Tennur og bein

Það er með hálfum hug sem ég skrifa þessa grein, því ég veit ekkert um tennur og bein, utan þess að bein eru stoðkerfi líkamans og tennur bryðja matinn og að þær þarf að bursta kvölds og morgna (mannfólk). Greinar mínar um heilbrigði fjalla þó ekki um vísindalega þekkingu heldur reynslu og hef ég  einhverja reynslu af tönnum og beinum.

Þegar ég eignaðist minn fyrsta hund vissi ég ekkert um tannhirðu þessara dýra. Þar sem ég var alinn upp í sveit var aldrei hugsað um tannhirðu hunda og yfirleitt entust tennur þeirra út ævina. Fljótlega lærði ég þó gildi þess að kaupa nagbein handa hundum því þannig ná þeir að hreinsa tannstein og styrkja tennur.

Rétt eins og þegar við vorum krakkar var mælt með harðfiski meðan tennur voru að vaxa, bæði efnanna vegna og eins vegna þess að nagið styrkti tennurnar. Auðvitað áttum við helst ekki að fá sykur eða aðra sýru sem eyðir glerjungi tannanna. Vissulega gilda sömu atriði um hunda.

Kallinn var því duglegur að kaupa nagbein handa hundum sínum. Ef hann sá tennur þeirra gulna smávegis var ljóst að hann hafði gleymt að kaupa nagbein og var fljótt greitt úr því. Eins og allir sveitamenn vita má gefa hundum bein að naga, og hundar elska að naga bein, en fljótlega kom á daginn að ekki má gefa hvaða bein sem er.

Kjúklingabein eru mjög smá, þó ekki öll, og í kjúklinum (og fiskum) geta verið bein sem stingast í að innan. Því var klárlega varasamt að gefa kjúklingabein. Þá lærðist fljótlega að öll soðin bein eru varasöm!

Bein hafa þann eiginleika að þau geta orðið stökk eftir suðu. Því gæti hundur lent í því þegar hann nagar legg af læri að hann bryðji upp í sig beinflísar sem kvarnast úr soðnu beininu. Þá eru bein mismunandi eftir tegundum dýra.

Fjárleggir og Svínaleggir eru auðbruddir, en þó er meiri sveigja í fjárbeininu. Sé gefið ósoðið svínabein koma háir smellir þegar hundurinn brýtur legginn, en þessa smelli hef ég ekki heyrt – í það minnsta ekki háværa – þegar fjárbein er brutt.

Stórgripaleggir eru mun harðari og getur tekið marga mánuði fyrir legg af kú að hverfa, en hins vegar hreinsar það tannstein mjög vel. Hrossaleggir eru hins vegar mýkri og auðbruddari, þó er mismunandi eftir því hvaðan af dýrinu beinið kemur. Leggir eru yfirleitt harðari en önnur bein enda hvílir þungi dýranna á þeim.

Smám saman lærðist þetta og maður keypti stundum fokdýr nagbein í næstu gæludýraverslun og stundum betlaði maður bein í næstu kjötvinnslu. Nagbein eru fokdýr en kjötvinnslubein mjög ódýr og stundum frítt. Líklega er lesandanum orðið ljóst að ég nota orðið nagbein yfir „framleidd búðarbein“ á móts við „bein“ sem eru þá af dýri.

Oft var ég steinhissa á hversu öflug sum beinin voru sem hurfu ofan í hundana. Ég gaf þeim óhikað hvaða bein sem þeir vildu, væri það ekki oddhvasst og ekki soðið.

Svo kom árið sem þrjár tennur brotnuðu. Ég var með fimm hunda á þessu tímabili og í einni viku brotnaði jaxl í tveim hundum. Þegar ég skoðaði hina þrjá sá ég að einn þeirra var með skemmdan jaxl en á að giska tveggja til þriggja vikna gömul skemmd.

Á þessum tíma hafði ég gefið hópnum hrá svínabein um það bil tvisvar í mánuði í meira en ár. Þar sem ég hafði aldrei lent í því að tennur hunda gætu brotnað í slíkum átökum hvarflaði ekki að mér að fara varlega í þetta. Auk þess trúði ég því að beinin væru þeim holl, enda eru bein stútfull af steinefnum og kalki.

Samstundis var rokið með hundana til dýralæknis sem hefur sérhæft sig í tannviðgerðum dýra. Ljóst var að draga þurti báða jaxlana en þriðji hundurinn mætti bíða í mánuð. Þar sem tönn kostar frá 30.000 til 60.000 eftir stærð og umfangi var viss léttir að þriðja aðgerðin mátti bíða.

Eins og ljóst má vera var þessi viðburður stór í mínum huga. Sleppum kostnaðinum, hann er upphæð sem maður kemst yfir. Hins vegar er leitt að þurfa að draga tönn úr hundi sem er vart orðinn miðaldra og sérstaklega vekur það stórar spurningar: Hvaða bein má ég gefa? Hvers vegna gáfu þrjár tennur sig á svo til sama tíma? Hvaða fæðu á ég að gefa þeim til að styrkja tennur? Hvernig á ég að hirða um þær?

Þetta eru stórar spurningar og það er dýrmætt að geta svarað þeim rétt. Síðan þetta var hef ég engin bein gefið nema nagbein úr verslun. Líklega fer ég örlítið yfir strikið í öfgum en þetta er þó stefna hópsins eins og er.

Síðan þetta var skoða ég vandlega upp í hvern hund í hverri viku, og reglulega þríf ég tennurnar ýmist með bursta eða klút. Sumir nota blautan þvottapoka en aðrir kaupa sérstakar tannþurrkur. Ég prófa líka mismunandi útgáfur af nagbeinum. Ekki læt ég mér nægja að kaupa bein sem hundarnir vilja heldur skoða einnig hve vel þau hreinsa.

Tökum nú vel eftir einu. Árið sem tennurnar þrjár brotnuðu hafði ég gefið hundunum ódýrt fæði í um það bil ár.

Frá hruni hafði ég þurft að nýta hverja krónu vandlega og smám saman var hópurinn minn kominn á ódýrasta fæðið. Þegar lagt var saman hvað hafði sparast við að kaupa ódýrt fóður og hvað tannaðgerðir kostuðu var enginn sparnarður, hvorki í krónum né heilsu.

Nú er alltaf vinsæl spurning meðal hundafólks: „hvaða fóður notar þú?“ Hér áður var ég alltaf á dýrasta fóðrinu og fór ekki niður fyrir meðalverð. Við þetta fór ég beint upp í meðalverð og helst upp fyrir það. Ég hef aldrei sett mig inn í hvað sé betra fóður eða verra, en hef þó heyrt mismunandi skoðanir frá ýmsu reyndu fólki.

Hefur það verið á stefnuskránni hjá mér að einn daginn læri ég næringarfræði hunda, sérstaklega ef vera kynni að ég myndi meira af heimagerðu fæði.

Þetta sem hér kemur fram var vissulega rætt fram og til baka við tannfræðinginn. Hún benti mér á að gott væri að gefa meira af lýsi og AB-mjólk en ég hefði áður gert. Hvorutveggja styrki bein og tennur. Benti hún mér á að nýlegri rannsóknir á lýsi hefðu leitt í ljós að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af of stórum skammti þeirra vítamína sem þar eru, en þegar ég var að alast upp var því haldið fram að A og D vítamín ætti að taka afar hóflega.

Síðan þetta var hef ég sumsé gætt þess að gefa nagbein reglulega. Vinsælustu nagbeinin þessa stundina innihalda jógúrtblöndu sem hefur hefur mjög góð áhrif á tannsteinsmyndun. Einnig kemur í ljós að þegar ég er duglegur að gefa AB-mjólk þá er minni tannsteinsmyndun.

Nú er ljóst að bæði Jógúrt og AB hefur jafnvægisáhrif á magasýrur, svo hér vaknar eðlileg spurning: Getur verið að að tannsteinsmyndun sé í hlutfalli við einhverjar magasýrur sem sleppa upp í gegnum vélinda? Nú er ljóst að mannfólk hefur skemmt glerjung tanna ef mikið er um uppsölur s.s. þegar þungaðar konur fara í gegnum morgunógleðis tímabil.

Einnig hef ég tekið eftir að tveir hundanna minna (ég á fjóra núna) fá meiri tannstein en hinir tveir. Þó eru allir hundarnir á sama fæði. Nema fyrrgreindir stelast oftar í að smakka á kúk, jafnvel sínum eigin. Því er mér ljóst að borði þeir mikið af eigin kúk, fá þeir verri sýrur en þegar þeir smakka á hrossa eða kindakúk.

Ég vil hér taka skýrt fram að ég banna mínum hundum ekki að smakka á grasbíta-kúk, ekki að öllu jöfnu. Það er vitað að hundar hafa innbyggða þörf, og jafnvel víta´min þörf, á að smakka þessi efni. En þeirra eigin kúkur er þeim ekki mjög eðlilegt að smakka. Ég undirstrika notkun orðsins „mjög“.

Allir hundar smakka kúk en mismikið. Tíkur þrífa alltaf upp kúk eftir hvolpa sína þar til þeim verður það um megn. Það er þó misjafnt hversu algengt er að hundar smakki sinn eigin, og hef ég heyrt að Sheffer sé ein duglegasta tegundin til þess. Sheffer er einmitt duglegasta tegundin í að fylgja fordæmi eigenda sinna og vel gæti verið að sú tegund taki upp sinn eigin því eigandinn gerir það, nema Sheffer kann ekki að setja í plastpoka.

Hver er niðurstaðan

Ég gef dýrt fóður, eða millidýrt. Ég gef fóður af vörumerki en ekki óþekkt eða líttþekkt fóður. (Ef ég get ekki mælt með fóðri þá fær það ekki að auglýsa á hundasport.is). Ég fylgist vandlega með feldi og skoða tennur vikulega. Allir mínir fá eina til þrjár matskeiðar af AB þrisvar í viku og eina skeið af lýsi með.

Ég ormahreinsa sjálfur á sumrin, auk þeirrar ormahreinsunar sem dýralæknir gerir í árlegu skoðuninni. Þá eru alltaf til nagbein og ýmsar útgáfur prófaðar. Stundum kaupi ég lifur, hjörtu eða nýru, sem er allt mjög ódýrt og sýð þetta ofan í dýrin mín.

Varðandi tannskoðun hef ég lent í því að ég bað dýralækni á einum dýraspítala að skoða tennur á tík (í árlegu skoðuninni). Hún hálfopnaði skoltinn og sagði „allt í fínu.“ Hún sá ekki augljósu tönnina sem ég vildi að hún skoðaði, svo ég fór beint sama dag með tíkina í skoðun hjá þeim tannfræðingi sem er í dag tannlæknir míns hóps.

Ef ég sé þau viðkvæm í maga gef ég þeim ósölt hrísgrjón þann daginn, og einstaka sinnum gef ég þeim ósaltaðan hafragraut. Þetta með hrísgrjónin lærði ég af konu sem á Sheffer hund sem er viðkvæmur í maga en hrísgrjónin hjálpuðu honum.

Stundum leyfi ég þeim að smakka grænt s.s. Broccoli bita eða gúrkubita og þau elska að skipta einni gulrót á milli sín. Þá gef ég nú orðið meira af nýmjólk en ég gerði og matarrjóma stöku sinnum – ég kem að því síðar.

 

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.