Margir hundar

Mín ástríða fyrir hundum nær til þjálfunar. Að eiga hund – fyrir mér – er meira en að eiga gæludýr. Hundurinn verður að fá verkefni, vinnu og þjálfun. Ég og hundurinn hljótum að eiga samfélag.

Þessi ástríða hefur náð svo langt að ég stunda reglulega þjálfun af ýmsum toga. Mest áberandi er leitarþjálfun, sem er bæði krefjandi og gefandi fyrir mann og hund. Frá því ég lærði þessa þjálfun, hefur sífellt reynt á mörk mín og hundanna að læra meira og ná lengra. Þegar reyndir þjálfarar sögðu mér að útilokað væri að þjálfa tvo hunda saman í leit, heyrði ég áskorun!

Heimilishundur

Margir hundaeigendur eiga tvo hunda, aðallega svo hundarnir eigi félagsskap hvor af öðrum. Flestir hundar þurfa að vera heima eða í pössun meðan eigendur eru í vinnu. Gott er að vita þegar hundur þarf að vera heima heilan dag að hann hefur félagsskap og væri þá síður einmana.

Hundar hugsa um sumt með sama lagi og menn, en sumt alls ekki. Staðreyndin er sú að hundum er að mörgu leiyti sama um félagsskap hvors annars. Báðir  bíða foringja síns og húsbónda, allan daginn. Í einlægum huga hundsins, hvort sem annar hundur er með eða ekki, þá bíður hann foringja síns. Hundur velur ævínlega foringja sinn fram yfir annan hund.

Þegar tveir hundar eru mikið saman, þá bindast þeir hvor öðrum á sama hátt og þeir bindast eiganda sínum. Annar hundurinn mun, fyrr eða síðar, bindast hinum hundinum sem foringja. Séu hundarnir teknir saman í gönguferðir, eða útivist, mun þetta sjást vel. Annar hundurinn verður fljótari að hlýða – eða taka eftir – hreyfingum frá hinum hundinum og fylgja honum í leik eða vinnu. Mun eigandinn – sem ætti að vera foringi beggja hunda – smám saman taka eftir smá frávikum í þessu.

Frávikin eru oft óljós fyrir fólki sem vinnur lítið með hundum sínum. Fyrstu einkennin eru að sá hundurinn sem “á annan foringja” mun ekki hlýða eins fljótt, eiganda sínum, eins og hinum hundinum. Sá hundur sem er þá orðinn foringi hins hundsins getur orðið örlítið frekari en er samt mjög hlýðinn eiganda sínum – foringja sínum.

Þetta skiptir engu máli fyrir fólk sem á hunda sem gæludýr. Sértu með tvo hunda, eða fleiri, sem halda hver öðrum félagsskap, þá eru þeir sinn eigin hópur (Pack). Manneskjan ræður alltaf, hún er sterkari og hún gefur matinn. Auk þess má búast við að foringi hópsins líti til manneskjunnar sem foringja. Fyrir flest heimili er munurinn svo lítill að engu skiptir.

Vinnuhundur

Fyrir þjálfun vinnuhunda skiptir framangreint miklu máli. Fari ég í vinnu með Sölku, sem lýtur á Ljúf sem foringja sinn, mun hún tengja minna við ætlun okkar. Auðvelt er að kenna henni tæknina, skipanir og aðferðir, en það er langt í frá að vera nóg.

Hundur í sínu náttúrulega umhverfi, sem lifir í hundahóp (Pack), starfar með öðrum hundum í hópnum. Þegar tveir eða fleiri hundar veiða saman, læra þeir af hreyfingum hver annars hvernig skuli bera sig að. Með leikjum og endurtekningum læra þeir að vinna saman. Reglan er sú að hundur þarf að sjá hið sama þrisvar, til að það sé lært.

Ítrekað hef ég tekið eftir að hundar hafa næmt skilningarvit fyrir hughrifum, bæði frá eiganda sínum og hver öðrum. Stundum er talað um að þeir gefi hátíðnihljóð sín á milli. Tökum dæmi um tvo hunda og einn sefur í forstofunni og hinn er hjá þér í stofunni. Þú gefur þeim síðarnefnda nammi, og annan nammimola, innan mínútu er hinn mættur!

Í vinnuþjálfun skiptir þetta máli. Hundur sem er að læra t.d. leitarvinnu með foringja sínum, þarf að vera jafn vakandi fyrir hreyfingum og viðbrögðum mannsins eins og væri hann forystuhundur í hóp. Hafi hann þessa tengingu við manninn, og kunni maðurinn að vinna með tenginguna, ná þeir frábærum árangri.

Ég hef séð marga menn (konur eru menn) þjálfa hund, jafnvel árum saman og marga hunda, án þess að ná tökum á þessari fínlegu tengingu.

Einfalt

Eigir þú fleiri hunda og vilt tryggja að báðir líti til þín sem foringja, er lausnin einföld: Leikur og vinna.

Hundur hefur ástríður af sama toga og við menn. Þeir elska og hata og sumt er þeim sama um. Þeir geta hins vegar ekki falið tilfinningar sínar eins og við. Ef þú leikur við hundinn þinn, t.d. með bolta eða í reipitogi, þá elskar hann leikinn, og þann sem vekur leikinn.

Ef þú tekur hundana sitt í hvoru lagi og leikur í tíu mínútur við hvorn þeirra, þá bindast þeir báðir við þig sem foringja. Vinna er hér gönguferð, en sama lögmál ræður. Taktu hvorn hund fyrir sig í tíu mínútna gönguferð, annan hvern dag, og björninn er unninn.

Það væri freistandi að útskýra þetta með fleiri orðum, en reynsla mín hefur kennt mér þetta og þetta er svona einfalt.

Reynslan

Ljúfur hefur verið hjá mér, þegar þetta er ritað, í þrjú ár. Salka er í dag tveggja ára og hefur verið hjá okkur síðan hún var þriggja mánaða. Frá upphafi hefur hún sofið í bælinu hjá Ljúfi, leikið við hann og fengið uppeldi frá honum, og farið með “okkur Ljúfi” í gönguferðir.

Eins og við er að búast batt hún foringjatengingu sína við Ljúf. Allir sem kynnast þessum rólynda Sheffer hundi falla fyrir honum, jafnvel fólk sem óttast stóra hunda hefur fallið fyrir honum.

Þegar kom að því að byggja upp þjálfun Sölku kom að sjálfsögðu í ljós að hún kærði sig ekki um skipanir “félaga síns í hópnum”. Svo ég fór eftir eigin tilsögn hér fyrir ofan. Hún fær tíu mínútna gönguferð annan hvern dag og þrisvar í viku fær hún sína eigin leikstund með mér. Í dag er hún minn hundur, hún valdi það sjálf, í gegnum leik og vinnu.

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.