Ég átti að hlusta

Fyrir þrem árum síðan sýndi Salka mér það hversu klár hún er og ég er reglulega minntur á það. Hún er klárasti leitarhundur sem ég hef þjálfað.

Það er ótrúlegt hversu klár hún er sérstaklega ef miðað er við hversu þjálfun hennar hefur mætt afgangi. Hún fer á æfingar á margra vikna fresti og yfirleitt æfð pínulítið í hvert sinn.

Fyrst ég á annað borð átti þennan hund þá var hún tekin með, en fókusinn var alltaf á Sheffer hundana. Tíminn hjá mér á æfingum fer yfirleitt mestur í að leiðbeina öðrum og hleypa þeirra hundum að svo mínir hundar mæta yfirleitt afgangi. Salka lenti einhverra hluta vegna aftast í afganginum.

Hún var rúmlega hálfs árs gömul þegar hún kunni markeringu með bæði hoppkrafsi og gelti – eftir atvikum – og þá í víðavangsleit. Hún var rétt ársgömul þegar hún fékk smá sporaleiðsögn – og það við fáránlegar aðstæður – en upp frá því hefur hún aldrei feilað í spori og sótt í erfið spor. Í víðavangsleit notar hún bæði loftlykt og athugar spor þegar hún leitar. Hverfaleit og rústaleit er eitthvað sem hún rúllaði upp á mettíma.

Hún er auk þess fyrsti hundurinn sem ég veit um sem getur paraleitað með reyndum hundi án sérstakrar grunnþjálfunar.

Snillingur? Líklega.

Þegar hún eignaðist hvolpana sína sýndi hún og sannaði enn og aftur hversu mikið er í hana spunnið enda duglegasta gotmóðir sem ég hef séð. Þvílík vinna sem hún lagði á sig við að ala upp hvolpana sína og þrífa upp eftir á – hef aldrei séð annað eins. Það var sárt þegar hún þurfti að kveðja börnin sín sex, sem fóru að meðaltali með þriggja daga fresti.

Næsta sólarhring á eftir hverjum hvolp fór hún í sífellu upp í sófann við gluggann, stakk trýninu í rifuna og þefaði, með flösu í fallega feldinum sínum.

Það er sorglegt hversu algengt er að fólk lætur hvolp flytja að heiman án þess að móðirin fái að hitta börnin sína aftur. Fólk tekur hund, lofar að leyfa eiganda gotsins að fá fréttir eða fylgjast með og gleymir svo hvar það fékk hvolpinn sinn eða gefur hann þegar hann er ekki lengur sætur hvolpur. Salka fékk þó að hitta eina dóttur sína aftur, nokkrum vikum síðar, og þær léku mikið þann dag.

Eins og sést á þessari upptalningu gæti ég skrifað til kvölds um þessa misskildu blendings tík. Hún er með Labrador gen í móður- og föðurætt. Faðirinn var einnig með Border Collie og móðirin með Íslensla fjárhundinn. Fyrir vikið er Salka með Labrador feld, eyru og andlit sem eru sambland úr Labrador og Border, spora á afturfótum og hringað skott.

Hún er því klassískur kokkteill, en ekki dæma eftir yfirborðinu.

Eins og allir mínir hundar er hún alin upp við að leysa verkefni. Reynslan hefur sýnt að hundur sem reglulega fær verkefni heima fyrir kveikir á heilabúinu og er því auðvelt að kenna honum flóknari vinnu. Eins og ljóst má vera notum við leiki til að kenna og því meira sem leikurinn er skemmtun því vinnusamari er hundurinn.

Salka elskar að leika sér með það dót sem er í boði á heimilinu. Það er ávallt í boði nóg af ýmsu dóti og það er áhugavert að fylgjast með hvað dótið flakkar um heimilið án þess að nokkur mannvera komi nærri. Reynslan hefur sýnt mér að þegar hundar hafa aðgang að dóti sem þeim líkar við þá eru þau notuð og aldrei nagaðir skór eða tættir sokkar heimafólks.

Hún á það til ef hún hefur ekki fengið verkefni, í einhvern tíma, að minna á sig.

Uppáhalds áminning hennar er þegar mannveran er nýbúin að slökkva ljósið á kvöldin. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef rankað við mér á milli svefns og vöku við að kaldur og blautur nebbi ýtti við öxlinni eða kinninni. Ef ég rumska gín hundshöfuð fáeina sentímetra frá andliti mínu, bolti eða annað dót í kjaftinum, og aftar sést í dillandi skott!

Engu tauti er við tíkina komandi á þessum stundum! Hún á rétt á sínu verkefni – enda mikil baráttutík fyrir hundaréttindum – svo næstu tíu mínútur er henni gert til þægðar. Það er ávallt gleði að gefa þessum hundi það sem hún biður hæversklega um, enda vart til blíðari skepna í hundheimum og þótt víðar væri leitað.

Rétt eins og áður er nefnt er hún passasöm upp á hundadót á heimilinu og elskar að leika með slíkt, hvort heldur einsömul eða í félagi við mannverur en síður við hina hundana, nema kannski uppeldisföður sinn Ljúf. Henni finnst auk þess sjálfsagður hlutur að mannvera sé reglulega áminnt um skemmtilegt dót og tilganginn með tilverunni.

Henni þykir sjálfsagt að mannveran sem kenndi henni að leika með dót elski það jafn mikið og hún sjálf.

Sem fyrr segir opnaði hún augu mín fyrir greind sinni fyrir þrem árum síðan. Dag einn var hún dálítið pirruð innifyrir og sýndi reglulega að hún þyrfti – eða vildi – komast út. Þar sem leitarhundar vita að á sig er hlustað og kunna að gefa til kynna hug sinn fór þetta ekki á milli mála. Í hvert sinn sem út var komið dró hún mannveruna beint að afturendanum á bílnum – þar sem hún er vön að fara inn og út um skotthurðina.

Þar sem útivist var ekki í boði þennan dag var heldur ekki í boði að opna bílinn. Því var farið í garðinn eða smá gönguferð. Allt kom fyrir ekki. Þegar inn var farið á ný var aftur bent með trýni á bílinn, annarri framlöpp lyft og smávegis rétt úr skottinu. Enginn vafi: Í bílinn karl!

Seinnipart dags opnaði ég því bílinn að aftan og leyfði tíkinni að fara inn í hann. Mér var orðið ljóst að hún væri ekki með magapínu.

Eins og örskot rauk hún inn í jeppann, þaðan í aftursætið, hnusað þar smávegis og svo fannst lyktin: Rauði boltinn sem hún hafði séð mig henda inn um afturhurðina tveim dögum fyrr hafði hafnað á gólfinu fyrir framan framsætið. Hann var sóttur og himinlifandi Salka kom út með hann. Ég mátti núna loka bílnum og Salka tók boltann með sér inn.

Eins og æfingafólk veit þá leggjum við hjá Hundasport mikið upp úr því að læra að hlusta á hundinn og að leiðrétta okkar skoðanir þegar hundurinn er á öðru máli. Það er algengt að við misskiljum hunda því við höfum ákveðið fyrirfram hvernig þeir hugsa og hvað þeir meina eða lesið eitthvað eftir frábæra besservissera. Framangreint atvik var eitt af stóru stökkunum í mínum reynsluheimi í þá átt að hlusta sífellt betur á hundinn.

Í dag var ég minntur á þetta atvik.

Í gær lagði ég mig í smástund í gamlan sófa sem er frammi. Ég var að velta fyrir mér úrlausnarefni í forritun sem vafðist fyrir mér og lagðist fyrir á meðan ég hvarf inn í verkefnið. Það er algengt að bestu lausnirnar í forritun séu fundnar þegar við stöndum upp frá tölvunni í smástund.

Eins og venjulega þegar ég leggst útaf safnast hundar í kringum og leggjast yfirleitt í vissum radíus. Sumir nær og aðrir fjær. Salka var hins vegar með eitthvað dót aðeins lengra frá og hafði engan áhuga á kúri. Hún hafði fundið gamlan fléttuspotta sem var orðinn of slitinn og tættur til að nota á æfingum en nógu heill til að hundar vildu hafa hann inni við.

Ég nota ekki sama dót á æfingum og heima, en þó alveg eins dót. Stundum er það betra en þó ekki algilt.

Smástund leið og kaldur nebbinn ýtir við mér. Ég opna augun og um leið og Salka nær augnasambandi sýnir hún með trýninu að eitthvað sé á milli sessu og sófa. Sem fyrr segir hef ég lært að treysta þessu þefvísa trýni svo ég gái. Ekkert finnst.

Ég stend upp og hjálpa henni að gá hvar dótið er. Á látbragði hundsins var augljóst hvað hún vildi segja mér: „Það er dót á milli sessu og sófa!“

Ég skoðaði sófann þvers og kruss, gáði undir, bakvið og leitaði af mér allan grun. Ekkert dót var á milli sessu og sófa. Ég var satt best að segja dálítið hissa, því Salka er mjög viss í sinni  sök þegar hún lætur vita hvað hún meinar.

Í dag var ég að ryksuga – já kallinn sjálfur! Annars staðar í stofunni kem ég að hægindastól og sé þar uppáhalds leikfang Sölku grafið milli sessu og stóls, svo kyrfilega fest að hundstrýnið hafði ekki náð því upp!

Hvað ef ég hefði staðið upp og sýnt Sölku með látbragði „sýndu mér?“ Hefði hún farið að stólnum og sýnt mér leikfangið sem hana langaði að fá? Mun ég hlusta betur næst?

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.