Hundar og pissutími

Tíkur geyma piss alveg og rakkar en eftir öðru mynstri. Tík sem er að lóða merkir sér hverfið rétt eins og rakki gerir. Hún setur lyktarbletti hér og auðveldar þannig rökkum á stórsvæðinu að finna sig. Þannig getur hún eignast afkvæmi.

Tík sem er ekki í lóðastandi né nærri því, fer út og pissar vænan pol. Hún á þó alltaf eitthvað piss eftir og gæti hæglega farið strax út aftur og pissað meira. Jafnvel merkt tvo til þrjá staði. Hún tæmir blöðruna aldrei alveg – rétt eins og rakkinn. Rakki hugsar þetta öðruvísi en tíkin þó hafa þau sömu líffræði til skyldrar hegðunar.

Rakkinn notar þvag allt árið um kring til að merkja bletti á sínu svæði, og sýna hvar hann fer um. Hann getur skilið eftir slóð fyrir sjálfan sig til að rekja leiðina heim aftur, og þetta getur tíkin einnig. Í náttúrunni þar sem hundar skanna mjög stór svæði á veiðiferðum er eigin lykt notuð til að finna rétta leið aftur. Þannig lætur hann einnig aðra rakka vita af sínum heimasvæði og skilur eftir slóðir fyrir tíkur í rakkahug að finna hvar hann sé.

Hundar nota fleira en pissulykt til að finna rétta leið, en þeir þefa einnig upp fótalykt. Allir hundar gefa tá-lykt frá þófum sínum, ekkert síður en við. Öll spendýr hafa þessa getu – og hún er bara óvinsæl í mannaheimum. Þessi lykt er einnig þefuð uppi til að vita hver úr hópnum hefur farið hvar. Ég nefni dæmi: Ég á hundahóp og annan hvern dag fer ég með þau út að ganga eitt í einu, hvert á fætur öðru. Það bregst ekki að þau þefa uppi hvar ég gekk með hundinn sem fór út síðast, og það á gangstéttum.

Það er algengt að rakkar pissi á sömu stöðum í hverfinu sínu, til að viðhalda lykt á lykilstöðum og einnig pissa þeir yfir annarra piss. Bæði pissa þeir yfir þar sem tíkur – sérstaklega eigin tíkur – hafa pissað og eins þar sem aðrir rakkar hafa merkt. Þannig er pissið mikilvægur samskiptamáti.

Því er lyktinni er viðhaldið á lykilsvæðum og einnig er málað yfir aðkomulykt. Rétt eins og við drögum línu gagnvart öðru fólki hvað garðinn okkar snertir.

Það sem okkur mannfólki þykir merkilegast er hve blaðra hundanna hefur mikið svigrúm fyrir piss. Ef þú átt tík geturðu farið með hana út að pissa fimm mínútum eftir að þið komuð inn úr pissuferð, og viti menn: Áður en þú veist af setur hún niður einn pissublett. Hundur geymir alltaf nokkra dropa í blöðrunni. Þetta finnst mannfólki ótrúlegt, því mannablaðra krefst þess að vera tæmd í hvert sinn.

Einnig er merkilegt hvað þeir geta haldið í sér. Ítrekað stend ég rakka að því að halda í sér og og geyma piss ef hann kemst ekki í gönguferð. Þegar mikið álag er á heimilinu kemur fyrir að ég fer bara í garðinn með tíkurnar, þær pissa þar og eru sáttar. Rakkinn hins vegar heldur í sér og er í mesta lagi að hann létti örlítið á þrýsting. Piss er honum mikilvægt til að merkja hverfið og svona getur hann látið í allt að tvo daga, þá fyrst kemur góð buna í garðinn. Þess á milli virðist honum ekki vera mál að fara út meira en hinum. Þetta síðasta tek ég fram því allir mínir hundar „láta vita ef þeir nauðsynlega þurfa út í kúk eða piss.“

Það er margt sem er líkt með okkur og hundum þegar að tilfinningum kemur. Þegar kemur að þeirra persónulega lífi er margt hjá þeim sem er gjörlólíkt okkur. Flest stóru mistökin sem fólk gerir í uppeldi hunda er einmitt þegar ekki er gerður greinarmunur á því sem er líkt með okkur og hundum eða ólíkt.

Nú þurfa mínir hundar oft að vera í búri hálfan daginn – og örsjaldan fullan vinnudag – eins og gengur hjá kaupstaðarhundum. Eru þau öll sátt við búrin sem eru alltaf opin þegar ég er heima, og nota þau búrin mikið til að kúra í að eigin frumkvæði.

Ég hef reglulega prófað pissuþörf þeirra þannig: Þegar heim er komið opna ég búrin, helli mér uppá, skipti um föt, sest í eldhúsið með kaffibolla, og tek það rólega. Þannig hef ég komist upp með að bíða hátt í tvo tíma áður en fyrsti hundur „krefst“ þess að fara í garðinn. Þannig hef ég sannreynt að þeirra upplifun á pissuþörf hefur margfalt þol á við okkur.

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.