Tónfræði hópsins

Það er langt síðan ég átti einn hund og svo langt síðan að ég man varla lengur hvernig tilfinning það er. Þó kemur fyrir að ég sakna þess, en sjaldan lengur en sekúndubrot. Því ef ég myndi sakna þess í raun og veru myndi ég ekki vilja eiga þær persónur sem deila lífi mínu. Þvílík móðgun það væri þeim.

Hvernig getur nokkur maður hugsað sér líf án hunds? Ég reyndi nýlega að útskýra þetta fyrir manni sem gat með engu móti skilið þessa áráttu, eða þverplankaskap. Þar til ég spurði hann hvort hann gæti lifað án sjónvpars og kvöldfrétta?

Sjálfur hef ég ekki notað sjónvarp í bráðum þrjú ár. Ég sakna ekki einnar sekúndu af því glamri sem þar ræður ríkjum og skil með engu móti það fólk sem er hlekkjað við fjarstýringuna. Þeir hinir sömu, eða fleistir þeirra, eiga bágt með hversu eðlilegt mér þykir að sækja tauminn áður en ég fer í úlpuna.

Fyrst þegar ég var kominn með þrjá hunda lenti ég því uppi á kant við hópinn. Hvernig átti ég að segja Ljúfi að bíða meðan Salka myndi sækja hlut? Getur hundurinn greint á milli hver það er sem fær skipunina?

Nú eru mörg fræði sem telja fram að Höfrungar, Mannfólk, Sjimpansar og Fílar séu einu spendýrin sem fatti eigin spegilmynd og því einu spendýrin sem skilji hugtakið „ég“. En er þetta rétt? Getur verið að þegar Sunna þolir ekki Sölku – en dagleg rifrildi þeirra við matardallinn eru landsfræg – að hún þoli ekki svartan blending og geri þá engan greinarmun á Sölku og Kátu?

Salka og Káta eru svo líkar að gestir þekkja þær varla í sundur.

Hvers vegna rífst hún þá ekki við Kátu? Hún hefur tvisvar slegist við Kátu og einu sinni við Sölku. Enginn vafi er á því að henni er illa við svarta hunda og enginn veit hver ástæðan er, enda var hún átján mánaða þegar hún kom til mín en ég er sjötti eigandi hennar.  Samskipti Sunnu við Kátu eru útkljáð, báðar vita hvar þær standa. Salka er 30% Íslenskur fjárhundur og allir vita að þeir fundu upp þrjóskugenið fyrstir (og enginn vogar sér að rökræða það við þá) svo þær rífast.

Er þetta flókið? Hvað hefur þetta að gera með tónfræði hópsins?

Ég er sannfærður um það án þess að hafa nein haldbær rök fyrir því að hundurinn skilur hugtakið „ég“. Hvað hann sér þegar hann horfir í spegil veit ég ekki. Ég hef staðið með flestum mínum hundum fyrir framan spegla og pælt í þessu með þeim. Yfirleitt er þeim slétt sama um spegilmynd. Einu undantekningarnar eru stöku spegilmynd í rúðum þar sem þeir óvart hafa séð sjálfa sig á gönguferð og brugðist við. Um leið og ég hef leitt þá að rúðunni er málið útkljáð. Ég er einnig viss um að hundar mínir skilja hugtakið „rúða“ en hef engin rök fyrir því.

Fljótlega tók ég því eftir að hundur skilur hljóð á sinn hátt. Til að mynds „sestu Káta“ hljómar öðruvísi en „káta sestu“. Sömuleiðis hljómar „sestu“ ekki á sama hátt og „sitja“ eða „sittu“.

Einnig leyfi ég mér að efast um hvort hundur skilji hugtakið „heiti“ þó hann notið það. Þó er mér til efs hvort ég get leyft mér svo stóra fullyrðingu því öll spendýr nota hugtök svo mig grunar að þörfin til nafngiftar sé náttúruleg eða lífræn. Förum þó ekki of djúpt í hugtakagreiningar og heimspeki.

Með öðrum orðum hef ég tekið eftir að hundur tengið nafnið sitt við innkall en þó ekki alltaf. Eldri hundar mínir virðast skilja þegar talað er um þá án innkalls. Svo líklega kemur reynsla og vit með árafjölda. „Ljúfur komdu“ eða „komdu Ljúfur“ hljómar á annan veg heldur en setningin „Ljúfur vill helst borða í einrúmi“ í samræðutón. Reyndar skilur Ljúfur orðið „borða“. Hann hins vegar borðar ekki ótilneyddur nema í einrúmi, nema þegar eitthvað voðagott er í boði.

Smám saman tók ég því eftir að hundurinn skildi mig betur ef heiti hans kom á undan skipun. „Káta komdu“ hljómar allt öðru vísi en „komdu Káta“. Auk þess tók ég fljótt eftir að ef nafn kom á undan skipun þá brást bara réttur hundur við. Þetta fór þó eftir aldri hunds og reynslu. Einnig eftir atvikum því hundar finna á lyktinni ef það er nammi í vasanum á manneskjunni eða ef það er gúmmílykt af bolta nærri. Þannig eru hvatningar áhrif mismunandi.

Með tímanum hef ég tekið eftir að „tss“ er ekki hið sama og „tshss“ þó að mannverur sjái ekki alltaf muninn. Einnig virðist skipta máli hversu mjúkur líkami minn er í hreyfingum samfara hljóðnotkun. Einnig getur verið tónmunur á „tzz“ og „tss“ sem er mjög skýr í eyrum hunds beri hann virðingu fyrir þeim sem hljóðið ber fram.

Langt er síðan ég tók eftir að hundar hafa mismunandi tóntegundir í urri. Hundur getur lyppast niður við ákveðið urr frá hundi en hundsað urr frá sama hundi fáeinum mínútum síðar. Oft sést í samhengi þeirra atvika sem fram fara hver ástæðan er. Til að mynda hvers vegna er urrað, að hverjum, og svo framvegis.

Þá hef ég tekið eftir hvernig mannvera getur urrað með sama árangri en sú tækni er áreynslulaus fyrir raddböndin ef hryglan kemur neðst úr barkanum og er dálítið blaut. Satt að segja er manneskjuurr mjög áhrifamikið í leiðsögn- sé því ekki ofbeitt.

Í öllu þessu hef ég síðustu mánuði staðið mig að stytta nöfn hundanna. Mér hefur sýnst að hundarnir heyri fleiri hljóð í setningum en ég hélt. Ljú-f-ur hljómar öðruvísi en Ljúfur og ég tók eftir að Ljú dugar sem innkall. Ljú, Ljúf, Kát, Sun, Sal, Salk, Bir og Birt virka á þau öll og þau þekkja öll nafnið sitt í þessari útgáfu frá því áður en ég fór að bera það fram.

Hvað setningin Ljú F Ur táknar fyrir Ljúfi, er hans einkamál. Hvað Ká finnst um T  og U bullið aftan við nafnið sitt, er hennar mál. Hún skilur Ká Kom, en hvers vegna ég skuli troða T, U, og Du inn í, lítur hún á sem mína sérvisku.

Að endingu hef ég tekið eftir – og áður minnst á – að stundum heyrir maður ýlfur tón á leiðinni niður. Tónn sem heyrist ofan við okkar tónsvið er stundum að fjara út þegar hann kemur niður að okkar. Ef manneskjan er opin fyrir þessum tón heyrir hún rétt síðasta sekúdnubrot tónsins.

Mig grunar að sá tónn sé skýringin á því hvers vegna hundur inni í stofu veit að hundur gekk framhjá handan við götuna og einnig hvernig hundur hinu megin í húsinu veit að ég var að gefa öðrum hundi bein hérna megin.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.