Fótasveppur og húðmein

Fyrst þegar upp kom fótasveppur í hópnum brá mér í kross. Enda er ég viðkvæmur þegar dýraheilbrigði er annars vegar og dálítill álfur út úr hól þegar kemur að ýmsum kvillum. Á ég þá við að ég hef ekki lesið mér mikið til um dýramein og dýraheilbrigði og kýs að treysta læknum frekar en eigin innsæi. Þetta er þó að slípast til.

Ljúfur var fimm ára þegar hann fékk fótasvepp og hafði ég aldrei upplifað fyrr að hundar fengju fótasvepp. Hið rétta er þó að fótasveppur hjá hundum er jafn algengur og hjá mannfólki. Ég hafði ekki hugmynd um þetta. Eina vikuna byrjaði hann að sleikja þófana óvenju mikið, sérstaklega á afturfótum, og var greinilegt að hann var viðkvæmur í þófum.

Örlítið bar á því að hann væri viðkvæmur að stíga niður svo augljóst var að eitthvað var að. Svo dramaprinsinn (ég) rauk til læknis með dýrið.

Dýralæknir brosti í kampinn við dramaprinsinum (mér). Sjúkdómsgreiningin lá ljós fyrir og dramaprinsinn fékk að vita hve algengt þetta er og að auðvelt sé að greina vandann. Ljúfur fékk viðeigandi fótsveppameðal og viku síðar var meinið horfið. Hann hefur ekki fengið fótasvepp síðan og er þetta eina skiptið á hans ævi sem hann hefur fengið fótasvepp.

Sama ár fæddist Birta dóttir hans og flutti heim til pabba síns. Hún er viðkvæm sál sem má ekkert aumt sjá, en er þó dálítið hávaðasöm og stjórnsöm. Hún gjammar að ókunnugum hundum, fagnar gestum gjammandi (en vingjarnlega) og stjórnar heimilishundunum. Oft gjóar hún augunum á húsbóndann (mig) þegar hún skiptir sér af uppeldi hinna hundanna, eins og til að segja „sjáðu hvað ég er dugleg!“

Ég nefni sálarástand Birtu af tveim ástæðum. Hún er smámunasöm tík og mjög þrifin. Þegar Salka átti hvolpana sína tók Birta virkan þátt í að hirða um hvolpana, bæði ala þá upp og þrífa eftir þá. Hún er sumsé dálítil dramaprinsessa og eins og títt er um dramaprinsa og prinsessur þá er hún viðkvæm.

Ég hef tekið eftir að hundar geta verið viðkvæmir í húð séu þeir með viðkvæmt tilfinningalíf og svo er einnig með fólk. Fólk sem fær exem eða psoriasis þekkir vel að á streitutímabilum eykst meinið en á rólyndistímum er varla vart við það.

Þá hef ég tekið eftir því – sem maður sem fer oft í sund – að fótasveppur gerir helst vart við sig þegar fótraki er mikill. Fólk sem fer oft í sund fær síður fótasvepp til að mynda ef það passar að þurrka vandlega á milli tánna þegar það klæðir sig og sumir ganga jafnvel um berfættir í smástund áður en farið er í skó.

Ég fer í sundlaugar mjög oft, jafnvel þrisvar í viku árið um kring. Það er árviss viðburður að ég sjálfur fái fótasvepp eftir sundferðir. Sérstaklega ef ég gleymi að þurrka táslurnar vandlega eftir sundlaugarferð. Ég hef þó ekki notað fótasveppameðal nema einu sinni, og það var fyrir tuttugu árum síðan. Þegar ég fæ fótasvepp er hann alltaf horfinn á tveim dögum!

Hvernig þetta tengist?

Strax á fyrsta ári fékk Birta fótsvepp og eyrnabólgu. Ég mun fjalla síðar um eyrnabólguna, en þetta var sama árið og Ljúfur fékk sinn svepp. Hugsanlega hafa þau smitað hvort annað, enda oft sem við teljum að þetta smitist. Ég held þó að fótraki og varnarkerfi húðar spili inn í. Sem fyrr segir þá er varnarkerfi húðar viðkvæmt í hlutfalli við innri viðkvæmni.

Þegar Ljúfur fékk sinn fótasvepp hafði ég þurft að vera fjarri heimilinu í tíu vikur og slíkt tekur á hjá Sheffer hundi. Öruggt er að þegar ég kom aftur að það hafi ollið honum uppnámi. Nærri án undantekninga veldur það innra uppnámi hjá hundi að vinur, eða hópmeðlimur, hvað þá eigandi, hverfur. Þegar einhver birtist aftur, sem hundur hefur saknað, þá veldur það vissu uppnámi. Algengt er að sjá dökka hunda fá flösu í fáeinar mínútur þegar þeir fagna horfnum vin.

Af þessum sökum tengi ég hér tvo punkta. Birta er að upplagi viðkvæm og því er húð hennar viðkvæm. Ljúfur var viðkvæmur þegar ég kom aftur eftir fjarveru. En hvernig tengist það fótasvepp og sundferðum mínum?

Joðspritt og Tea Tree olía

Ég komst að því fyrir fimmtán árum að Tea Tree olía er sótthreinsandi. Ef ég verð var við fótsvepp hjá mér set ég umsvifalaust einn dropa af Tea Tree olíu á það svæði, og geri það kvölds og morgna þar til sveppurinn fer. Yfirleitt er sveppurinn farinn á einum til tveim sólarhringum. Þetta ráð virkar einnig á hunda!

Eins og margir vita er oft notað Joð – eða Joðspritt – á sár. Það er orðið sjaldgæft í mannheimum en dýralæknar til sveita nota það enn. Joð er sótthreinsandi og þurrkar rök svæði. Einnig er Joð bæði með sterka lykt og vont bragð.

Eins og margir vita þá sleikja hundar þau svæði sem þeim svíður í. Óvitandi viðhalda þeir oft sviðanum með þessu. Tungan er hrjúf og ertandi svo viðkvæma svæðið ertist meira og raki getur viðhaldið meini ef um sýkla eða sveppi er að ræða. Vandinn er einmitt sá, þegar hundur fær smásár eða svepp, hvernig megi stöðva hann í að sleikja svæðið.

Þó Tea Tree olía geti drepið sveppinn er hún engu að síður olía og hundar eiga það til að sleikja olíu, jafnvel þó þeim þyki lyktin af Tea Tree vera vond. Því nota ég hana því aðeins að fótsveppur sé áberandi eða erfiður. Ég vil þó síður nota hana ef svæðið er ofur-viðkvæmt eða komið sé sár því hún er mjög sterk og svíður undan henni. Þá kemur Joð til skjalanna.

Reglulega verð ég var við að Birta – sem er mjög þrifin – sleikir á sér þófana. Þannig setur hún sjálfa sig í áhættu fyrir fótasvepp og stundum örlar á honum. Því set ég tvo til þrjá dropa í eitt afrif af mjúkum pappír s.s. eldhúsþurrku eða álíka, og legg pappírinn á milli þófanna. Þannig ber ég Joð á milli þófa, kemur þá sterk lykt af þófunum sem hundurinn sleikir síður, rakinn þornar því fyrr auk þess sem Joð sótthreinsar sveppinn.

Sjái ég Birtu vera viðkvæma í þófum fær hún Joð meðferð strax. Sé hún slæm fær hún meðferð kvölds og morgna en yfirleitt er nóg að gera þetta á kvöldin. Sé hún komin með fótsvepp er settur dropi af Tee Trea á bómull eða pappírsþurrku og strokið létt yfir svæðið kvölds og morgna í einn til tvo daga og síðan Joð meðferð í tvo til þrjá daga.

Síðan ég datt niður á þetta húsráð hefur ekkert fótsveppavandamál komið upp. Auk þess nota ég Joð á hvaða húðskrámu sem upp kemur. Þá fær sárið sótthreinsun og hundurinn vill síður sleikja svæðið.

Birta er til að dæmis mjög þrifin varðandi klobbann og þrífur sig oft á dag. Fer hún þá  langt upp á aftasta júgrið. Þetta hefur þær afleiðingar að aftasta júgrið verður hárlítið og myndast litlir rauðir deplar í húðinni því tungan er hrjúf. Þetta veldur sviða svo hún fer að sleikja það meira og hún kemst í sjálfheldu. Ég þarf því að fylgjast með þessu ástandi. Þegar ég sé að hárminnkun er á júgrunum veit ég að hún er að þrífa það of mikið þegar ég sé ekki til. Lækningin er að strjúka júgrið tvisvar á dag með bómull eða pappírsþurrku vættri með tveim til þrem Joðdropum. Þá hættir hún að sleikja svæðið og Joðið nær að sótthreinsa deplana.

Rétt er að taka fram að þegar Joð er keypt í Apóteki er hægt að velja um 5% eða 2% upplausn og ég nota yfirleitt 5%.

Að endingu

Ég vildi sérstaklega skrifa um notkun á Joði vegna annarrar ástæðu en hér að ofan. Hún er sú að hundar sem fara oft í útivist, að ekki sé talað um útivistarsvæði þar sem mikið er af hrauni, fá oft skrámur á þófa eða á fótleggi. Einnig er algengt þegar hundar fljúgast á að þeir fá oft skrámu t.d. við bóg eða aftan við háls. Þá er gott að eiga Joð til að setja á meiddið. Oft hef ég séð fólk rjúka til læknis vegna svona skráveifa í dramakasti yfir skrámum sem eru í raun algengar og auðheilanlegar.

Rétt er að taka fram varðandi allar heima lækningar sem ég nefni í skrifum mínum að ég hef ávallt samráð við dýralækni. Þó vissulega sé ánægjulegt að finna húsráð sem auka heilbrigði og vellíðan dýra þá má ekki fara yfir strikið. Nauðsynlegt er þegar maður prófar húsráð og heimalækningu að fylgjast vandlega með, jafnvel oft á dag, og vera snöggur til læknis ef heilun lætur á sér kræla.

Þegar ég er í vafa með eitthvað þá hringi ég í dýraspítala og spyr ráða. Því miður lendir maður yfirleitt á afgreiðslufólki í símann sem ekki hefur þekkingu til að veita góð ráð og oft er erfitt að fá dýralækninn sjálfan í síma. Stundum hef ég brugðið á það ráð að hringja í neyðarsíma dýralækna til að næla mér í fimm mínútna spjall.

Einnig geri ég spurningalista áður en ég fer á dýraspítala ef ég þarf að fara með dýr í skoðun. Til að mynda er gott að nota ferðina þegar farið er í reglulega bólusetningu og ormahreinsun. Heimsóknargjald til dýralæknis er mjög hátt og gott að nýta ferðina undir spurningar af listanum.

 

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged , , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.