Hvað á ég að gefa hundinum mínum mikið að borða

Hvað á ég að gefa hundinum mínum mikið að borða til að mæta daglegri orkuþörf hans?
Þó það virðist liggja í augum uppi eru samt ákveðnar kringumstæður sem verða til þess að stundum er erfitt að svara. Útivera, hitastig, hreyfing og vinna hafa öll áhrif á þá orku sem þarf en það er líka gífurlegur munur milli tegunda, stærðar, felds og gerð húðar, hreyfingar, á vaxtartima hvolpa og hvernig aðbúnaður er. Munurinn á orkuþörf smáhunds sem er mestanpart innanhúss eða smalahunds í fullri vinnu getur verið allt að tífaldur. Það sem á eftir kemur hjálpar kannski einhverjum til að finna svar við þessari spurningu en öðrum að minnka eða auka fóðurskammt, eftir atvikum. Þyngdaraukning gerist yfirleitt á löngum tíma og byrjar oft þegar hvolpaaldri lýkur, þegar matarlyst hunds er oft meiri en þörfin er. Að sama skapi er hundum ekki hollt að vera of þungir, það veldur auknu álagi á liði né að vera of léttir og með einkenni skorts og vannæringar*. Minna getur því stundum verið betra og fóðurmagn er ekki jafnt út alla æfi hunds.

Hvernig á að lesa úr upplýsingum á fóðurpokanum ?
Á flestum umbúðum er gefið upp hvað fóðrið gefur mikla orku (Energy), yfirleitt í hverjum 100 grömmum en einstaka sinnum í kílógrammi af fóðri. Á sumum umbúðum er gefin upp hver nýtanleg orka (Metabolised Energy) er en það er nánast sama mælieiningin, gefur eingöngu til kynna að fóðrið nýtist nánast allt en ekki alveg, td. eiga trefjar að skila sér út.

Skammtastærðir á umbúðum eru yfirleitt leiðbeinandi og rúmar en ekki endilega heilagar.

Önnur aðferð er notuð við að reikna hitaeiningar í blautmat.

Orka er annað hvort gefin upp sem kaloríur (kcal) eða kílojoule (kJ) en
1 kcal = 4,1868 kJ . . . 1 kcal er sú orka sem þarf til að hita 1 líter af vatni um 1 gráðu.

Ég hef rekist á tvær formúlur til að reikna orkuþörf, nota sjálf oftar þá fyrri (man hana) en hún gefur upp ívið hærri orkuþörf en sú seinni.
Báðar eru nálganir en jafn gagnlegar fyrir það.

138 kcal * (þyngd í kílógrömmum)^0,71 sem er viðmið AAFCO, þyngdin er sett í veldið 0,71

og

Nauðsynleg dagleg orkuþörf í hvíld = NOíH
NOíH í kcal = 30 x (þyngd í kílógrömmum) + 70 sem er viðmið næringarfræðinga og gildir fyrir hunda sem eru á bilinu 2 – 45 kíló, hvorki undir þeirri þyngd og né yfir.

Dagleg orkuþörf :

Þyngdartap 1.0 x NOíH
Geldur, dagleg hreyfing 1.6 x NOíH
Ógeldur, dagleg hreyfing 1.8 x NOíH
Létt vinna 2.0 x NOíH
Miðlungs vinna 3.0 x NOíH
Erfið vinna 4-8 x NOíH
Hvolpafull tík (fyrstu 42 dagar) 1.8 x NOíH
Hvolpafull tík (síðustu 21 dagar) 3.0 x NOíH
Mjólkandi tík 4-8 x NOíH
Hvolpur – frá lok mjólkurgjafar til 4 mánaða 3.0 x NOíH
Hvolpur – 4 mánaða að fullorðins stærð 2.0 x NOíH

Hér má td. sjá að geldur hundur þarf 12,5% minna fóður en sá sem ekki er geldur.

Sumir hafa ekki kost á að velja úr fóðri vegna staðsetningar en kjósa að bæta upp slakara fóður með einhverri viðbót.

Til þess að reikna út orku þess sem gefið er aukalega (og á líka við um verðlaun ) er hvert gramm orkugjafans margfaldað með þeirri orku sem hann gefur.

Prótein & kolvetni * 4 = kcal
Fita og olíur * 9 = kcal

http://www.unitconversion.org/unit_converter/energy.html Til að umreikna kaloríur í kílójoule og öfugt. Notið kcal öðrum megin og KJ hinum megin (Nt cal og kcal er það sama).

Að lokum má benda á síðu sem sýnir hvernig skal meta holdafar hunda http://www.successjustclicks.com/fit-fido-or-fat-fido/

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged , , . Bookmark the permalink.

Comments are closed.