Hugsanir hunda

Þegar ég var krakki bjó ég í sveit hjá ömmu minni. Áður hef ég ritað um hvernig unglingsárunum var eytt í félagsskap Loppu frá því ég var tólf til átján. Ef ég var úti við var ég með henni við leik og störf. Það var mitt hlutverk að reka úr túnum og meðan amma hafði kýr sá ég um að reka þær í haga og sækja þær til mjalta.

Amma kvartaði oft yfir að ég væri óduglegur að vera úti við, því ég hafði unun af að vera inni og lesa. Amma átti það til að nota svona athugasemdir til að minna mann á útiverkin. Þegar ég flutti að heiman sat þetta í mér, og ég trúði ömmu, að ég hefði verið meira inni en úti.

Amma dó haustið 2010, fullra 96 ára. Í einni af heimsóknum mínum til ömmu árið áður skrapp ég í fjárhúsin með föðurbróður mínum, sem enn býr á bænum. Áttum við eftirfarandi samræður meðan við sinntum gegningum.

„Ég er nú ekki hissa Elli minn þó þú sért með þessa hundadellu?“
„Nú?“ svara ég.
„Þú varst alltaf svo mikið náttúrubarn sem krakki.“
„Já er það? Alltaf hangandi inni að lesa.“ Svara ég að bragði.
„Já, þú ert grúskari, en þú varst öllum stundum úti að ganga um landið eða finna þér eitthvað að gera. Og hvað sem þú gerðir úti þá var hundurinn með þér.“

Stundum er gott fyrir okkur að fá sýn þeirra sem þekkja mann best og oft mismunandi sýn þeirra sem ólu mann upp, en hvaða sýn hefur hundurinn þinn á þig?  Hvernig hugsar hann þegar hann sér þig? Hvað upplifir hann þegar hann er með þér? Hvers vegna elskar hann þig? Elskar hundur, eða er hann bara smeðjulegur fylgjandi?

  • Hvernig hugsar hundur? Svarið er einfalt –  „öðruvísi en við.“
  • Hvernig líður hundi? Svarið er aftur einfalt – „eins og okkur.“

Þetta eru stórar fullyrðingar við einföldum spurningum. Umfram allt, eru engir tveir hundamenn (eða konur) sammála þessum fullyrðingum á sama hátt. Rétt eins og með lífið sjálft þá erum við sem betur fer afar ólík. Þetta er einn af hornsteinum að æfingastarfi hjá hundasport.is að við erum sammála um að vera ósammála. Við reynum eftir fremsta megni að virða ólíkar skoðanir hvers annars en að sama skapi að finna sameiginlegan farveg í æfingum.

Þetta síðasta merkir að leiðbeinandi stjórnar æfingum og framgangi þeirra en þú stjórnar hvað þú æfir með hundi þínum og hvernig þú elur hann upp. Ennfremur að allar skoðanir má ræða í sátt þó fólk sé ósammála.

Um svipað leiti og Hundasport.is var stofnað árið 2008 gafst ég upp á öllum rökræðum við hundafólk um hunda. Enda verið upptekinn þáttakandi í slíku um nokkurt skeið. Flestir leiðbeinendur í hundaþjálfun sem ég hef hitt getur haldið endalausar ræður um smæstu atriði varðandi hundaþjálfun og getur rekið upp hvernig aðrir leiðbeinendur eða höfundar hafi rangt fyrir sér. Endalausar hártogandir og fullyrðingar um hitt og þetta, þar sem sitt sýnist hverjum. Réttsýni í hundauppeldi, hundaviðhorfum, hundaheilbrigði, hundaþjálfun, og fullyrðingar um hvernig hundar hugsa.

Fljótlega tók ég eftir að ég var alveg eins. Á æfingum, örnámskeiðum og helgarnámskeiðum á vegum Hundasport.is gat ég sjálfur haldið endalaus eintöl um hitt og þetta. Sumt hafði ég lesið um, sumt hafði ég lært af öðrum leiðbeinendum, sumt hafði ég lært af æfingum hjá BHSÍ og LSL, sumt hjá reyndu hundafólki á útivistarsvæðum og hjá kennurum á Írlandi. Einstaka sinnum hafði ég lært eitthvað af hundinum sjálfum en verið svo upptekinn af fræðunum að ég fattaði ekki listina.

Að þessu sögðu hef ég hitt örfáa reynda þjálfara sem „segja minna og meina meira“ og leitast ég við að taka þá til fyrirmyndar.

Þegar augu mín opnuðust fyrir þessu reyndi ég að tileinka mér nýja siði. Ég vil læra hvernig hundurinn hugsar, af honum sjálfum. Ég vil ekki halda langar ræður yfir fólki sem langar að læra um hunda. Svo ég reyni að „segja minna og gera meira“ þegar að æfingum kemur. Á æfingum og námskeiðum reynum við eftir fremsta megni að „gera fyrst“ og „útskýra eftirá“ því oft þarf bara að benda á litlu táknin í hegðun og táknmáli hunda til að lærlingurinn læri. Markmiðið er í sjálfu sér að læra næmi frekar en tækni.

Nýlega lenti ég í smá orðrimmu við góðan hundamann sem ég virði mikils. Var rimman alveg óvart, og síðast þegar ég vissi, í góðu. Hún minnti mig á gamla tíma þegar ég umgekkst hundafólk sem nennti að þrefa um eðli hunda meðan hundarnir stóðu hjá og sögðu sína sögu án þess að nokkur sæi. Þá vaknaði löngun mín í að rita þessa grein.

Hvernig hundurinn hugsar

Algengt er það viðhorf að hundi líði illa í búri, rétt eins og okkur. Þetta er alrangt. Hundar eru að upplagi grenjadýr eins og refir, úlfar og sjakalar – þeirra nánustu frændur. Þegar tíu eða tuttugu hundar lifa í hjörð myndast efri stétt hópsins. Efri stéttin grefur sér greni ef jarðvegur býður uppá það og yfirleitt komast þar inn þrír til fimm hundar í röð. Lægri stétt er bannað að fara í grenið, en þó er ekki víst með got.

Innsti hundurinn kemst þá ekki út nema hinir fari út. Þarna er komin vísbending margs um það hvernig hundur hugsar. Hefurðu til að mynda tekið eftir hve þolinmóður hundurinn er þegar hann bíður? Hann getur lagst niður hvar sem er og beðið þolinmóður tímunum saman eins og í móki þar til hann fær færi á breytingu. Oft er hið eina sem gefur vísbendingu þess að hann sé vakandi hvernig hann stillir eyrun.

Þarna er einnig önnur vísbending um hvernig hundar hugsa. Þeir lærðu á tugþúsundum ára að hraustasta hjörðin var sú sem gerði hægðir sínar örlítið frá greninu og grenismunnanum. Því meira sem lagt er við munnann, því frekar myndast sjúkdómar og lykt, því meiri lykt og því meiri barátta um hver eigi grenið. Aðrar hjarðir gætu ásælt grenið sem er hundinum dýrmætt. Athuganir á úlfum á Baffinslandi eru áhugaverð lesning í þessu sambandi.

Eins og margir vita getur hundur verið tímunum saman án þess að pissa. Ef fylgst er náið með þessum dýrum sést hvernig þau geta driplað frá sér þvagi og sleikt sig á sama tíma og þannig myndað hringrás fyrir vökvann sinn meðan þau eru tímunum saman inni í greninu. Auk þess geta þau stjórnað þvagi mun betur en við, bæði tíkur og rakkar eiga þvag þegar þau koma inn úr gönguferð, og skiptir þá litlu hve mikið var pissað í gönguferð.

Piss er lyktargjafi sem sýnir hvert gengið var, hver sé hringurinn í kringum grenið og einnig skilaboð um hver er á ferðinni. Til dæmis er tík endalaust að merkja í nágrenni þegar líður að lóðaríi og á meðan á því stendur. Þegar rakkinn minn er á ferðalagi með mér þýðir ekkert að tjónka við hann t.d. á útilegum eða sem gestkomandi hjá landsbyggðarvinum, að kanna lykt í götunni og skvetta sinni eigin.

Á aldrinum fjögurra til sjö mánaða vaknar sjálfkrafa viss meðvitund hunds um piss og þau flóknu skilaboð sem í því felast. Hvernig hundurinn hugsar um þetta, að bíða, pissa, kúka? Það veit enginn. En lesa má margt út úr merkjum hans um þessa hluti og læra bæði að vinna með það og lifa með því.

Lyktin

Þá er þófalykt mikið áhugamál hjá hundum. Sérstklega ber á þessu áhugamáli fari ég út með einn hund, og síðan annan strax á eftir. Þá bregst ekki að rakið sé hvert fyrri hundurinn gekk. Eins og allir vita er lykt stórt áhugamál hunda og það er mælanlegt að þeir finna 110 sinnum meiri lykt og skírani en við gerum. Stundum er sagt að hundur finni ekki lykt af pizzu, heldur því sem er á henni.

Þó er merkilegt að þeir upplifa lykt á annan hátt en við. Salka hatar verksmiðjuframleidda lykt s.s. ilmvötn, ilmkerti og fleira af því tagi,  Káta einnig en báðar eru blendingar. Sheffer hundarnir mínir virðast minna viðkvæmir yfir verksmiðjulykt. Allir hundar vilja snúa frá andliti okkar þegar þeir kúra hjá okkur og helst vera til fóta. Þeim finnst greinilega lykt af andardrætti okkar verri en fótalyktin. Öllum mínum hundum virðist sama þó ég reyki nálægt þeim, en þeir koma aldrei nær sígarettu en tíu sentímetrum.

Mér þykir augljóst í dag, og eftir alla þá vinnu sem felst í æfingum að sterkasta lyktin sem þeir finna af okkur í leit er af andardrætti en ekki af húð, fatnaði eða örflygsum. Þegar hundur rekur slóð finnur hann sambland af þeirri lykt sem myndast þegar hróflað er við jarðvegi og grasi samanvið fíberinn úr skóm eða fatnaði – þetta er þó umdeilanlegt og ill mælanlegt.

Eitt er þó að mínu mati ljóst: Hundur er ekki jafn viðkvæmur yfir vondri lykt eins og mannfólkið, rétt eins og við erum ekki viðkvæm fyrir litum sem við sjáum. Hundurinn sér umhverfi sitt með nefinu eins og við sjáum með augum!

Búr

Allir hundar sem ég hef kynnst elska búr. Ég er ævinlega með jafnmörg búr inni eins og hundarnir eru margir. Sum búranna eru þannig að smella má hurðinni framan af búrinu og þau búr eru jafnan opin þegar hundarnir eru frjálsir og ég heima. Þegar ég fer að heiman fer hver hundur í sitt búr og þau eru jafnan snögg í búrin, enda líður þeim vel í þeim. Hið augljósa merki þess er að þau eru sporlétt í búrin en einnig að þegar búrin eru opin læðast þau mikið þangað inn til að sofa eða kúra.

Þá hef ég tekið eftir að þau velja sér búr sem þeim líkar og hafa þau misjafnar skoðanir. Ein Sheffer tík mín vill helst vera í pínulitlu búri sem hún getur varla snúið sér við inni í. Labrador/Border blendingurinn minn vill helst vera í stærsta búrinu, svo tvö dæmi séu tiltekin.

Þegar þetta er ritað hafa hundarnir allir aðgang að einu hópbúri sem var smíðað í bílskúr. Þar rúmast léttilega sex Sheffer hundar en enginn hundanna vill kúra þar á daginn, þau vilja öll litlu einstaklingsbúrin þegar þau læðast í búrakúr. Eina undantekningin er Sheffer tík sem stundum læðist á risadýnuna þar inni til að velta sér – en hún veltir sér að jafnaði einu sinni á dag og þá um miðjan daginn.

Aðalmálið er að búr veita hundi öryggiskennd og þegar hann venst því að eigandinn kemur aftur þá er hundurinn sáttur við búrið. Einnig skiptir máli að ekki sé hætta á að hundur fari sér að voða innanhúss eða hætta á að hann skaði óboðna gesti og sleppi síðan út. Ég hef lent í því að ársgömul tík braust út úr grindarbúri og beið mín í stofunni þegar ég kom heim. Þetta var eitt af hennar fyrstu skiptum ein í búri en var eftir þetta sett í hefðbundið öryggisbúr á daginn.

Síðan hef ég forðast grindarbúrin því þau eru í raun veigalítil. Hvað ef stór gluggi hefði verið opinn til að lofta út?

Til gamans má nefna að fólk sem umgengist hefur mína hundan, s.s. nágrannar, vinir, blaðburðarfólk og póstburðarfólk, hefur sagt mér að ekkert heyrist í þeim þegar þau eru í búrunum. (Káta var undantekning á þessu, en hún er eini hundurinn minn sem hefur mótmælt búrum, en Salka neitar að nota lítið búr.) Þó eru þau fljót að láta af mannaferðum við húsið ef ég er heima, og fagna með hávaða þegar ég kem heim. Ef ég myndi segja „að þau vilji ekki búrin“ því að ég heyri í þeim um leið og ég geng upp tröppurnar þá hefði ég rangt fyrir mér, en þetta veit ég vegna þess að ég hef spurt margt af því fólki sem kemur upp að húsinu þegar ég er að heiman og fæ alltaf sama svarið, ekkert heyrist í hundunum.

Þá er önnur mýta sú að hundur sem bíður einn heima ætti að bíða með öðrum hundi. Rétt eins og fólk heldur að vont sé að vera innilokaður í búri því fólk vill ekki vera innilokað í búrum, trúa margir að hundur þurfi félagsskap annarra hunda því fólki leiðist sé það einsamalt. Það eru ótrúlega margir sem halda að hundur hugsi eins og mannvera.

Vissulega er hundurinn félagsvera rétt eins og við. Vissulega líður honum vel þegar hann tilheyrir. Vissulega laðast hann að öðrum hundum. Líklega hefur lesandi minn giskað nú þegar á tilgang greinar minnar. Ég veit ekkert um það hvernig hundar hugsa, þó hef ég fullt af hugmyndum, og fullt af reynslu. Þó hef ég engan áhuga á hugmyndum mínum, því ég hef áhuga á hugmyndum hundins um sjálfan sig. Ég er fljótur að henda reglunum sem ég hef lesið um, þegar ég sé hundinn ósammála þeim.

Val hunda á félagsskap

Fyrir fáeinum dögum rakst ég á hund í nágrenninu. Hann var laus í garðinum sínum og hafði stungið sér yfir á göngustíg. Þegar hann sá mig með tvo hunda minna sperrtist hann við og vildi hitta þá. Mínir höfðu ekki séð hann, en ég snéri við og gaf þeim orð um að snúa við með mér (ég nota helst ekki taum sem stjórntæki). Um leið og hundurinn sá mína hunda snúa við í öfuga átt missti hann áhugann og trítlaði í garðinn sinn þar sem hann býr einsamall (eini hundurinn á heimilinu). Hann vildi frekar grenið sitt en félagsskap annarra hunda.

Í tvö ár vann ég á vinnustað sem bauð upp á bílageymslu undir húsinu. Ég var þá með stórt búr í bílnum sem var rúmgott fyrir einn Sheffer hund. Oft hafði ég því hundinn í bílnum á daginn svo ég átti auðvelt með viðrun. Ég notaði kaffipásur og matartíma til að hleypa hundinum út í smástund til að hreyfa sig og létta á sér. Yfirleitt kúrði hann eða svaf í bílnum á milli þessara skipta. Fólk sem fór í smókpásur leit oft inn í bílinn fyrir mig og iðulega sá að hann kúrði í rólegheitunum.

Þar sem ég veit af reynslu að hundum líður vel í búri var þetta ekki áhyggjuefni þó búrið væri í bílnum frekar en heima. Bílageymslan var þannig að hitastig í bílnum fór aldrei yfir eðlilegan lofthita því engin sól skein á hann.

Aldrei má skilja hund eftir í sólarhituðum bíl lengur en fimm til tíu mínútur, og aldrei yfirleitt. Auk þess er nauðsynlegt að hafa hitamæli í bílnum og læra á hitamyndun í bíl – helst bæði frammí og afturí.

Hundakúr

Tökum eftir að á morgnana var hann fyrstur að útihurðinni og ævinlega dró hann mig að bílnum á morgnana, þrátt fyrir að hinir hundarnir væru heima. Hann vildi frekar fara með mér í vinnuna – og hann vissi að fimm daga af sjö færum við þangað, því hundar venjast mynstrum – heldur en að vera heima með hundunum í hjörðinni.

Rúmu ári eftir að ég hætti á téðum vinnustað vildi þannig til að ég ók eftir götunni í átt að vinnustaðnum. Hundurinn var í aftursætinu og kúrði eins og oft þegar ég útrétta. Ég sá í baksýnisspeglinum hvar hann leit upp og í kringum sig. Skyndilega sperrti hann eyrun, leit ákafur í kringum sig, sóð upp og dillaði rólega rófunni og því næst kom hann fram á milli sætanna. Svo ég ók alla leið upp á húsinu eins og ég væri á leið í bílageymsluna, hundurinn sýndi meiri ákefð og var greinilega fullur tilhlökkunar að kúra í bílageymslunni.

Hvers vegna vildi hann frekar kúra einn í bílageymslunni en heima með hinum hundunum? Hvers vegna hlakkaði hann til átta tíma kúrs í bílageymslunni?

Í hjörðinni eru núna fjórir hundar, í fyrra voru þau fimm, og árin þrjú þar á undan fjögur. Meðan þetta er skrifað er einn hundur við fæturnar hjá mér, hann er yfirleitt inni í svefnherbergi eða frammi í forstofu. Ein tíkin liggur á dýnu frammi við forstofu, hún er yfirleitt við fæturnar á mér. Ein tík liggur í uppáhalds stólnum sínum útaf fyrir sig, en væri hún þar ekki þá myndi hún líklega kúra í hægri enda hornsófans, sú fjórða liggur á sæng sem er nærri sjónvarpinu en hún elskar að liggja á sængurfatnaði og þegar hún var yngri gróf hún oft kodda undan rúmteppi. Ekkert þeirra liggur saman!

Séu skoðaðar myndir af sleðahundum, villtum hundum og úlfum sést að þegar hundar eru orðnir kynþroska liggja þeir helst einir. Þetta er reynsla mín af öllum mínum hundum. Yfirleitt eiga þau sín eigin kúrisvæði og sjaldan að þau steli kúrisvæðum, þó kemur það fyrir. Hvolpar vilja þó kúra saman eða hjá eldri dýrum, það eru ófáir hvolpar sem hafa alist upp ofaná Ljúfi eða skottinu hans fram að kynþroskaskeiði eða þar til þau uppgötvuðu kallinn sinn.

Einu skiptin sem ég kem að hundum að kúra saman er þegar tveir deila sama kúrisvæði, til dæmis átti ég breiðan hægindastól sem allir hundar elskuðu að kúra í og stundum kom ég að hundum á þeim þrem svæðum heimilisins sem voru sama eðlis þ.e. uppáhalds kúrisvæði, en ég kem aldrei að þeim að kúra saman undir öðrum kringumstæðum. Þó vilja allir hundarnir kúra með mér þegar ég kúri.

Öll þau ár sem ég hef átt hunda, fremur en hund, hef ég séð sama mynstur, hundur sem bíður heima bíður húsbóndans, bíði hann með öðrum hundi bíða báðir húsbóndans. Sé þeim gefið val um félagsskap hvors annars eða vera einsamall með húsbóndanum munu þeir velja húsbóndann.

Svefntími

Hundarnir mínir eru allir lærðir á sömu bókina og Loppa. Þeir velja sér staði og kúra þar hvort sem ég er heima eða ekki. Þeir standa öðru hvoru upp til að teygja úr sér, snúa sér, færa sig á annan kúristað, ganga að hinum hundunum og þefa af þeim (ganga úr skugga um að allt sé í lagi) og kúra svo annarsstaðar. Aldrei sýna þeir á sér nein merki um að þeim leiðist heilu dagana og jafnvel dögum saman.

Ein mýta er í uppáhaldi hjá mér og það er svefntími hunda. Loppa sem áður var minnst á elskaði að kúra við útidyr bæjarnis á sumrin. Dyrnar voru þannig að hún komst sjálf inn væri kalt. Hún elskaði líka að kúra inni. Sjaldan fór hún lengra en hundrað metra frá bænum og þó hundur af næsta bæ (í leit að lóðatík) ætti leið hjá hafði hún engan áhuga á félagsskap annarra hunda, hún hélt sig heima. Hún entist til að skoppa með manni tímunum saman um jörðina og hafði ákaflega gaman af að reka fé úr túni eða hestahópinn úr tröðinni og inn á engi. Þess á milli kúrði hún.

Tjáningarfrelsi hunda

Þar sem allir hundar mínir kunna ennþá að leika sér og vita að ég hlusta á tungumál þeirra kemur fyrir um einu sinni í viku að einn og einn hundur kemur til mín með dót. Tökum vel eftir þessu merkjamáli:

Allir mínir hundar eru vanir leitaræfingum af einhverju tagi. Tveir þeirra eru æfðir í sporaleit og víðavangsleit. Einn þeirra er æfður í efnaleit, sá þriðji er óæfður en fær stundum að koma með. Allir hafa þeir grunn í hundafimi. Þetta merkir að hundar mínir eru æfðir í að gefa mér skilaboð og vita að ég les skilaboð þeirra þegar ég get og skil. Þeir eru sem minnst hlýðniþjálfaðir (sem þarf að laga) og eru ófeimnir að tjá skoðanir sínar. Þeim leiðist einu sinni í viku! Þess á milli kúra þeir, dagana langa rétt eins og aðrir hundar.

Ég læt hér staðar numið. Sem fyrr segir vil ég segja minna ef hægt er. Hins vegar lærði ég af Loppu, einnig síðar af góðu fólki á Írlandi og enn síðar af Kátu sem kenndi mér margt, en mest lærði ég líklega af Ljúfi, eða kannski af samlegðaráhrifum: Að ég veit ekkert fyrr en ég skil það, og ég skil það ekki nema sjá það án þess að ætla því hvað það merkir.

Með öðrum orðum, hundar hugsa eins og rándýr og þeir eiga samleið með okkur því við erum einnig rándýr. Þó hugsa þeir eftir öðrum hugarbrautum en við. Um leið og við ákveðum fyrirfram hvernig þeir hugsa, eða rökstyðjum endalaust minnstu smáatriði af skoðunum okkar eða visku úr bóklestri, að ég tali nú ekki um þegar við metumst um hver viti meira á grundvelli mismældrar reynslu, þá erum við hætt að lesa hugsanir hundsins af háttalagi hans.

Því miður hef ég stundum séð fólk mæta á æfingar sem er svo sannfært um að það skildi hundinn sinn að ekki var séns að þjálfa hundinn þó að hann hrópaði á þjálfun, því eigandinn vissi svo vel hvernig hundar hugsa að hann gat útskýrt í þaula hvernig téður hundur hugsaði.

Stundum hef ég til gamans tekið Birtu út úr bíl á námskeiðum, svo fólk taki andköf út af henni, því hún virðist svo öflugur vargur. Andartaki síðar tekur það andköf yfir hvað hún kann. Andartaki síðar fattar viðkomandi að hún er meinlaus vargur sem talar hátt.

Guðjón

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.