Ormar og sjálfstætt fólk

Í kaupstað býr mikið af fólki með hunda sem veit hvernig hundurinn sinn er og ennfremur fólk sem treystir hundinum sínum og ekki síst fólk sem býr eitt heiminum. Þetta er fólkið sem sleppir hundinum sínum lausum út í garð.

Margt af þessu fólki fer út með hundinn án taums eða arkar um svæði þar sem annað fólk er með dýr og hagar sér eins og heimurinn sé þeirra einka. Til eru svo mörg dæmi um svona fólk að efni væri í heila bók ef ég safnaði saman öllu sem ég hef vitnað eða heyrt.

Verst er mér við apa í mannslíki sem sleppa hundum sínum lausum út í garð. Eitt sinn var hringt í mig út af því ljótasta af slíkum tilfellum. Maður hringdi til mín í örvæntingu seint um kvöld, nýbúinn að keyra á hund. Hundurinn hafði skokkað út úr limgerði við veginn, það var myrkur og hundurinn svartur Labrador, og hann hljóp beint á brettið á bílnum.

Hvorugur sá hinn fyrr en of seint. Hundurinn rauk vankaður og meiddur út í myrkrið og fannst tveim dögum síðar.

Eins gæti ég sagt þér sögu af hundi sem ítrekað týndist. Eigandinn treysti hundinum SÍNUM svo vel að hundinum var hleypt út í garð á hverju kvöldi til að gera þarfir sínar. Oft hefur hann fundist í næstu eða þarnæstu götu, og jafnvel mörgum götum frá, í eitt sinn í mínum garði.

  • „Gvöð, hún gerir þetta svo sjaldan, það grípur hana eitthvað. Ég bara skil þetta ekki!“
  • „Fáðu þér tjóðurband!“
  • „En hún gerir engum neitt.“

Þessi hundur og fleiri af hans tagi fengi meira út úr lífinu ef eigandinn nennti í gönguferðir með hundinum sínum. Margir af sjálfstæða fólkinu fara frekar með hundinn út fyrir bæjarmörk og sleppa honum lausum. Þetta er gert af góðum hug s.s. til að hundurinn fái hreyfingu.

Til eru snillingar af tagi sjálfstæða fólksins sem lætur hundinn elta bílinn: Þá eykst hætta á að hundur verði fyrir bíl auk þess sem hundurinn upplifir „ekki skilja mig eftir“ angist, þó hann venjist þessu.

Vissulega þurfa hundar hreyfingu en þeir fá mest út úr gönguferð með eiganda sínum. Sjálfur á ég fjóra hunda og þeir fá allir daglega gönguferð með kallinum – því miður oftar sem hópur en einstaklingar. Útivist eru þeir sáttir við vikulega eða tvisvar í viku, en dagleg útivera í taum, með kallinum sínum, það geyma þeir á góðum stað í sálinni.

Svo ég vitni í einn góðan mann, og orðlengi þetta sem minnst: „Síðasti fávitinn er enn ekki fæddur.“ Að þessu sögðu geta gerst slys. Ég hef sjálfur misst frá mér hund því hann náði að smokka af sér hálsbandinu. Það er reyndar mín sök, því ég hef hálsböndin í rýmra lagi. Ég er þá bara líka fáviti.

Hvað svo sem okkur finnst vitlaust í annarra venjum og fari þá er eftirfarandi regla í fyrsta sæti á mínum bæ:

  1. Hundur úti er hundur í taum.
  2. Hundur á gönguferð er hundur í taum.
  3. Hundur á lífi er hundur með hálsband og merki.
  4. Bæjarhundur í útilegu er hundur með tjóður, því hann veit ekki mun á kind eða rollu.
  5. Hundur á öruggu útivstarsvæði fær að vera laus en undir eftirliti.

Hundur er jú hundur en ekki barn, og hann hefur vígtennur. Hundar sem fyrst elta kindur glefsa í ull. Þetta gera líka sveitahundar í fyrstu skiptin og þeim er kennt að hætta glefsinu og læra að smala. Bæjarhundur sem er alinn upp hjá flestu bæjarfólki hefur ekki betra skynbragð og því miður hefur bæjarfólk ekki sömu tök á að leiðrétt svona lagað eftirá, því er betra að byrgja brunninn.

Höfum í huga þar sem hundur er hundur en ekki barn: Flestir hunar sem hafa glefsað í barn, gerðu það í sjálfsvörn! Nær ætíð því fullorðinn hafði ekki kennt barninu eða fylgst með. Því miður hafa sumir þessara hundar goldið með lífinu.

Verst er þó að fólkið sem ritað er um hér, er allflest ófært um að lesa greinar af þessu tagi. Þau hafa of háa greind til þess. Ég hef séð mann af þessu tagi rjúka til og ætla að endur-uppala einn hunda minna. Hann hélt að hann gæti sýnt mér á tíu mínútum inni á mínu eigin heimili og óspurður hvernig ætti að laga eitthvað sem honum fannst vera að einum hunda minna. Þú hefðir átt að sjá svipinn áhonum þegar ég skipaði hundinum beint í búr, og hann rauk úr höndum „hins færa hundaeiganda“ og beið þar meðan ég lokaði búrinu.

Sömuleiðis hef ég orðið vitni að því á hundahitting að ókunnugur maður á miðjum aldri æddi hálfur inn í bíl annars manns til að eiga samskipti við hundinn þar. Þegar hundinum mislíkaði, ætlaði mannfíflið að ala hundinn upp og kenna honum kurteisi. Sem betur fer náðist hann með tiltölum út úr bílnum aftur.

Sumt fólk hefur ekki haus á herðunum, heldur grjót með máluðum eyrum og augum. En því miður virkan gjallanda á grjótinu miðju.

Allt fólk sem minnst er á í þessari grein hefur átt hunda árum saman og telja það mælikvarða á þekkingu sína. Ég hef elt uppi að læra af fólki sem hefur mikla reynslu og er þekkt að næmu hunda-innsæi. Slíkt fólk herpir varirnar þegar það heyrir slíkar fullyrðingar og það hefur sem fæstar yfirlýsingar um hvað það kann eða hve mikla reynslu það hefur. Hundaþjálfun er listgrein. Þú veist aldrei hvað gerist í dag né heldur hvað þú lærir nýtt í dag.

Hvað kemur þetta ormum við

Allir hundar geta fengið orma, og oftar en ekki því þeir smökkuðu eithvað með ormum eða lirfum. Til eru grænblöðungar í náttúrunni sem geta hjálpað hundum að skila ormum út ef þeir fá að bíta nóg af þeim. Þetta hef ég séð með eigin augum.

Hvað sem því líður á að ormahreinsa hvern hund á Íslandi á hverju ári.

Þeir sem ekki skrá hunda sína til að spara eða fara árlega til Dýralæknis, „því það er sko í lagi með minn hund,“  eru ekki undanskyldir þessari skyldu. Þetta er bæði heilbrigð skynsemi og einnig í lögum. Þess utan er mælt með að hundar sem oft eru lausir eða á víðavangi fái ormalyf oftar.

Sumt hundafólk gefur ormalyf á miðsumri þó farið sé í ormalyf og bólusetningu að vetri.

Þó farið sé með hund í ormahreinsun árlega þá getur sem fyrr segir komið upp ormasmit hvenær sem er. Nóg er að hundur borði ormasmitaðan kúk – úr næsta garði, næst þegar hann skreppur yfir limgerðið.

Það er nefnilega þannig með greinda fólkið með grjóthausa, að þau gleyma því að til eru fleiri af sínu tagi. Það er sjaldan að ég rita svo sterk orð um annað fólk og forðast það í daglegu tali og riti, en sumt fólk á stundum skyrið skilið.

 

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.