Banna hundategundir

Sumar hundategundir eru bannaðar með lögum frá Alþingi. Þetta eru stórir hundar sem ræktaðir eru sem varð- og árásarhundar. Það er ekki tilefnið hér að gagnrýna lagasetningu Alþingis.

Í dag birtist forsíðugrein á Fréttablaðinu sem skoða mér Hér. Þar er fjallað um skoðun Hundaræktarfélags Íslands (HRFÍ) á hundahaldi og hundamenningu á landinu.

Við lesturinn fær maður á tilfinninguna að HRFÍ hafi eitthvað að gera með lög og reglur um hundahald á Íslandi. Einnig kemur fram viðhorf sem oft er áberandi í hundaklúbbum, orðalagið “óæskilegir hundaeigendur”!

Hundaeign hefur stóraukist síðustu ár og til margir hundaklúbbar á landinu. Hundasport æfir leitar- og björgunarhunda utan björgunarsveita. Til er vinnuhópur sem stundar Hundafimi. Til eru hið minnsta tveir Sleðahundaklúbbar. Á landinu eru þrjú eða fjögur Smalahundafélög. Doberman klúbburinn æfir reglulega hlýðni og fimi. Tvær björgunarsveitir stunda fagþjálfun björgunarhunda. Þrjú hundaræktarfélög eru starfandi á landinu. Hundaræktarfélag Íslands er stærsta félag á landinu um hundarækt.

Tveir hundar í áflogum

Allir þessir hópar eru félagsskapur áhugamanna um hundaþjálfun og hundarækt. Í öllum þessum hópum eru mismunandi skoðanir og viðhorf áberandi til þess hvað sé óæskilegur hundaeigandi. Í öllum þessum hópum eru áberandi skoðanir á því hvernig ala skuli upp mismunandi tegundir.

Ef einhver einn af þessum klúbbum fengi að setja lög fyrir landið um “rétta og æskilega hundaeigendur” eða um “rétt viðhorf til þjálfunar” eða “hina réttu tækni til ræktunar” yrðu flestir hinna klúbbanna gerðir útlægir.

Almenningsálit

Almenningsálit varðandi áhugamál á borð við hundaeign er viðkvæmt. Mörg viðhorf sem “allir vita að séu rétt” eiga það til að falla við nánari skoðun, tökum dæmi:

Eitt sinn slapp ársgömul Sheffer tík frá eiganda sínum í gönguferð þegar taumur slitnaði. Hún rauk að hundi sem gelti að henni í gegnum girðingu. Í æsingnum varð smá glefs á milli hundanna og annar þeirra meiddist. Í látunum heyrði hundurinn ekki í eiganda sínum fyrr en við fimmta kall. Um leið og tíkin heyrði í eigandanum rauk hún til hans og var þá hársbreidd frá því að eigandi hins hundsins sparkaði í hana. Tíkin hefur aldrei sýnt neinni manneskju, né hundi, neina grimmd. Hins vegar er hún ung og á það til að gelta að ókunnugum hundum.

Téð tík er vön því að umgangast ókunnuga hunda. Þegar eigendurnir tóku mál saman, báðir æstir, kom ýmislegt í ljós. Eigandi hins hundsins lítur á Sheffer sem grimma árásarhunda! Hans viðhorf var “árás er besta vörnin” því allir vita að Sheffer sé grimmur árásarhundur. Þegar hann fékk tækifæri til að kynnast tíkinni komst hann að raun um að hún er blíð og hlýðin.

Nýlega kom í fréttum að Chihuahua hundur varð fyrir barðinu á Husky hundi sem drap hana. Fréttin blés þetta upp þannig að Tjúinn væri varnarlaust grey og stóri hundurinn grimmt kvikyndi. Þegar betur var að gáð voru báðir hundarnir rakkar og höfðu tekist á um yfirráð á útivistarsvæði. Stærri hundurinn hafði farið á hlýðnihundanámskeið og tók reglulega þátt í sleðaþjálfun. Tjúinn hafði aldrei fengið hlýðninámskeið, var óskráður, og hafði öll hegðunareinkenni hunds sem heldur að hann sé foringinn á heimilinu. Eigandi hans hafði öskrað og æpt á meðan hundarnir tókust á og æst sinn hund meira upp.

Chihuhua hundar eru mjög smáir og húð þeirra þunn. Fætur þeirra eru agnarmjóir og viðkvæmir. Tjúar eru að meðaltali þrjú kíló að þyngd en fullvaskinn Husky er í kringum þrjátíu kíló. Auðvelt er fyrir hund sem er tíu sinnum stærrri og með tífalt meiri bitkraft, að stórskaða Tjúann óvart. Koma þessar staðreyndir fram í frétt?

Allir ógeltir rakkar takast á um yfirráð á útivistarsvæðum. Eigendur þessara hunda mega ávallt búast við því að annar rakkinn skaðist við slíkar aðstæður. Þetta er nokkuð sem búast má við í þeim aðstæðum. Kemur það fram í fréttum?

Algengt er að Chihuahua hundar hafi foringjavandamál. Þeir eru teknir í fangið þegar þeir biðja um það. Eigendur þeirra taka þátt í gjamminu með þeim – hundur gerir ekki greinarmun á orðinu þegiðu, vondur hundur, eða öðrum æsingsorðum þegar þeir gjamma. Þeir heyra bara eigandann taka þátt. Þegar gjammhundur er vaninn af gjammi er fyrsta reglan sú að eigandi þegi meðan gjammið á sér stað. Flestir heimilis-tjúar fá það sem þeir vilja þegar þeir vilja og almennt er komið fram við þá eins og puntudýr. Slíkir hundar halda að þeir séu foringinn á heimilinu og tekur oft dálítinn tíma að breyta því. Eðlilegt er að slíkir hundar séu agressívir við aðra hunda. Þeir reyna að halda yfirráðum sínum.

Eitt sinn var ung Malinois tík sem átti það til að gjamma á gönguferðum. Eigendur hennar höfðu ekki farið á hlýðninámskeið og kunnu ekki að taka á gjamminu. Gjammið var reyndar ávallt gegn öðrum hundum og ekki stórvandamál. Vanur leiðbeinandi hefði hjálpað þeim að laga þetta í tveim einkatímum. Þau spurðu dýralækninn ráða sem ráðlagði þeim að setja múl á hundinn á gönguferðum.

Hundurinn lærði aldrei að hafa hemil á sér, lærði enga hlýðni, og þvert á móti þróaði með sér kvíða og óöryggi. Hundar sem ekki hafa skoltinn lausann eru jafn bjargarlausir og manneskja sem gengur um handjárnuð í myrkri. Hundurinn notar nef, tungu og skolta sem hendur og þarf á því að halda.

Eigendur þessarar tíkur voru óstyrk þegar hundurinn gerði eitthvað sem þau þekktu ekki og enginn leiðbeindi þeim. Þegar þau hittu leiðbeinanda sem benti á að múllinn gæti gert hundinn varasaman, horfðu þau á hann með svip; Dýrlæknirinn vissi betur!

Eitt sinn tók ungur maður að sér tveggja ára Doberman tík. Eigandi hennar var einn þeirra sem finnst karlmennskutákn að hafa hund lausan í garðinum sínum. Tíkin var tveggja ára gömul, glaðleg og blíð eins og Doberman er að upplagi. Tveim vikum síðar var hún orðin taugaveikluð og varasöm. Á daginn var hún höfð í stóru búri úti í garði meðan eigandinn var við vinnu. Þegar hún gelti í örvæntingu og einmanaleik, á kærustu eiganda síns sem var heima við, kom hún út í garð, sparkaði í hundinn og setti í múl. Nágrannar sáu aðfarirnar en eigandinn ekki. Þegar tíkin var orðin erfið, var hún dæmd sem erfiður og varasamur Doberman og var látin fara.

Eru um erfiðar tegundir að ræða? Er smáhundur varasamari en stór hundur?

Sá sem þetta skrifar hefur hjálpað erfiðum hundum að þróa mild viðhorf, bæði stórum og smáum. Án undantekninga, hundum sem fengu uppeldi og kennslu af vanþekkingu. Í öllum tilfellum hundar sem þurftu leiðsögn og leiðréttingu frá ábyrgum og yfirveguðum aðila. Aldrei var vandamálið fólgið í því að hundurinn væri stór eða af einni tegund frekar en annarri.

Það er jafn fáránlegt að banna Doberman hund og Papillon hund. Það er ekki fáránlegt að krefjast þess að fólk með hund hafi lært að fara með hund.

Hundur hefur vígtennur, hann er rándýr sem elskar hrátt kjöt og getur brutt bein. Tjúi getur bitið af þér fingur ef hann vill! Border Collie hundar geta handleggsbrotið mann, eða rifið úr honum barkakýlið. Hundar eru ekki leikföng og alls ekki brúður.

Vissulega eru sumar hundategundir viðkvæmari en aðrar. Það er auðvelt að eyðileggja Doberman hund og það er auðvelt að eyðileggja Tjúa. Munurinn er sá að Doberman er stór og sterkur, Tjúinn pínulítill.

Margir hundar tileinka sér þar að auki viðhorf og tilfinningalíf eigenda sinna. Yfirleitt veistu meira um eiganda hundsins af að horfa á hundinn hans en að horfa á eigandann.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.