Bannaðar tegundir og viðurkennd fræði

Á hverju ári eykst reynslan innanlands og margt sem mætti skoða. Sumar tegundir komast í fréttir fyrir bit en aðrar ekki og ræða mætti hvað ræður valinu á því. Í þessu samhengi mætti minnast á að Þýski fjárhundurinn (Sheffer) er áreiðanlegasta barnapía sem til er í hundaflórunni en margir halda að tegundin sé mannýg.

img-coll-0478Þá mætti benda á að margir reyndir þjálfarar hafa kynnst bönnuðum hundategundum og treysta sér til að þjálfa þær öðrum að skaðlausu. Því væri vert að ræða hvort reynt eða sérmenntað fólk, gæti sótt um leyfi til að meðhöndla varasamar hundategundir og þá eftir hvaða reglum. Vel mætti hugsa sér að slíkir gætu ekki látið hundinn frá sér né heldur hvolpa undan þeim.

Þá má ennfremur velta fyrir sér hversu mikið af ákvörðunum ríkisins þegar kemur að lögum um dýr séu byggðar á raunhæfu mati? Það er margt í Dýravelferðarlögum sem ekki stenst rýni fólks sem hefur unnið með dýr áratugum saman og lætur sér annt um dýravelferð. Það má vel spyrja sig hvort bannaðar tegundir séu byggðar á huglægu mati og fávisku frekar en hlutlægu mati og raunsæi.

Stundum bendi ég fólki á – varðandi lög um Dýravelferð – að dýr séu eign fólks og þau hafi ekkert að gera með mannréttindi. Þetta vekur margan þriðju kynslóðar borgarbúann til reiði og tilfinningagjósturs. Margt í þeirri borgarsiðfræði sem kemur fram í þess konar umræðum minnir oft meira á tíu ára barn í fullorðnum líkama sem elskar hvolpinn sem því var gefinn í gær – og á þessi fullyrðing jafnt við um elítuna og almenning.

Maður fyllist eðlilegri reiði þegar maður verður vitni að illri meðferð á dýrum eða heyrir um slíkt. Sumt sem við myndum flokka sem dýravelferð og ábyrga umgengni við dýr er hluti þess sem eitt sinn hét heilbrigð skynsemi. Þó maður skilji að mörgum gangi gott eitt til, þá þarf að spyrja hvort setja eigi lög um virðingu og dónaskap?

Ég var eitt sinn sammála hinni almennu skoðun fólks að rétt væri að setja lög um dýravelferð. Síðar heyrði ég áhugaverða skilgreiningu á þessu frá Noam Chomsky – sem er virtur samtíma heimspekingur – þar sem hann benti á þá augljósu staðreynd að dýr eru eign okkar og þurfa ekki mannréttindi.

Heimspekilega má ennfremur benda á að kaþólsk (Universal) mannréttindi eru vafasöm heimspekilega, því hvert ríki skilgreinir borgararéttindi sinna þegna og þau koma í raun engri alþjóðastofnun við. Þegar Sameinuðu Þjóðirnar skilgreina mannréttindi fyrir hönd sjálfstæðra ríkja, missa borgarar þessara ríkja réttinn til að skilgreina sín eigin borgararéttindi.

Þetta er þó atriði sem ég ræði frekar heimspekilega og set þá inn á hreinberg.is þar sem ég ræði slíkt. Viðhorfið má þó koma stuttlega fram.

Um allan heim ríkir í dag það viðhorf – hvort sem það er innprentað eða sjálfsprottið – að eðlilegt sé að fjölga endalausum reglugerðum um hvert einasta smáatriði mannlegs lífs og snertingu þess við náttúruna. Oft týnist heilbrigð skynsemi í þeim darraðardans tilfinninga og yfirborðskenndra skoðana sem myndast eins og stormkviður utanum þessar mótanir.

Ég hef lagt af ýmsar aðferðir í hundaþjálfun sem reyndir menn og sérfræðingar innprentuðu mér. Á síðustu hundraðogtuttugu árum hafa komið fram í það minnsta þrjár þjálfunarstefnur hvað þetta varðar. Sumar stefnur jaðra við ofbeldi og kúgun, aðrar við strangan aga og oft hörkulegar aðferðir, aðrar aðferðir beita dýpri sálfræði.

Ég hef orðið vitni að því að fólk sem aðhyllist þriðju stefnuna ætlaði að kæra einhvern fyrir dýra-ofbeldi sem beitti stefnu tvö. Enginn kæmist upp með í dag að beita stefnu eitt. Ég hef séð hópa fólks fyllast vandlætingu og ætla að hlaupa til og kalla á yfirvöld vegna huglægs mats á aðferðum sem á yfirborðinu virka harkalegar en eru dýrum meinlausar.

Í grein minni „Að mismuna hundafólki“ bendi ég á að þegar Hundaeftirlitin á Höfuðborgarsvæðinu veita afslætti á hundagjöldum á grundvelli atferlisnámskeiða, hafa þau ekkert faglegt mat á hvað sé vönduð atferlisþjálfun eða ekki, hvað þar skuli kennt eða hvað sé hæfur leiðbeinandi.

Mér vitanlega er ekki til fagið Hundaþjálfunarkennari, svo um Leiðbeinendur er að ræða. Yfirleitt er þess krafist að leiðbeinandi hafi lært í erlendum skóla þar að lútandi en ekki skilgreint hvað sá skóli kenni, hversu lengi, eða hvernig útskriftarpróf sé framkvæmt né hvaða stöðlum það sé byggt á.

Engin krafa er um það meðal borgara landsins að þetta sé fagrýnt og nánar skilgreint. Sem bendir til að fólk hefur ekki hugleitt þessa hluti. Yfirleitt þegar lítil rýni og fagumræða er um aðferðir r – hvað þá heimspekilegan og frumspekilegan grunn þeirra – fer oft umræða fólks út í allskyns huglæga storma.

Eins og hér er bent á, þá er oft mjög erfitt að meta sem áhorfandi hvort dýr sé raunverulega beitt ofbeldi af eiganda sínum eða hvort það sæti illri meðferð. Ennfremur er mjög erfitt að ákvarða hvar mörkin séu á því hvort við getum í raun skipt okkur af því, hvað svo sem tilfinningum okkar líður.

Eins er með hundategundir sem eru taldar erfiðar. Eins og áður segir, þá voru Sheffer hundar álitnir stórhættulegir fyrir fáeinum árum en fullyrðing um slíkt hvarflar varla að nokkrum manni í dag.

Hvað ef komin væri reglugerð sem myndi leyfa hundalöggunni að hirða alla vafasama hunda, á grundvelli yfirlýsinga í illa ígrunduðum kærum frá fólki sem er persónulega í nöp við einhvern hundaeiganda, og setja í tveggja daga varðhald og aflífun í kjölfarið og eigandinn þyrfti að ráða dýran lögfræðing (sem hann hefði ekki efni á) til að leysa málið?

Þetta síðastnefnda gæti virkað öfgafull yfirlýsing en veruleikinn á Íslandi í dag er mjög nærri þessari lýsingu og var enn alvarlegri fyrir örfáum árum. Í sumum sveitarfélögum er svo enn.

Ég hef lent í rökræðum við borgar-hunda-eigendur sem eru djarfir á yfirlýsingar um hvernig eigi að setja svona reglugerðir og framfylgja þeim, á aðra en sjálfa sig. Nær allt þetta fólk sem ég hef rætt við, fer að mínu mati mjög illa með hunda sína og væri aldrei treyst til að passa fyrir mig hund.

 

This entry was posted in Samfélag and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.