Vinnupróf eða vinnugleði

Sunna er efnaleitarhundur og fann Kanil á téðri æfingu.

Á æfingu gekk hundapar inn á svæðið sem var í útivist og vissi ekki af æfingunni. Þetta er þó ekki í frásögur færandi. Við völdum þetta æfingasvæði af tveim ástæðum, annars vegar því við ætluðum að æfa spor þennan dag (svo allir hundar voru í taumi) og hins vegar því við vildum æfa þar sem búast mætti við áreiti útivistarfólks.

Hluti þess að æfa hunda er að kenna þeim að bregðast við áreiti og á þessari æfingu var nóg af því. Talsverð umferð útivistarfólks, hundafólks og útreiðarfólks var um svæðið þennan dag en hæfilega mikið svo við fengum góða æfingu.

Fólkið sem minnst var á tók okkur tali, leyfði okkur að skoða Sheffer hundinn sinn. Þau könnuðust við vefsíðuna, sem var gaman að heyra. Það er fullt af fólki sem veit af vefsíðunni, sumt sem dettur inn á kvöldnámskeið á mánudögum og annað sem dettur inn á æfingar. Sú þjónusta sem Hundasport veitir er einstök á landinu og gott að vita hve margir vita af okkur.

Það eru ýmsir þættir sem gera þjónustu okkar einstaka og rétt að fara yfir þá.

Hundurinn er ávallt í fyrsta og síðasta sæti. Það er algeng þróun í hunda-menningu hérlendis að ef eigandi hunds fellur ekki rétt í hópinn á hann erfiðara með þáttöku í þeim félagsskap sem hann langar að vera í. Hjá Hundasport fylgjast leiðbeinendur grannt með því að slík viðhorf nái engri fótfestu. Þannig er einblýnt á að allir hundar eru velkomnir, án tillits til aldurs, persónuleika, eða tegundar. Allir hundar geta tekið eigendur sína með, jafnvel leiðinlega eigendur. Öll okkar starfsemi er miðuð að hundinum og á forsendum hundsins.

Við göngum svo langt í þessu að þó tveir mannlegir þáttakendur þoli ekki hvor annan og myndu ekki heilsast á öðrum vettvangi, mæta þeir samt á æfingar, og í friðsemd. Enda mæta þeir hundsins vegna.

Þetta merkir einnig að leiðbeinendur gera sér far um að lesa hvern hund (og samspil við eiganda hans) og finna hans getu og þarfir. Sérstaklega þegar viðkomandi hundur fer ekki eftir reglunum í hundabókinni. Þess vegna lítum við svo á að „hundaþjálfun er list“ en ekki vísindi eða tækni, því hver hundur er einstakur rétt eins og mannfólkið.

Síminn hjá leiðbeinendum er ávallt opinn. Oft hefur fólk hringt í leiðbeinanda hjá okkur og beðið um einkatíma. Sú þjónusta er vissulega í boði. Í níu af hverjum tíu tilfellum var símaráðlegging allt sem þurfti. Margir hafa hringt aftur og fengið viðbótar ráðleggingar eða gefið okkur fréttir af hvernig ráðlegging dugði til.

Við minnum því fólk á að síminn hjá leiðbeinanda er ávallt opinn fyrir hund í vanda án tillits til hvort hann er þáttandi í námskeiðum eða æfingum. Þetta er sama regla og áður, hundurinn er í fyrsta sæti. Við lítum svo á að símtal getur bætt líf hunds, eða samlíf hunds og eiganda, jafnvel bjargað lífi dýrsins. Lítið símtal fyrir leiðbeinanda gæti verið stærsta skref þessa hunds og því er síminn opinn.

Okkar markmið er jú bætt hundamenning og bætt lífsgæði hunda.

Einfaldari og skjótvirkari hlýðninámskeið. Við hjá hundasport höfum lengi boðið landsbyggðinni ódýr og hnitmiðuð hlýðninámskeið. Höfum við kennt á mörgum stöðum úti á landi og eru þessi námskeið ódýr.

Yfirleitt kemur fólki á óvart hversu mikið hver hundur getur lært á einni helgi. Við fullyrðum að klassísk hlýðninámskeið rúmist á tveim helgum, og við höfum margsýnt fram á það.

Við bjóðum ekki þessi námskeið á Höfuðborgarsvæðinu. Enda nóg af öðrum valkostum þar í boði og mjög gott starf unnið hjá hundaskólum. Viljum við helst láta það svið afskiptalaust en þjónum landsbyggð eftir því sem beðið er um.

Besta vinnuþjálfunin á landinu. Þetta eru stór orð svo rétt er að minna fyrst á samkeppnina.

Það er stunduð leitarþjálfun hjá tveim björgunarsveita klúbbum á landinu, BHSÍ og Leitarhundum. Þar er stunduð fagþjálfun sem miðar að prófi fyrir útkallshópa í björgunarsveitum. Mælum við með þessum aðilum sem vinna geysimikilvægt og gott starf. Við höfum vísað einstökum hundateymum hjá okkur á þessar sveitir frekar en okkar, þegar um efnilegt teymi er að ræða.

Þá má nefna vinnuhundadeild HRFÍ sem er mjög vel sinnt. Einnig er mikið og gott starf unnið í sleðahunda klúbbum og ýmsum öðrum aðilum. Okkar æfingar eru sérstakar um margt. Hjá okkur er æft í hverju sem þig gæti langað, nema smalahundar og snjóflóð.

Mest æfum við í víðavangsleit en það er vegna þess að flestir þáttakendur okkar hafa mikinn áhuga þar. Víðavangsleit gerir miklar kröfur til næmni, trausts og innsæis bæði eiganda og hunds, sem er mjög ögrandi.

Við höfum t.d. reynslu af að þjálfa hundafimi, framkvæma snjóleitir (ekki snjóflóðaleitir), þjálfa upp sporhunda, æfa efnaleitir (sama og fíknó nema önnur efni), rústa- og hverfaleitir bæði innanbæjar og í iðnaðarhverfum. Allt þetta á sömu vikulegu æfingunum, sem eru ókeypis og öllum opnar. Þetta er hvergi annars staðar í boði í einum pakka.

Að endingu

Á sömu æfingu: Týndi kallinn bíður eftir sporhundi sem er að hefja leit

Að lokum kemur skemmtilegt smáskot. Fólkið sem nefnt var í upphafi fannst ekki mikið til koma að við tökum engin próf fyrir leitarhundana okkar. Skildist okkur að tæplega væri mikið varið í okkar þjálfun fyrst engin væru prófin. Er þetta viðhorf skiljanlegt þar sem próf eru stór þáttur í mati á frammistöðu og getu í mannheimum. Sérstaklega mikilvægur þáttur í faghópum á borð við björgunarsveitir. Björgunarsveit getur ekki sent hund í útkall nema vita hvað hann getur.

Hundar hafa hins vegar engan skilning á prófum og þeir ráða ferðinni hjá okkur. Reynsla okkar er sú að eigendur sem miða vægi dýrsins út frá prófum í þjálfun hunda sinna ná skemur – eða þurfa lengri tíma – en þeir sem hafa lítinn áhuga á prófum. Þeir eru gjarnan uppteknir af smámunum í tækni hundanna, og yfirleitt óþolinmóðir gagnvart árangri þeirra. Þetta tvennt skynja hundar og það lokar á næmi fyrir tungumáli hundsins en þetta næmi, og traust til dýrsins, er forsenda góðs árangurs í þjálfun.

Stærstu verðlaun hunds í þjálfun er gleði eigandans yfir frammistöðu dýrsins og ef hundurinn „kláraði verkefnið með sóma“ en eigandinn var leiður útaf einhverjum ímynduðum kröfum úr kröfulista skynjaði hundurinn leiða eiganda síns og fékk því engin verðlaun þó hann fengi leik eða nammi í lokin. Þetta atriði, eða næmi á það, er hornsteinn góðrar þjálfunar. Sérstaklega reynir á þetta þegar komið er út í myrkraleit.

Þeir þjálfarar sem lengst ná í þjálfun dýra – af öllum tegundum – eru áhugasamir um stöðu, getu, og framgang hvers einstaklings fyrir sig. Þetta er sama regla og í upphafi, hundurinn á síðasta orðið en ekki prófið. Sá sem þetta ritar hefur oft þurft að breyta vinnureglum fyrir mismunandi einstaklinga í eigin hópi og af sömu tegund, jafnvel sama goti, vegna þessa.

Að þessu sögðu eru tveir hundar í hópnum okkar sem eru tilbúnir í B próf í víðavang. Annar þeirra er langt kominn í A hæfni. Tveir hundar hjá okkur eru stutt frá því að geta farið í efnapróf. Þrír hundar hjá okkur eru tilbúnir í C+ próf í víðavang. Tveir þeirra myndu standast próf í Spor II og annar þeirra mjög líklega í Spor III. Einn þessara hunda myndi útskrifast í rústaleit ef hann tæki slíkt próf.

Utan þessara hunda er stór hópur hunda síðustu fjögur árin sem æfðu fyrir C eða B, eða Spor I til II, en æfðu bara í smátíma. Hver veit nema eigendur þeirra byrji aftur. Mjög algengt er í svona æfingum að fólk prófar í smátíma. Fólk tekur mislangar pásur (leiðbeinendur einnig) og byrja margir aftur og æfa þá í mislangan tíma. Við höfum ekki reglur um ástundun frekar en um próf. Við erum fyrst og síðast að sinna æfingum sem „sameiginlegt áhugamál manns og hunds.“

Þessi starfsemi bætir líf og tilveru margra hunda, og eigenda, og hver veit: Einn daginn gæti hundur sem byrjaði hjá Hundasport bjargað mannslífi. Því vinnum við alla okkar vinnu af sömu vandvirkni og faghópar.

Umfram allt: Hundurinn á síðasta orðið. Ef þetta er ekki skemmtilegt, þá er það leiðinlegt.

 

 

This entry was posted in Hundaþjálfun and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.