Hundaþjálfun

Þjálfun leitarhunda er gefandi og skemmtileg, bæði fyrir mann og hund. Þetta er íþrótt sem sameinar útivist, góðan félagsskap og samvinnu manns og hunds. Þetta síðast talda er ánetjandi fyrir hunda-elskendur.

Hundasport var stofnað sem umgjörð um þessa íþrótt fyrir leikmenn.  Við æfum vikulega á höfuðborgarsvæðinu. Í hnotskurn er æfing þannig:

Hundur í víðavangsleit

 • Þú og hundurinn þinn gangið um þar sem týnd manneskja felur sig.
 • Þegar hundurinn finnur manneskjuna, lætur hann þig vita.
 • Síðan vísar hann þér á týnda manninn.

Misjafnt er hvar æft er en reynt að hittast á stöðum sem auðvelt er að finna og þaðan ekið í leitarsvæði. Sumar æfingar eru innanbæjar en aðrar rétt utan við bæinn.

Aðeins er einn hundur æfður í senn og fylgjast allir eigendur með hverri æfingu. Þetta síðasta er mikilvægt því við lærum ekki síður af vinnu hinna hundanna en okkar eigin.

„Þegar ég hóf þjálfun vissi ég lítið um hunda. Hálfu ári seinna vissi ég meira en fólk sem átt hefur hund árum saman. Ég tók þó ekki eftir hvernig ég lærði það!“

Eigendahópurinn ber saman bækur sínar eftir hverja leit, hvað hafi verið gert síðast og hvað skuli gera á æfingunni. Hundar fá upphitun fyrir æfinguna til að fyrirbyggja harðsperrur.

Æfingareglur

 1. Taka leiðsögn vel.
 2. Regluleg mæting skilar árangri.
 3. Hundar eru að upplagi kurteisir og menn temja sér slíkt.

Vinnuaðferðir

Misjafnt er hvaða aðferðir eru notaðar í dýraþjálfun . Mjög fer eftir tíðaranda hvernig dýr eru tamin. Oft er blæbrigðamunur í þjálfun sem aðeins reynt fólk sér en skilur oft haf og himinn að.

Þrenns konar áherslur eru algengar í hundaþjálfun:

 1. Áhersla á tækni og tól.
 2. Áhersla á hegðunarmynstur og aðferðatækni.
 3. Sálræn tengsl manns og hunds í takt við hegðun.

Misjafnar aðferðir skila misgóðum árangri í þjálfun og gera misjafnar kröfur til eigenda og leiðbeinenda. Sú fyrsta gerir minnstar kröfur til eigandans og hentar betur þeim sem hafa lítinn tíma. Síðasta aðferðin gerir mikla kröfu um ástundun eigenda og viðhorf.

Tegund æfinga

 • Víðavangsleit.
 • Snjóflóðaleit eða snjóleit.
 • Sporaleit, og blóðhundaleit.
 • Hverfaleit.
 • Efnaleit.
 • Hundafimi og hundahlýðni.

Sumir æfa allar þessar leitir með sama hundinum, aðrir sérhæfa hunda sína. Þá fer eftir persónuleika hunds og aðstæðum til ástundunar hvaða áherslur eru lagðar. Umfram allt skiptir máli að hafa trú á hundinum sínum og hafa gaman af að vinna með honum.

Hafa má samband við Guðjón Elías í síma 778-1296 eða Brynjar í síma 663-5639 til að taka þátt.

Comments are closed.