Trú, Traust og Táknmál

Stóru stoðirnar þrjár í hundaþjálfun eru trú, traust og táknmál. Ef þú vilt fá hund þinn til einhvers, en trúir ekki að hann geti það – eða að þú getir framkallað það – þá mun það aldrei gerast.

Leitarhundur

Sjálfur hef ég séð hund standa í stað, á vikulegum æfingum, í marga mánuði. Foringi hans stillti upp æfingu í hverri viku, með eitt markmið í huga. Eftir fjóra mánuði fattaði hundurinn hvað foringinn vildi – eða foringi hans kom því rétt til skila – og þeir hafa síðan tekið miklum framförum. Það þarf mikla trú til að taka svona skref.

Þegar þú treystir hundinum þínum, þá þekkirðu hann. Getur þú treyst fólki sem þú ekki þekkir? Þú getur sýnt því traust, en gerir samt ráð fyrir að taka fallinu ef það bregst þér. Fólk sem þú þekkir, sem sýnt hefur áreiðanleika, því er treyst, það er eins með hund.

Þú þekkir hundinn, veist hvernig hann hugsar, hvernig honum líður, og treystir honum eftir því. Þú veist því hverju þú mátt búast við, og hvaða mörk hann hefur í vinnu og lærdómi. Þetta helst í hentur við trú.

Táknmál hunda, eins og allt í þeirra veröld, eru hnitmiðuð og skýr. Mannfólk á erfitt með að sjá þau. Sem dæmi má nefna að ég beiti vissri aðgerð til að leiðrétta Sunnu þegar hún gjammar á ketti, en Sunna tekur lítið mark á því. Birta systir hennar leiðréttir hana með einu augna-tilliti, sem fátt mannfólk hefur séð, og Sunna hlíðir.

Birta á það til að leiðrétta got-systur sína við ýmsar aðstæður, og oft harkalega, en jafn oft kemur hún og athugar með hana ef hana grunar að Sunnu líði illa.

Mjög auðvelt er að misskilja þessi táknmál. Ég hef séð tík heilsa hvolpi, mánuði eftir að hvolpurinn var tekinn frá henni: Eigendur beggja sáu hana ráðast á hvolpinn af hörku. Þessa hegðun hef ég margsinnis séð, en ekki sem grimmd. Hundur á það til að heilsa löngu týndum ástvini með því að hlaupa utan í hann, hrinda honum og taka í hálskragann. Þeir sem skipta sér ekki af því munu sjá þau í glaðlegum eltingaleik andartaki síðar.

Táknmál hunda er þeim meðfætt, en okkur ekki. Því meira sem þú horfir á táknmál þeirra  með opnum huga, því meir muntu skilja það. Þegar áðurnefnd tík heilsaði afkvæmi sínu var hún að flaðra upp um gesti – en áhorfendur sáu mun harkalegri hreyfingar og túlkuðu á táknmáli mannfólks.

Táknmál hunda er mun harkalegra en okkar og opinn hugur reynir að sjá það táknmál með þeirra augum. Sá sem lærir þetta tákn mál nær mun lengra í hundaþjálfun en sá sem kann hundrað aðferðir utanbókar.

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.