Blóðeyrað

Í júní sumarið 2012 fékk einn hunda minna blóðeyra. Ég hef aldrei verið duglegur að lesa mér til um dýraheilbrigði og ekki talið mig þurfa þess. Á Íslandi er mikið af dýralæknum og yfirleitt vel menntuðum svo það er stutt í góða þjónustu og ráðleggingar.

Þjónusta dýraspítala er yfirleitt afbragðsgóð. Þá sjaldan að heyrist af slæmri þjónustu hefur við nánari rýni reynst um að ræða fyrirbæri sem nefnist „mannleg mistök.“ Við þekkjum öll þetta síðastnefnda og daginn sem mannlegur veruleiki hættir að umbera mannleg mistök, og viljann til að vinna úr mistökum, munum við vonandi hugsa okkar gang.

Fram að þessu hafði ég enga ástæðu haft til að gagnrýna störf dýralækna – og hef ekki hugsað mér að byrja á því nú. Dýralæknar eru nauðsynlegur hluti tilveru minnar sem hundamanns. Vil ég ekki verða maðurinn sá sem hrópar „úlfur úlfur“ heldur þvert á móti. Hundar mínir þarfnast lækna þegar þeir verða lasnir og ekki síst ef slys gerist. Nauðsynlegt er að eiga greiðan aðgang að þjónustu læknis og yfirleitt eru samskipti við Íslenska dýralækna til fyrirmyndar.

Þó er nauðsynlegt að við sem neytendur að þjónustu höfum rödd. Sama hver þjónustan er þá má hún aldrei vera hafin yfir vinsamlega gagnrýni og við sem neytendur þurfum vettvang til að ræða saman ef mistök eða skeytingarleysi eiga sér stað.

Eins og sést að framansögðu er þessi grein fædd í togstreitu. Á ég að segja söguna? Á ég að segja hana nákvæmlega eða bara mína hlið? Á ég að segja skoðun mína eða einblýna á staðreyndir? Hvar eru mörkin á gagnrýni, á ég t.d. að nefna spítalann og lækninn eða segja söguna óhlutbundið? Markmið mitt er umræða um þjónustu en ekki skyr-kast á aðra.

Sagan

Blóðeyra lýsir sér þannig að eyrnasnepillinn fyllist af blóði sem ekki gengur til baka, svo poki eða púði myndast á sneplinum. Þegar hundurinn fékk blóðeyra beið ég í tvo daga, því ég var viss um að það gengi til baka. Á öðrum degi sá ég að hundinum leið ekki vel og fannst honum eyrað óþægilegt svo ég ákvað að leita ráða hjá lækni.

Pokinn var mjúkur og hundinum var sama þó ég snerti eyrað en var þó greinilega pirraður í hreyfingum yfir daginn.

Ég dreif mig sumsé til læknis og var mættur þar rétt fyrir lokun spítalans. Læknirinn var greinilega þreyttur eftir langan dag. Heitt var á spítalanum og mikil traffík af fólki. Hún gaf okkur smástund, hún þekkti blóðeyra og vissi vel hvað um er að ræða, en ég vissi það ekki þá. Síðar hef ég komist að raun um að sumar Sheffer ættir fá þetta oft.

Ég var með þrjár spurningar handa lækninum. 1. Þarf að skera í eyrað? 2. Er nóg að stinga á pokann? Báðar spurningarnar voru ættaðar af áhyggju minni þess eðlis hvort þetta kæmi aftur. 3. Er nóg að nudda þetta eða er til alternative therapy?

Ég hef mikinn áhuga á jafnvægi náttúrnnar og vel yfirleitt alternative therapy ef hún er í boði. Hins vegar gerist núna atvikið sem greinin sprettur af.

Áður en ég næ að spyrja þriðju spurninguna er læknirinn rokinn út af stofunni og birtist aftur mínútu síðar með tvo múla og aðstoðarkonu. Einhverra hluta vegna hafði hún skilið hluta máls míns á þá leið að ég myndi velja síðari kostinn – að stinga á pokann. Líklega hefur ekki hvarflað að henni að ég vildi ræða betur og taka það rólega – enda hundurinn minn til umræðu og hann hefur enga rödd.

Nú er það svo að við treystum dýralækni. Fasið var svo traustvekjandi og atvikið gerist svo hratt, og þær voru tvær fagkonur, að skyndilega er hundurinn minn kominn upp á borð og byrjað að mýla hann. Ég lít í augu hundsins og sé að hann óttast en ég sá að hann treysti mér. Ég segi því við aðstsoðar konuna „láttu mig mýla hann, ég sé að hann er hræddur.“

„Nei, nei, þetta er allt í lagi!“ Segir þá aðstoðarkonan hálfhlæjandi og treður stærri múl á trýnið á dýrinu. Mér leið nákvæmlega eins og honum, eins og allt vald og sjálfræði væri af mér tekið og ég fylgdi bara með. Andartaki síðar var búið að stinga á eyrað og við komnir fram.

Mér leið eins og ég hefði orðið fyrir strætó. Í allt tók samtalið, mýlingin og stungan um tíu mínútur. Frammi borgaði ég 10.000 krónur og var afgreiddur. Svo við ókum heim og ég hugsaði með mér „læknirinn hlýtur að vita best.“

Daginn eftir sé ég að eyrað er beyglað og að hann getur ekki lengur rétt úr fallega eyranu sínu. Mér var brugðið og í geðshræringu skrifaði spítalanum stutt en harðort tölvuskeyti. Ekki man ég orðalagið nákvæmlega og vona að ég hafi ekki verið dónalegur en ég hótaði málssókn vegna skaða eyrans.

Ég skrifaði skeytið á föstudags kvöldi en á sunnudegi sá ég að mér. Þetta voru mannleg mistök okkar beggja. Læknisins að ákveða áður en við kláruðum samræðu og mín fyrir að treysta um of. Svo ég skrifaði annað skeyti, mun yfirvegaðra, og baðst afsökunar á orðum mínum hefðu þau verið dónaleg.

Hvorugu skeytinu var svarað. Á þennan spítala hef ég ekki farið síðan, ég get ekki hugsað mér það. Ekki að ég hugsi þeim neitt ljótt, alls ekki, þetta eru bara tilfinningar. Ef hundur verður fyrir slysi verður rokið á næsta dýraspítala hver sem hann er.

Hálfu ári síðar þykknar eyrað á ný. Þá var ég tvsivar búinn að spyrja aðra dýralækna – á öðrum spítulum – út í blóðeyra og vissi að sú aðgerð sem var beytt í þetta sinnið er algeng og talin nærri sjálfsögð. Einnig var ég búinn að afla mér upplýsinga um hvers vegna blóðeyra myndast.

Í eyranu er tvöfalt brjósk, eins og í lagskiptingu, og blóðeyra gerist þannig að blóð smýgur inn á milli brjósklaga en kemst ekki út aftur. Oft þarf annað brjóskið að vera skaddað fyrir s.s. eftir hundaslag eða óhapp. Þó ég væri leiður yfir lýtinu á eyra hundsins þá verður maður að sætta sig við að lífið er ekki alltaf eftir uppskrift.

Það var sumsé liðið hálft ár og blóðpokinn að myndast aftur. Í þetta sinnið vissi ég að pokinn mætti vera svona í fáeina daga áður en stungið yrði á hann, svo ég ákvað að svara þriðju spurningunni sjálfur.

Þrisvar á dag settist ég hjá hundinnum og strauk blíðlega niður eftir blóðpokanum og þreifaði vel á öllu eyranu, brjóskinu og eftir lagi þess. Einnig setti ég Tea-Tree olíu á eyrað einu sinni til tvisvar á dag til að fyrirbyggja sýkingu. Þessu hélt ég til streitu í rétt um það bil viku. Suma daga var púðinn harðari og þrýstingur í honum og þá daga blóðlangaði mig til læknis en flesta daga var hann mjúkur.

Stundum nuddaði ég eða strauk fjórum til fimm sinnum á dag. Viku síðar var pokinn hjaðnaður. Nú eru átta mánuðir síðan og enginn poki hefur myndast aftur. Eyrað er þó ennþá hálfrisið og verður þannig áfram.

Það sem ég lærði á þessu er margt og hefur lengi langað til að skrifa um þetta. Hef þó ekki lagt í það þar sem ég vil síður valda deilum en samt langar mig til að vekja upp umræðu, en ég vil ekki skyr-kast að ósekju. Það er svo oft grunnt á leiðindum í samfélags umræðunni að varla er á bætandi.

Lærdómurinn

Förum aðeins í gegnum það sem mér finnst ég hafa lært af þessari reynslusögu.

  • Lesa áður en ég spyr lækninn. Google er við höndina. Þó Netið sé oft slæm heimild og margar myndir þar valdi sjokki þá er betra að spyrja af þekkingu en þekkingarleysi. Hefði ég vitað meira á sínum tíma hefði ég verið yfirvegaðri hjá lækninum.
  • Ekki leyfa neina aðgerð fyrr en ég er viss um að málið hafi verið rætt til fulls. Mínúta hjá lækninum kostar 1.000 krónur og þó læknirinn sé þreyttur og henni liggi á að sinna næsta dýri þá er dýrið mitt í forgangi á meðan við erum á stofunni.
  • Ekki sturta í reiðilestri í tölvupóst sem ég mun sjá eftir síðar. Ég skammast mín fyrir að hafa skrifað reiðiskeytið. Það er svo algengt að við hundafólk séum rík að tilfinningum en við eigum að gæta tungunnar.
  • Nauðsynlegt er að taka með mér vin í læknisheimsókn. Ráðgjöf læknisins er þá betur munuð og þriðji aðili hefur oft meiri yfirsýn. Flestir sem segja mér af jákvæðum heimsóknum til læknis fóru sem teymi en ekki einstaklingar. Eigandi sem er að láta skoða – eða lækna – dýrið sitt er oft í innra uppnámi vegna dýrsins en vinurinn hefur yfirvegun.
  • Móta skýrar spurningar fyrirfram og spyrja þær yfirvegað, helst að hafa þær skrifaðar á blað. Læknisheimsókn er kostnaðarsöm og það má spyrja margra spurninga um önnur heilsumál í sömu heimsókn (það sparar).

 

Guðjón Hreinberg

 

This entry was posted in Heilbrigði and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.