Þegar maður fær sér hund er ætlast til þess að skrá hann. Er það vel og ekkert út á það að setja. Sjálfsagt er að hundur sem fylgir fjölskyldu sé skráður og fylgt þeim reglum sem skráning tiltekur. Ætlast er til að hundar séu ormahreinsaðir árlega. Hvolpar séu bólusettir tvisvar til þrisvar fyrsta árið, árlega næstu tvö og eftir það annað hvert ár.
Margt fólk er ómeðvitað um þá félagslegu og tilfinningalegu þörf sem hundur hefur. Oft er tekinn hvolpur og síðar þegar honum þarf að sinna er hann gefinn á annað heimili. Sumir hundar fara þannig á eigendaflakk. Heyrst hefur sú ágiskun að 40% hvolpa sem fá nýtt heimili lendi á eigendaflakki. Sé fólki settar reglur um hundahald og hvatt til að sækja til þjónustu fagaðila, gæti það vakið marga til meðvitundar um ábyrgð gagnvart dýrum sínum og er það vel.
Skráningu fylgir sú kvöð að eigandi hunds athugi sína grennd. Ekki má hafa hund í fjölbýli þar sem allar íbúðir nota sama stigagang. Í Reykjavík er sveigjanleiki gagnvart fjölbýli ef allar íbúðir hafa sérinngang. Á Hafnarfjarðar og Kópavogs svæði er einnig sveigjanleiki en íbúar í grennd hafa málsrétt. Í parhúsum á síðarnefnda svæðinu þarf eigandi hunds einnig að athuga hvort næsti granni sé sáttur við hundinn. Heilbrigðiseftirlit téðra bæjarfélaga setja reglur um hvaða hundar fá samþykki og hver ekki. Reglur annarra bæjarfélaga landsins eru mismunandi. Matís hefur reglur um hvaða tegundir sé bannað að flytja inn.
Þegar hundur er fyrst skráður, í fyrrgreind bæjarfélög þarf að greiða skráningargjald. Framvísa þarf staðfesingu frá Dýralækni um að hundurinn hafi fengið þá þjónustu sem hundaskráning krefst. Skráningargjald er einkvætt en jafnframt á að greiða skoðunargjald eða árgjald. Þannig er fyrsta árið tvöfaldur kostnaður en eftir það, svo lengi sem hundurinn lifir og fylgir sama eiganda, er greitt einfalt árgjald.
Nú kemur til kastanna afsláttur af árgjaldi. Fari hundaeigandi til viðurkennds hundaskóla og sæki þar hlýðninámskeið, sem ljúki með viðurkenndu prófi, fær hann afslátt af árgjaldinu. Heilbrigðiseftirlit gefur út lista yfir viðurkennda hundaskóla sem fólk getur leitað til um námskeið. Afsláttur af árgjaldi er yfirleitt helmingur eða 50%.
Stór og vaxandi hluti hundaþjálfara hérlendis er ósáttur við þetta fyrirkomulag. Menn eru þó sáttir við afsláttinn. Viðhorf hundaþjálfara er að hundar og hunda eigendur hafi hag af að sækja í þekkingu t.d. í formi námskeiða. Sú þekking veki til ábyrgðar um velferð dýrsins og ennfremur stuðli að öryggi fyrir börn, hunda og mannfólk, í þessari röð. Röðinni er stillt þannig upp því ljóst er að visst hlutfall þeirra hunda sem eru líflátnir fyrir bit brugðust í raun við áreiti sem þeir óttuðust en höfðu ekki tök á að ráða sér hundalögfræðing.
Hvers vegna eru þá hundaþjálfarar ósáttir? Á Íslandi er stór og ört vaxandi fjöldi hópa sem kenna hundaþjálfun af öllu tagi og stundar hana reglulega. Í öllum þessum klúbbum eru til staðar leiðbeinendur sem hafa leitað sér þekkingar og reynslu i leiðsögn, þjálfun, atferli, vandagreiningu ásamt úrlausnum fyrir hunda og eigendur þeirra. Í sumum tilfellum hafa þeir sótt námskeið erlendis, í öðrum tilfellum hérlendis og í enn öðrum leitað uppi hvíslara og reynslubolta til að leiðbeina sér og svara erfiðum spurningum. Margt þetta fólk býr yfir þekkingu sem lítið er ritað um, en er hluti reynsluheims þeirra sem taka dýratamningar alvarlega.
Heilbrigðis eftirlit viðurkennir nær ekkert af þessum hópum, utan örfárra takmarka. Er það vel, enda hlutverk eftirlitsins að framfylgja reglum, setja reglur og stuðla að öryggi manna og dýra. Heilbrigðisteftirlitin eru mönnuð vandvirku fólki sem tekur ábyrgð sína alvarlega. Hér eru þrjár brotalamir sem mismuna:
1. Það er menntamálaráðuneytis að skilgreina hver sé hæfur leiðbeinandi og hver ekki. 2. Það er varasamt að samþykkja prófútskrift frá einkaskóla sem hefur tvíþættan hag af því að yfir 80% nemenda útskrifist. 3. Heilbrigðis eftirlitin hafa lítt skilgreindar kröfur til þeirra prófa sem hundur – og eigandi hans – skuli standast.
Hér er þessum þrem þáttum varpað fram í þeirri von að vekja megi dálitla umhugsun og jafnvel umræðu. Á Höfuðborgarsvæðinu býr sívaxandi hópur sem stæðust mun fleiri próf en hlýðnipróf. Hundar sem búa á heimilum eigenda sem þekkingarlega gætu kennt hlýðninámskeið, vegna reynslu sinnar úr þjálfun vinnuhunda, leitarþjálfunar, hundafimi, fjársmölun, sleðahunda og efnaleitarhunda.
Til er sanngirnis leið gagnvart öllum hundum. Hún er er vinsæl í sífellt fleiri borgum erlendis og er afar einföld. Skilgreint er próf á vegum eftirlitsins, og greiða þarf kostnað af prófinu. Það mætti halda ársfjórðungslega og væri staðlað. Hunda eigandi sem sækja vill um afslátt árgjalds þarf að standast þetta próf. Hvert próftaki leitar til að undirbúa sitt próf væri þá hans mál.
Áður birt í Morgunblaðinu 24. apríl 2013