Skottið sem hætti að dilla

Skottið sem hætti að dilla
(endursögn eftir sögu C.C. Holland)

Ef skottið á hundinum þínum hættir að dilla, láttu þér detta þetta í hug.

Dag einn síðast sumar kom Lucky, lífsglaði og káti blendingurinn minn, heim úr langri lausagönguferð með manninum mínum án þess að vera kát eða glöð. Hún fór beint í bælið sitt og við töluðum um að hún væri ekki í æfingu, enda hafði hún farið í uppskurð á hné 6 mánuðum fyrr og kannski ekki búin að ná sér alveg. Eftir því sem klukkutímarnir liðu og hún sýndi engan lit á að hreyfa sig, fórum við að hafa áhyggjur. Hún skipti varlega um stellingar og virtist eiga erfitt með að sitja og leggjast niður. Öllu verra var að við gátum ekki eins sinni framkallað eitt lítið dill með skottinu frá hundi sem yfirleitt dillaði rófunni oft. Hún horfði á okkur með döpur augu og lafandi eyru, eitthvað sem sagði að ekki væri allt í lagi. Ég fór að velt fyrir mér hvað hefði getað gerst, hafði hún borðað eitthvað óæti í göngunni eða hafði eitthvað komið fyrir hnéð? Lucky borðaði og drakk, hitinn var eðlilegur en var augljóslega samt ekki heilbrigður hundur. Neyðarferð til dýralæknis var réttlætanleg.

Dýralæknirinn okkar skoðaði hana frá toppi til táar, þegar hún kom að rófunni sá hún hvað var að. “Ég held að hún hafi tognað á skottinu, það ætti að lagast að sjálfu sér á innan við viku. Ef þér finnst hún sérlega aum, geturðu gefið henni bólgueyðandi”.

Mikið rétt, á fjórum dögum náði skrýtna, lafandi skottið á Lucky fyrri hæð og það var farið að dilla. Samt var ég hissa, því að á öllum þeim árum sem ég hef skrifað um hunda, hafði ég aldrei heyrt um lamað skott. Það kom í ljós að þessi krankleiki er vel þekktur meðal þjálfara og þeirra sem eiga ákveðnar tegundir. Tognun er ekki alveg rétta orðið yfir þetta, þessi krankleiki birtist sem og kallast; lamað skott.

Lamað skott
Þetta virðist gerast af völdum vöðvameiðsla, sem hugsanlega verða vegna of mikillar áreynslu segir Janet Steiss aðstoðarprófessor við Auburn dýralæknaháskólann og annar höfundur rannsóknar á þessu frá árinu 1999. Með skönnun, hljóðbylgum og vefjasýnatöku sýndi rannsóknin að rófubeinsvöðvar nálægt skottrótinni verða fyrir skemmdum. Vöðvaskemmdin lýsir sér sem lamað skott sem getur birst í ýmsum myndum og verið misalvarleg.

Allt frá því að skotti sé haldið láréttu eða að það hangi beint niður og allt þar á milli. Hjá sumum hundum getur efsti partur rófunnar staðið réttur en restin hangið og hjá öðrum hundum rísa hárin við skottrótina vegna bólgu. Það fer eftir alvarleika meiðslanna og hver sársaukaþröskuldur hvers hunds er, hvort hann eigi í erfiðleikum með að sitja eða leggjast niður, eins og Lucky. Flestir hundar minnka eða hætta alveg að dilla skottinu, væntanlega vegna sársauka.

Þetta getur gerst hjá hvaða hundi sem er, óháð aldri og kyni en er algengara meðal ákveðinna tegunda, sérstaklega meðal benda og sækja (pointing and retrieving). Þessar tegundir eru meðal annars, Labrador, Golden, Flat-Coated Retrievers, Enskir Pointer og Setter; Beagle og Foxhound.

Önnur nöfn hafa heyrst yfir þetta, hjá Labradoreigendum er þetta oft kallað ofkæling því algengt er að þessi einkenni sjáist eftir sund í köldu vatni eða sjó.

Einkennin ganga yfir á nokkrum dögum eða viku, oftast án þess að alvarleg eftirköst verði. Eftir því sem Janet Steiss segir er almennt að margir gefa bólgueyðandi lyf þegar fyrstu einkenni koma í ljós, til að draga úr sársaukanum og lengd tímabilsins en það hefur ekki verið staðfest með neinni vissu. Nákvæm orsök er ekki vituð en nokkrir þættir eru tengdir lömuðu skotti.

Of mikil áreynsla er algengur samnefnari, sérstaklega ef hundur sem ekki er í góðu formi fyrir er skyndilega látinn gera mikið. Ef veiðihundur hefur ekkert að gera allt sumarið en síðan er farið á veiðar heila helgi að hausti geta merki þess sést á skottinu á sunnudagskvöldi, segir Janet. Hundurinn er heilbrigður en hefur verið hreyfður svo mikið að skottrótarvöðvarnir eru yfirkeyrðir.

Annar áhættuþáttur er hreyfingarleysi eins og innilokun í búri á löngu ferðalagi. Ef hundi er ekki hleypt út með einhverju millibili getur hann komið á áfangastað með lamað skott.

Óþægilegt veðurfar, til dæmis kuldi og væta eða kæling í vatni getur líka orsakað lamað skott. Sækjar eru sérlega gjarnir á að sýna viðbrögð eftir sund og sumir eru svo viðkvæmir fyrir hitabreytingum segir Janet, að sýna einkenni eftir bað í svölu vatni.

Erfitt að greina
Fyrir eiganda getur verið erfitt að sjá skottið á hundinum sínum lafa, því þrátt fyrir allt gefur skottið til kynna bæði heilbrigði og skap hundsins. Lamað skott hefur verið til í langan tíma en er ekki mjög algengt og því margir sem flaska á því hvað þetta er. Hægt er telja þetta vera kirtilvanda, hryggáverka, mænuveiki, brotna rófu eða tognun. En hvernig á eigandi að sjá hvort lamað skott hrjáir hundinn hans?

Skoðaðu áhættuþættina og kringumstæðurnar áður en skottið fór að lafa segir Ben Character, dýralæknir í Alabama sem vill ekki kalla þetta tognun, engar sinar eða liðamót koma við sögu, eingöngu vöðvar. En jafnvel dýralæknar geta átt erfitt með að greina þetta.

Þetta gerist snögglega, oftast nokkrum klukkustundum til hálfum sólarhring síðar. Skottið fer ekki hægt og sígandi neðar, þetta er bráðabólga og skottið fer skyndilega að lafa. Hundurinn getur virst hafa verki nálægt skottrótinni en jafnar sig á næstu 3 til 4 dögum og er orðinn jafngóður eftir 4 til 7 daga.

Áhrif lamaðs skotts.
Þó að þetta geti komið eiganda hunds úr jafnvægi virðst þetta ekki hafa mikil áhrif á getu hundsins dags daglega. Fyrir venjulegan veiðihund skiptir þetta væntanlega litlu máli segir Ben Character, skottið hjálpar til við að halda jafnvægi þegar þeir hlaupa en óvíst hvort það hafi það mikil áhrif, að þeir verði ónothæfir.

En fyrir þá sem eru að sýna hunda getur þetta orðið til þess að hætta verði við þátttöku, það er ekki hægt að sýna þegar skottið hefur ekki eðlilega hreyfigetu og dómarar sjá það fljótt.

Ekkert er víst að þó hundur lendi í þessu einu sinni að þetta gerist oftar eða með reglulegu millibili segir Janet Steiss. Þó eru nokkrir hundar sem lenda í þessu oftar en einu sinni ef þeir eru lenda í sömu aðstæðum aftur.

Þannig var með Hannah, Lab/Pit Bull blending sem Miriam Carr átti. Miriam rekur hundadagvist með leggur áherslu á að hreyfa hundana á opnu svæði án taums. Hún leyfði hundunum oft að synda ásamt sínum eigin. Hannah var mjög viljug, hún fór með á hverjum degi á opið svæði og var í góðu formi. En eftir að hún hafði lent í að fá lamað skott nokkur skipti varð Miriam að draga úr þátttöku hennar í því sem virtist koma þessu af stað. Þegar Hannah synti með hinum hundunum, kom í hana meiri keppni, hún synti hraðar til vera fyrst til að ná boltanum sem var kastað og þetta hafði áhrif á rófuna. Þegar við loksins uppgötvuðum þetta, var henni ekki leyft að synda með hópi af hundum. Þetta er skynsamlegt að gera segir Janet, í örfáum tilfellum geta endurtekin atvik haft varanleg áhrif á skottið. Nokkur tilvik geta skemmt vöðvana svo mikið að skottið verði aldrei aftur í réttri stöðu. Hún skýrir þetta þannig að væntanlega verði veruleg fækkun á vöðvafrumum og auk þess verði myndist ör í rófum þessara hunda.

Er þetta algengara núna?
Fyrir 1990 var lamað skott ekki þekkt nema meðal veiði- og sporthunda. 1994 ákvað dýralæknaskólinn að fara af stað með læknismeðferðir fyrir hunda í sporti og ákváðu að skoða nánar lamað skott eftir að hafa talað við hundaeigendur og þjálfara á svæðinu.

Þjálfarar sögðu “ Hei, þetta er vandamál, enginn veit nákvæmlega hvað þetta er en við sjáum þetta oft” segir Janet Steiss sem sérhæfir sig í vöðvatengdum meiðslum og hafði áhuga á þessum skrítnu meiðslum.

Þó þetta væri ekki almennt meðal hunda, kom þetta upp með reglulega meðal benda (pointer) á svæðinu. Árið 1997 var sett af stað faraldsfræðileg rannsókn á sporthundum í suðaustur Bandaríkjunum. Alls voru 3066 hundar í könnuninni en 66% þeirra voru veiðihundar. Í ljós komu upplýsingar um einkenni lamaðs skotts í 83 hundum en útgáfa þessara niðurstaða gerði dýralækna almennt meðvitaðri um einkennin. Því er það ekki ljóst hvort aukning á þessum tilfellum er vegna meiri vitneskju og betri greiningar dýralækna eða hvort hún er raunveruleg fjölgun tilfella.

Það er öruggt að tilfellin eru fleiri en við vonumst til að þetta gerist sjaldnar hjá sporthundum nú þegar þjálfarar eru betur meðvitaðir um ástæðurnar fyrir þessu. Janet hefur lika aðra skýringu á auknum fjölda tilfella. Mér datt í hug að enn fleiri eru að koma sér í gott form og fólk vill taka með sér hundana sína þegar það skokkar, hjólar eða fer í langar gönguferðir. Þess vegna er líklegt að við munum sjá fleiri hunda með lamað skott eða önnur íþróttameiðsl en áður, eingöngu vegna þess að þeir fylgja eigendum sínum í þeirra þjálfun. Eftir því sem hún segir, telja þeir sem gerðu rannsóknina að engin undirliggjandi sjúkdómur í vöðvun hunda eigi þátt í að þetta komi fram né sé þetta eitthvað sem erfist. Þó að hættan sé meiri á að þetta komi fram í einstökum tegundum, líkast til vegna hreyfiþarfar þeirra, getur hvaða hundur sem er lent í þessu (þó ekki stífðir hundar).

Lífið eftir lamað skott
Ef þetta kemur fyrir hundinn þinn, ætti hann að fá að minnsta kosti nokkura daga hvíld. Fylgdu ráði dýralæknisins um hvort það eigi að gefa honum bólgueyðandi lyf fyrsta sólarhringinn. Það er ekki staðfest að bólgueyðandi lyf hraði bata en sumir eigendur segja að hundar jafni sig fyrr ef lyf eru gefin.

Eigendur ættu að skoða kringumstæðurnar og hvað hundurinn var að gera áður en skottið fór að lafa. Fyrstu einkenni koma oft fljótt í ljós, oft innan nokkurra klukkutíma eða yfir nótt. Ef þú getur fundið út hvað kom þessu af stað, hvort sem það var löng ganga eða sund í köldu vatni er hægt að forðast endurtekningu. Oft gerist þetta þegar hundur sem hefur verið minna á hreyfingu á tímabili fer skyndilega á veiðar eða í aðra mikla hreyfingu.

Að lokum ætti að fara rólega í að koma hundinum aftur í aukna eða stífari hreyfingu en hann er vanur.

Við höfum ekki séð þetta gerast aftur hjá Lucky en við jukum verkefnin hennar smátt og smátt þar til líkamlegur styrkur hennar var í samræmi við kröfurnar sem þau gerðu. Skottið hennar dillar aftur á fullri ferð – og við ætlum að halda því þannig.

Hvað á að gera

· Hafðu samband við dýralækni til að fá greiningu
· Spurðu dýralækninn hvort bólgueyðandi lyf komi að gagni á fyrsta sólarhringnum
· Hvíldu hundinn
· Farðu rólega í að auka hreyfingu hundsins
· Reyndu að finna hvað áhrifaþættir orsökuðu þetta og reyndu að forðast þá í framtíðinni

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Það er ekki bara sund eða kuldi sem veldur lömuðu skotti, langar setur í búri í bíl milli landshluta geta líka valdið þessu.  Þetta er afleiðing ofáreynslu og ber að meðhöndla sem slíkt, þetta er áverki sem getur komið upp aftur og aftur.

Þið getið kíkt á myndbönd af lömuðu skotti  td.  https://www.youtube.com/watch?v=0NhOWZwCN8E eða leitið að Limber Tail, cold tail

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged , , . Bookmark the permalink.

Comments are closed.