Eltingaleikur við ljósgeisla

Sumt fólk hefur skemmt sér við að láta hvolpa – og jafnvel kisur – elta ljósgeisla. Bæði má nota til þess ljósbendil (laser ljós) eða vasaljós. Í öllum tilfellum er þetta vont fyrir hundinn.

Hundurinn hefur ekki hugmynd um hvaðan ljósið kemur. Hann getur ekki náð þvi og úr verður hamagangur sem getur orðið að ástríðu. Þetta er vel þekkt vandamál í hundaþjálfun, að mismikla vinnu getur tekið að venja hundinn af þessu.

Þá er átt við að hundurinn getur tekið upp á annars konar ástríðuhegðun varðandi hluti sem hann langar til að elta eða leika sér með. Einnig getur orðið af þessu önnur hegðunarröskun.

Til dæmis getur verið óþolandi að hafa svona hunda í sama rými ef sólin skín úti og fólk talar saman með handapati. Þá birtast oft litlir ljóspunktar sem endurkastast af armbandsúrum og getur verið erfitt að bregðast við þegar hundurinn er í sífellu að elta þessa litlu geisla.

Einn af mínum hundum á við svona röskun að stríða. þegar hún kom til mín var þessi röskun á háu stigi og síðan hún kom til mín hefur illa gengið að ná þessu úr henni. Hún eltir einnig flugur sem koma inn í húsið og hún gefst ekki upp.

Reyndar er þessi tiltekni hundur með fleiri raskanir en hún varð fyrir meiðslum í fæðingu og hefur ávallt verið sérkennileg. Hún er afar greind en mjög þver og misþroska. Seint verður of mikið á það minnst að óráðlegt er að koma hundum upp á svona leik.

Tilefni þessarar færslu er þó eilítið langsóttara.

Síðustu daga hefur hún átt það til að setjast fyrir framan ísskápinn og mæna upp á hann á tiltekinn stað. Í fyrstu hélt ég að húsfluga væri að ganga upp hlið skápsins, og væri það hundinum líkt að fylgjast með flugum á vegg.

Ekkert nýtt við að hún fylgist með flugum en hún stillti sér ávallt þannig upp að hún var greinilega að horfa á tiltekið svæði á hlið ísskápsins en ekki á hurðina. En hundarnir eiga það til að benda oft á hurðina ef kjöt er að þiðna þar inni fyrir.

Rétt í þessu gekk ég framhjá þar sem þetta átti sér stað. Lít ég á hundinn, síðan á ísskápinn, og rennur upp fyrir mér ljós. Hún var ítrekað að glápa á vasaljós sem er fest með segli við Ísskápinn. Það er vani úr sveitinni að hafa vasaljós á vísum stað ef rafmagnið færi.

Ég spyr mig í huganum, getur það verið? Svo ég tek vasaljósið niður og held á því. Það er eins og við manninn mælt. áður en ég næ að kveikja á ljósinu skellti hundurinn sér í stellingar; hún setur sig í keng, setur trýnið niður að gólfi og er tilbúin að elta ljósgeisla.

Var ég ekki nýbúinn að segja að hún vissi ekki hvaðan ljósgeislinn kæmi? Hún veit að hún getur ekki gripið ljósgeisla. Hún veit að hún á ekki að elta ljósgeisla. Magnað!

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.