar ég var búinn að læra af þessu fólki hvað það er sem ber að athuga fór ég að gera þetta sjálfur. Hér spilaði inní að Ljúfur hataði klóklippurnar og þó vant fólk kæmi hér að þá er það ekki alltaf nóg, því misjafnt er hvort fólk treystir sér í samninga við fullvaxinn Sheffer rakka.

Ég hef sjálfur lent í því að geta ekki hjálpað Sheffer rakka sem var með hegðunarvanda því ég náði ekki að lesa hann rétt. Þegar eigandi hans sá það missti hann trú á að ég gæti hjálpað þeim. Þetta var leiðinlegt (fyrir hundinn) því um sama leyti náði ég að fatta hvar vandinn lá en fékk ekki tækifæri til að sýna það og aðstoða við lagfæringar.

Reynsla okkar á æfingum hefur margsýnt að þó stundum sé hægt að lesa hund og eiganda á fyrstu æfingu eða lotu (Session) þá getur stundum þurft fleiri lotur áður en maður nær að lesa rétt í aðstæður og tjáningu. Eðlilega er ekki hægt að ætlast til þess að allir hundasnyrtar geti lesið alla hunda við allar aðstæður eins og sprota sé veifað.

Hvað sem öllu líður þá er reynsla mín þessi: Hundur sem ekki nær að slípa klærnar við náttúrulegar aðstæður þarf klósnyrtingu á framfætum á fjögurra til átta vikna fresti eftir aðstæðum og stærð dýrsins.

Yfirleitt beita hundar afturfótunum þannig að ekki þarf nema skoða klær á afturfótum tvisvar á ári eða vera vakandi fyrir líkamsstöðu og fótabeitingu.

Íslenski fjárhundurinn er þó yfirleitt með spora á afturfótum og það þarf að fylgjast með sporanum um leið og gætt er að framfótum. Sporinn getur undið uppá sig og vaxið inn í flipann sem hann vex út úr og gæta þarf að þessu. Ég hef lent í því með einn slíkan hund að það tók nokkrar vikur að laga spora sem ekki hafði verið gætt að.

Klær spretta fram úr tánum eða þófunum utanum hvíta kviku. Broddurinn sem vex framfyrir kvikuna er sá broddur klónnar sem má klippa. Sé klippt í kvikuna meiðir hundurinn sig (svipaður stingur og þegar við fáum eyrnalokk) og þá getur blætt.

Stundum fossblæðir við þessar aðstæður og getur tekið hálfan dag að fá sárið til að storkna, eftir því hversu mikið hundurinn hreyfir sig eða þrífur tána. Yfirleitt er nóg að halda bómull eða bréfþurrku á sárinu í nokkrar mínútur til að blóðstorknun fari fram en fyrir kemur að sitja þarf hálftíma til klukkustund til þess.

Yfirvegun er hér lykilatriði en flest tilfelli sem ég hef séð að þessi mistök eiga sér stað, var um að ræða að hundurinn vildi ekki vera kyrr eða manveran var óvön og óstyrk. Einnig er algengara að fólk gæti sín ekki á afturfótunum þar sem er styttra í kvikuna en á framfótum.

Sem fyrr segir, mæli ég með því að fólk leyti til vanra aðila um klósnyrtingu ef það kann ekki til verka. Sé vilji til að læra þetta, þá mæli ég með því sama en að fylgjast vel með hvernig þetta er gert og að lesa sér til á Netinu.

Eins og lesendur þessarar síðu hafa vafalaust tekið eftir, vorum við meira í því fyrstu árin að birta leiðbeiningar um hvernig ætti að gera hitt og þetta. Smámsaman hafa greinaskrif hér snúist meira um viðhorf og heimspeki en um uppskriftir.

Þetta er viss afleiðing af reynslu af bæði hundum og menningu, við hjá Hundasport höfum minni áhuga á reglum og uppskriftum og meiri áhuga á dýpri skilningi eftir því sem unnt er.

 

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.