Orgía

Sá sem þetta ritar hefur kynnst æfingahópum, leiðbeinendum, innlendum námskeiðum og hundafélagsskap af ýmsum toga. Oft hef ég skammast mín fyrir að tilheyra þeim stóra hópi fólks sem hefur hundarækt og hundaþjálfun sem áhugamál.

Grimmur Sheffer hundur að éta kött

Gegnumsneytt eru ríkjandi svo neikvæð viðhorf í mörgum þessara hópa að manni finnst nóg um: Rígur á milli manna. Neikvæður rógur um aðra. Rógburður um fólk sem rógberinn þekkir ekki neitt. Sláandi yfirlýsingar um “hvernig á að þjálfa” eða “hvernig á að rækta”. Að ekki sé minnst á yfirlýsingar um hverjir eyðileggja hunda, eða þaðan af verra.

Tískan

Á hverjum tíma eru  tískustraumar ríkjandi, og tíska er svöl. Fyrir tíu árum vildu allir eiga Sheffer hund. Svo kom Tjúatímabilið. Núna ríkir Huský tímabilið með tilheyrandi dellu fyrir hundum sem draga fólk. Sjálfur ven ég mína hunda á að draga mig ekkert.

Þannig eru tískusveiflur í hundamenningu sem öðru. Núna tröllríður allri umfjöllun að banna eigi fólki að eiga stóra hunda, nema hafa til þess leyfi. Svipað og byssuleyfi. Vinsælir námskeiða-leiðbeinendur eru áberandi í þeirri umræðu.

Fyrr á þessu ári fór eldur í sinu umræðunnar: Allir áttu að hata og fyrirlíta Cesar Milan (The Dog Whisperer) og allt sem hann gerði var vond illmennska. Margir Íslendingar hafa lært aðferðafræði hans og nota hnitmiðað með ágætum, svo eru aðrir sem klúðra því. Þannig er lífið. Margir smiðir eru sífellt með plástur á puttunum, aðrir smíða listaverk.

Áberandi umræða vill banna hálskeðjur. Sjálfur nota ég ekki hálskeðju ef ég kemst hjá því. Endurtek: Ef ég kemst hjá því. Til eru aðstæður í þjálfun þar sem grípa þarf til ákveðinna aðferða eða tækja. Það er ekkert rangt að nota keðjusög til að fella tré. En ef þú beitir keðjusög á fótinn á þér þá sagarðu hann af á tveim sekúndum. Á þá að banna keðjusagir?

Oft finnst mér umræðan í hundahópum vera af þessum toga. Banna skal allt sem er öðruvísi en mín skoðun. Banna skal fólk sem er öðruvísi en ég!

Það verður alltaf til fólk sem vill eiga stóra hunda. Meirihluti þessa fólks fer vel með hunda sína, sækir námskeið, stundar útiveru, fer á æfingar eða sýningar með tilheyrandi þjálfun. Mannkynið er samsett af almennilegu fólki með mismunandi skoðanir. Mannkynið er miklu betra, en fréttir og hundaumræður gefa til kynna. Vondu eplin eru mun færri en fréttablöðin gefa til kynna.

Hinsegin dagar alla daga

Á æfingum hjá Hundasport er forðast að vera með róg um aðra þáttakendur og aðra hundahópa. Aðrir hópar eru að þjálfa hunda, margir gera það öðruvísi. Okkur finnst það fínt.

Allir hópar sem stunda hundaþjálfun eru að gera góða hluti. Þeir stuðla að heilbrigðri hundamenningu á landinu. Við megum öll vera öðruvísi. Það má vera hinsegin. Það kemur einn daginn á námsskrá hundaskólanna, vona ég.

Hver einasti hundahópur á landinu trúir að hann sé betri en aðrir. Munurinn er sá að hjá hundasport.is reynum við að sýna það í verki hundanna. Ég segi þér ekki hversu góður hundurinn minn er: Þú ert velkomin á æfingu og sjá það með eigin augum. Þannig störfum við.

Hið sama á við um samkomulag á æfingum, bæði milli þáttakenda og leiðbeinenda. Ef meðlimir í æfingahópnum eru ósáttir, þá leysa þeir það sín á milli og utan æfinga. Leiðbeinendur okkar fylgjast með að þetta sé gert og leysa úr deilumálum þar sem þess þarf.

Hjá okkur er eitt markmið sem ræður öllu: Hundurinn er aðal málið. Hundurinn á síðasta orðið um hvað virkar í þjálfun hans. Leiðbeinandi er nákvæmlega það sem orðið merkir, hann er ekki predíkari hins eina sanna hundaguðs. Persónulegar skoðanir, ósætti, rígur, og allt vonda dótið, er leyst.

Hinn eini sanni hundaguð

Ef umræðan fengi að ráða. Þá væri Hundasport, og aðrir hundaklúbbar bannaðir. Nema kannski eitt ræktunarfélag, ein björgunarsveit og einn námskeiðahaldari. Líklega væru þá bara fjórar hundategundir leyfðar á Íslandi.

Að lokum

Í Reykjavík færðu helmings afslátt af hundagjöldum hafir þú farið á tíu vikna hundanámskeið. Einnig í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Svona námskeið kosta sitt og þú ert fjögur ár að borga námskeiðið með afslættinum.

Farir þú á helgarnámskeið lærirðu helminginn af því sem tíu vikna námskeiðið kennir: Samt færðu engan afslátt, ekki einu sinni helming af helming.

Stundir þú leitarhundaæfingar vikulega, lærirðu margfalt meira en þeir sem fara á tíu vikna hlýðni námskeið. Samt færðu engan afslátt.

Stundir þú sleðahundaklúbb, lærirðu líka meira en á hlýðninámskeiði. Samt færðu engan afslátt.

Farir þú með einn hund á hlýðninámskeið, færðu afslátt á hann. Fáir þú þér annan hund, þarftu líka að fara með hann á námskeið. Hvers vegna þarftu að fara aftur á námskeið og læra það sem þú kannt, bara til að græða nokkra þúsundkalla eftir fjögur ár?

Hvað þá ef þú átt þrjá hunda, eða fleiri? Sjálfur leiðbeini ég á helgarnámskeiðum. Þáttakendur eru upp til hópa ánægðir. Margir hafa leitað til mín í eftirfylgni og sent fólk til mín. Yfirleitt vill þetta fólk fá þekkingu strax og er tilbúið að fylgja henni eftir. En það fær enga viðurkenningu.

Mín tillaga er sú að veita ætti tíu prósent afslátt á hvert námskeið eða klúbb sem þú ert virk í. Það myndi hvetja fólk til að stunda fleiri klúbba, víðari hundastarfsemi, fleiri stuttnámskeið.

Fólk yrði upp til hópa virkara í hundastarfsemi og dýrin í Hálsaskógi myndu … tja … tala betur hvert um annað?

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.