Hundamistökin

Mér hefur alltaf þótt snilldin áhugaverð. Sérstaklega hjá öllum hinum, en þó kannast ég vel við hana hjá sjálfum mér. Allir hundaeigendur vita best og kunna best. Enginn þeirra tekur tilsögn og enginn þeirra gerir mistök.

Hver einasti hundamaður með reynslu veit nákvæmlega hvað er rétt, hvers vegna það er rétt, hvernig á að gera hluti og hvað á ekki að gera. Umfram allt veit hann hvað sé góða hundafólkið og hvað sé vonda hundafólkið.

Þá finnst mér skemmtilegt hvernig hundafólk – og aftur ég meðtalinn – getur talað endalaust um sama hlutinn, útskýrt sömu smáatriðin- eins og rispuð plata sem endurtekur sig í sífellu – og hefur lítinn skilning á því að allir áheyrendur skildu – eða misskildu – á fyrstu setningu.

Að þessu sögðu er rétt að taka fram að ekki er hér um gagnrýni að ræða. Allir sem elska hunda mjög mikið eru félagslega fatlaðir í mannlegum veruleika. Við erum týpurnar sem hittum annað hundafólk á förnum vegi – eða æfingum – og eftirá munum við nafn hundsins þeirra en ekki þeirra eigin. Þess vegna líður okkur svo vel með hundum. Við skiljum hunda betur en fólk.

Þessi atriði koma fram í fleiri rituðum greinum hjá mér og ég undirstrika þau að gefnu tilefni. Hjá Hundasport reynum við af fremsta megni að taka tillit til þessa og vinna með það. Við reynum af fremsta megni að setja til hliðar þegar fólk greinir á og setjum hundinn í fyrsta sæti. Því tilheyrir að þegar við sjáum hund vinna eftir sinni eigin uppskrift setjum við til hliðar uppskriftina sem við lásum í bók eða lærðum á námskeiði. Við setjum þessa uppskrift til hliðar og vinnum með persónuleika hundsins. Þess vegna er hundaþjálfun list, því hún hefur meira með innsæi og reynslu að gera en lærða tækni.

Fyrir fáeinum árum rakst ég á þann vegg að fáir aðrir leiðbeinendur höfðu alið upp og þjálfað hóp. Ég fékk hvergi trausta leiðsögn á því hvernig ég ætti að ala upp minn eigin hóp og þjálfa hann. Svo ég stækkaði hópinn og ákvað að fara út fyrir þægindahringinn. Í tvö ár – eða rúmlega það – lét ég hópinn ala sig upp sjálfan. Ég fylgdist með, lærði og athugaði, og komst að nýjum hlutum. Umfram allt, og það skiptir hér mestu, lærði ég fullt af mistökum.

Ef þú kemur á æfingu – eða námskeið – hjá hundasport hefur þú sama svigrúm. Þú mátt gera mistök og hundurinn þinn má vera ómögulegur. Við lærum af því og umfram allt, vinnum með það.

Ég rek mig oft á að fólk sem kemur með hund inn á svæði hjá okkur reynir að afsaka villurnar eða hegðunarvanda – sem þau sjá aðeins sjálf – og eru hálf feimin ef hundurinn þeirra er á einn veg eða annan. Yfirleitt misskilja þau glottið sem kemur á leiðbeinandann. Hann er búinn að vera í miklu verri málum, gera miklu stærri mistök, en læra af þeim. Hann er heldur ekki leiðbeinandi vegna þess að hann geri hlutina rétt, heldur því hann gerir mistök.

Stærstu mistökin sem hann lærði, sem bæði eru þau fyrstu sem hann þurfti að leiðrétta og þarf að leiðrétta sjálfan sig oft á, eru þau að hann veit ekki allt. Hundurinn veit best og bendir best á. Þess vegna glottum við. Því við vitum að þú ert bara einhvers staðar í sama ferli.

Í allra góðra bænum, gerðu mistök. Viðurkenndu þessi mistök þegar þú sérð þau. Lærðu af þeim og taktu framförum. Haltu áfram að gera mistök og prófa þig áfram. Viðurkenndu rétt hinna til að gera mistök og áður en þú leiðréttir þá spurðu og hlustaðu. Kannski vita hinir besservisserarnir af  mistökum sínum og eru að vinna í þeim.

Snilldin við að leiðbeina þessu fólki – mér meðtalinn, því allt hundafólk er eins með þetta – er að spyrja hvort það vilji ábendingu og hafa hana eins einfalda og hægt er. Fólk elskar að uppgötva sjálft, sérstaklega með jafningjaþáttöku.

 

This entry was posted in Hundaþjálfun and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.