Af hundasorg og menningarhegðun

Ég hef séð tík syrgja hvolpana sína, hvern og einn einasta. Ég hef séð tík fagna hvolpi tveim árum eftir að hún missti hann.

img-coll-1653Ég hef séð hund syrgja kött sem bjó á sama heimili og varð fyrir bíl. Hann hjálpaði til við að grafa hann, og það var fest á mynd.

Ég hef oft séð hund fara til manneskju með hjartasár og sleikja þar sem hjartað er og síðan reyna að leggjast ofan á sára svæðið.

Ég hef séð hund niðurbrotinn af hjartasorg eftir að eigandi gaf hann á annað heimili.

Ég hef séð hund hlæja/gelta af gleði. Ég hef séð hund spangóla af innri sársauka. Ég hef séð hamingjusama hunda og kvíðafulla hunda.

Hátt í 60% hvolpa lenda í eigendaskiptum innan 18 mánaða aldurs.
Hundar hafa sömu tilfinningar og við. Það er mikilvægt að hugsa um það áður en fólk tekur sér hvolp “til að prófa” eða “bara fyrir börnin.” Hundur er lifandi vera og sér sig sem hluta af fjölskyldu (Pack).

Einar Ben sagði “aðgát skal höfð í nærveru sálar.” Sértu mér sammála, viltu þá deila áfram?

Um færsluna

Ég skrifaði framangreinda færslu veturinn 2010 til 2011 og setti einhversstaðar á Facebook síðu. Ég man ekki lengur (vorið 2020) hvar ég vistaði þetta þegar það var fyrst skrifað. Á þeim tíma var Hundasamfélagið enn ekki stofnað á Facebook en ég viðhélt á þessum tíma tveimur hundagrúppum sjálfur, sem ég síðar lokaði.

Ég skrifa um mjög margt og er iðinn við það, stundum held ég því til haga sem ég set saman og stundum ekki. Þessi færsla átti alltaf að koma hér inn á hundasport.is en ég gleymdi því og svo liðu árin.

Ég hélt þó til haga afriti á góðum stað, ekki síst fyrir að hún fór víða og þá undir nafni margra annarra. Örfáum dögum eftir að ég hafði skrifað hana sá ég hana birtast hér og þar á veggjum fólks sem tengdist mér á Feisinu og nær alltaf hafði fólk afritað textann og birti sem sinn eigin.

Ég var dálítið hissa á þessu, því ég hef það fyrir sið að birta eingöngu eigin skrif og ef ég nota setningu eða álit eftir einhvern annan, tek ég það fram. Á þessum árum gerðist það stöku sinnum að ég skrifaði stöðufærslu sem einhver afritaði með þessum hætti.

Ef ég tók eftir því og spurði viðkomandi hvers vegna hann gætti ekki heimildar, var stundum svarað “ég hélt að þú hefðir tekið þetta einhversstaðar annarsstaðar.” Eins og það hvarflaði ekki að fólki að svo skrýtinn maður sem ég er, gæti  skrifað eitthvað snjallt.

Kannski er ástæðan önnur. Ég fæ svo oft skammir fyrir skrýtnuna að kannski er ég kominn á nojuna.

Ég nefni þetta hér, meira til gamans en í einhverri alvöru, því ég hef tekið eftir að hegðun fólks á Vefnum hefur breyst síðustu árin og það deilir frekar færslum þar sem höfundur kemur þá fram undir nafni eða tekur fram að það fékk að láni.

Sem fyrr segir, ætlaði ég að vera löngu búinn að setja sorgarfærsluna hér inn. Ég veit ekki hvers vegna það hefur dregist svo lengi. Kannski vegna þess að í fimm ár var ég hættur að skrifa um hunda og skrifaði því sem nær einungis um menningarrýni og heimspeki.

Persónulega var ég í smá vandræðum með hvar ég ætti að setja þetta. Því efnislega er færslan mun meiri menningarrýni en hundarýni og mitt eigið verklag segir að þá eigi hún heima á hreinberg.is. Satt að segja tók það mig fáeinar vikur að útkljá þau innri átök.

Í það minnsta er það hérmeð skráð, ef lesandinn kann að hafa séð sorgarfærsluna einhversstaðar og undir nafni annars. Hún var mín í upphafi og þar sem mér þykir vænt um hana, vil ég að það sé bókað.

 

This entry was posted in Greinar and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.