Þegar ég eignaðist Kátu vissi ég ekki neitt. Ég var svo heppinn að búa að tvennu. Að hafa alist upp í sveit og lært að virða dýrin og að þekkja mann sem hafði þjálfað tvo hunda. Auk þess hafði ég umgengist um tíma tvær fjölskyldur á Írlandi sem þjálfuðu hunda markvisst, og lært margt af þeim.
Ég áttaði mig fljótt á því að ég gæti lært margt af bókum og af lestri á Netinu en fljótlega lærði ég annað og veigameira. Ég lærði mest af hundinum sjálfum en því aðeins að ég tók mark á mér reyndara fólki.
Með þessum orðum á ég við að þegar þú hittir hundafólk færðu að sjá og heyra það sem það veit. Þú færð að sjá hvernig það umgengst sína hunda og þannig læra beint bæði af því sem það gerir rétt og sem það gerir rangt. Með því að sjá með eigin augum hvernig hundafólk með reynslu á tjáskipti við hundinn sinn lærirðu að opna eyru og augu fyrir tjáskiptum þíns eigin hunds.
Þannig lærði ég að hlusta á Kátu á sínum tíma og að vinna með henni. Þegar hún var orðin tveggja ára hafði ég kennt henni hundafimi en hún hafði kennt mér svo margt að gæti fyllt heila bók.
Þetta er kjarninn í því sem hundasport.is stendur fyrir. Þú hlustar á hundinn og lærir hans tungumál.
Með því að mæta á reglulegar æfingar öðlast þú og hundurinn þinn sameiginlegan farveg til að slípast saman. Þið umgangist annað hundafólk með sama markmið. Um leið fær hver og einn færi á að móta sinn eigin farveg, því rétt eins og mannfólk eru mismunandi persónur þá eru hundar það einnig.