Hundaheilsubót

Að vita af gæludýri á heimili hefur róandi áhrif á fólk. Hefur þetta verið mælt í ýmsum rannsóknum og hefur svipuð áhrif á alla aldurshópa. Smám saman færist í vöxt að fólk á hjúkrunar- og elliheimilum fái hunda og kisur í heimsókn. Slíkt hefur mælanleg áhrif á bata og batahraða. Einnig færist í vöxt tilfelli þar sem sálfræðingar nýta þessi áhrif fyrir fólk í samtalsmeðferðum.

Þá hefur er því haldið fraam að minna sé um hjarta-, æða-, og blóðþrýsingsvanda hjá fjölskyldum sem halda gæludýr.  Þá eru kisur sagðar róandi fyrir heimili og margir telja það vera ástæðuna fyrir að katta eigendur fá almennt síður heilablóðfall en annað fólk. Sjálfur tel ég að hundar hafi svipuð áhrif.

Mín reynsla af hundaeign er sú að þeir hafa jákvæð áhrif á allt sálarlífð.

Nú er meira og minna viðurkennt að minna er um kólesteról og hjartaáföll í hópi fólks sem á gæludýr, en almennt er talið að þetta stafi af aukinni útiveru og hreyfingu hjá þessu fólki en þeim sem ekki halda gæludýr.

Athuganir hafa leitt í ljós að börn á heimilum sem hafa ketti eða hunda hættir síður til astma og ofnæmis. Þó er þetta umdeilt atriði. Sjálfur þekki ég til heimilis þar sem ávallt var kisa til staðar en barn þar þróaði með sér ofnæmi fyrir feld og þá sérstaklega hundsfeld. Í því tilfelli þolir barnið betur kisur en hunda. Þetta er því umdeilt. Þó er yfirleitt talið að sé gæludýr til staðar þegar barn kemur í heiminn þá muni það ekki upplifa feldofnæmi síðar.

Enginn vafi er á því að hunda eigendur hreyfa sig meira en aðrir. Hundur þarf út að lágmarki tvisvar á sólarhring og jafnvel oftar. Margir fara út í tíu til fimmtán mínútur í senn og þá bara á næsta grasblett. Margir ganga þó lengra í það minnsta einu sinni á dag. Margir leggja á sig að aka út fyrir bæinn eða fara á afgirt hundasvæði til að leyfa dýrinu að leika sér og ganga þá aðeins með því. Aðrir láta nægja að skutla dýrinu út og aka í fyrsta gír smáspöl.

Þetta síðastnefnda er stórvarasamt fyrir hundinn, sem upplifir streituröskun við að passa að vera ekki skilinn eftir og er ávallt hætta á að hann hlaupi undir hjólin á bílnum, einnig er hundurinn utan sjónsviðs 75% af tímanum.

Nokkuð ljóst er að hundeigandi hreyfi sig meira en þeir sem ekki á hund.  Hann gerir sér oftar far um að setja á sig yfirhöfn og koma sér út. Þó það eitt og sér virðist ekki mikið má ekki líta framhjá að öll hreyfing er af hinu góða þó sum hreyfing sé meiri en önnur.

Löngu er vitað að hundar geta látið vita ef sykursjúkur er við blóðsykursfall eða flogaveikur er við það að fá flog. Misjafnt er hvort eigendur verðlauni hundum fyrir að láta vita og líklega er ekki mjög algengt að fólk þekki merkin. Nú gæti hundur látið þig vita af einvherju en þú ekki kunnað táknmál hans. Því er vitað að þeir hundar sem láta vita af blæbrigðabreytingum í daglegri heilsu eigandans eru oft hundar sem búa hjá vönu hundafólki. Með vönu á ég við þá sem eru vanir að vinna með táknmál hunda en ekki endilega þá sem eru vanir að eiga hunda.

Að eiga gæludýr krefst meira en bara að kaupa mat, hreinsa upp eftir það, eða sinna hreyfiþörf þess. Dýr er miklu meira en lifandi dúkka. Öll spendýr hafa tilfinningar og það er hollt að læra að nema þessar tilfinningar og vinna með þær. Allir sem átt hafa gæludýr hafa lært á einhvern hátt að meta þessa þætti. Það er mjög þroskandi að læra tjáskipti við dýrið en þannig þróast eigin næmi fyrir tjáningu annarra og hefur yfirleitt góð áhrif á samskiptahæfi við annað fólk. Til eru hópar erlendis sem kenna vandræða unglingum að þjálfa hunda einmitt vegna þessa auk þess sem það þroskar ábyrgðarkennd.

Virðing

Virðing er mikilvæg innan allra dýrahópa. Í hunda- og kattasamfélögum eru þróaðar samskiptareglur og skýr virðingarmörk. Þú sérð ekki kött eða hund ýta við öðrum til að komast framhjá og helst ekki stíga ofan á önnur liggjandi dýr. Að læra á þessi tákn, og ávinna virðingu dýrsins er djúp reynsla hverjum manni. Eftir því sem þú ávinnur virðingu dýra opnast líka fyrir aðra þætti mæði manna og dýra á þessu sviði.

Má hér nefna að hundar bindast djúpum vináttuböndum við hvor annan og einnig við fólk. Margir reyndir þjálfarar halda því fram að hundar hafi samskonar tilfinningalíf og við, þó þeir hugsi á aðra vegu. Kisur aftur á móti hafa annars konar tilfinningalíf en margt í hugsun þeirra svipar til okkar. Reyndir gæludýra eigendur, og dýratemjarar, hafa lært og þroskað með sér næmi á þessa þætti og er það mjöjg gefandi.

Mjög sjaldgæft er að þú heyrir manneskju sem á gæludýr segjast vera einmana eða án tilgangs í lífinu. Sú tilfinning að einhver tilheyrir þér, og þarfnast þín, og að endurgjalda þá tilfinningu þykir afar gefandi. Sérstaklega því hún minnir okkur á að þú þarft ekki að verðskulda ást. Við elskum dýrin okkar hvort sem þau verðskulda ást eða ekki og við sjálf verðskuldum og njótum, þess sama.

Ekki má gleyma því að gæludýr geta aukið á félagslegt samneyti við annað fólk. Algengt er að fólk vilji klappa hundum sem það mætir á gönguferðum. Sá sem þetta ritar lendir oft í að krakkar í hverfinu klappi Sheffernum og það er þeim í hollt (bæði hundinum og börnum) að læra á hvort annað.  Alls kyns félagslíf er til í kringum dýrahald, sýingar og hittingar auk spjallsíðna til. Er það bæði gefandi að kynnast öðru fólki og læra á menningu þessara klúbba.

 

This entry was posted in Greinar and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.