Matarvenjur

Eitt af því erfiðasta fyrir hundafólk er hundamaturinn.  Á að vigta eða ekki vigta? Á að gefa fæðubótarefni eða ekki? Á að gefa matarafganga eða ekki? Hvaða bein má gefa og mega þau vera soðin eða ósoðin? Hvaða nagbein eu best og hversu oft á að gefa þau? Hvaða vörumerki er best í dýrafóðri?

Allra erfiðast eru matarvenjur. Reyndur leiðbeinandi sagði mér á fyrstu árum mínum í hundalífi, að ef ég skipti mér af matar ósiðum myndi ég bara flækja málin fyrir hundi. Nú orðið er ég sammála honum.Tökum fáein dæmi.

Ljúfur kom til mín tveggja ára og hafði þá venju að borða einungis ef enginn væri nærri, hvorki hundur eða mannvera. Einnig var hann matvondur með afbrigðum og er enn. Hann leyfir þó hundum sem hann treystir að borða með sér en aðeins á góðum degi. Ég hef staðið hann að því að bíða tímunum saman eftir rétta matarfriðnum.

Salka tók upp á því sem hvolpur að skófla mörgum matarbitum upp í sig, skokka með þá fram á gang, henda þeim út úr sér, og tína svo upp einn og einn mola. Smjattaði hún á hverjum mola eins og hann væri mesta lostæti. Hún er enn að þessu á miðjum aldri. Auk þess hefur hún sjötta skilningarvitið fyrir mat. Ef hundur er í eldhúsinu og er gefið smjörklípa eða annað nammi við matarborðið veit hún af því hvar sem hún er í húsinu.

Birta er dálítið lík Ljúfi, pabba sínum, með sérviskur af ýmsu tagi. Hún hefur sterka tilhneigingu til að borða einsömul og þá frekar lítið í senn. Hún þarf að vera mjög svöng til að vilja standa með hinum og gúffa í sig. Þó er hún alls ófeimin, enda er hún Alpha tík og ræður því sem hún vill ráða í hópnum. Birta tók eftir því sem hvolpur hvernig Salka ber sig að og á það til að nota sömu tækni.

Káta sem er flutt annað er einnig Alpha tík og var mjög sérstakt að sjá hvernig ein Alpha viðurkennir Alpha hvolp og leiðbeinir svo lítið ber á. Segja má að Birta hafi tamið sér svipuð viðhorf og Káta sýndi: Að leyfa hinum að borða nægju sína, vitandi að hún ræður ef hún vill.

Sunna er gotsystir Birtu og kom til mín átján mánaða. Hún hafði þá búið á fimm heimilum. Sem von er kemur hún til mín frekar stygg. Hennar matarvenja er afar flókin og oft hávaðasöm. Hún vælir og gjammar og urrar ef Salka er nærri matardöllum á sama tíma og hún sjálf. Hún er hæversk og hlédræg ef Birta og Ljúfur borða samtímis henni en þó þannig að hún er við einn dall og hin við annan.

Ég lét reyna á það með Sunnu hvort hægt væri að róa hana gagnvart Sölku en það versnaði bara. Ég hef séð fleiri tilfelli þess að leiðbeinandinn sem ég vitnaði í vissi hvað hann söng.

Eitt hið áhugaverðasta við rifrildi Sölku og Sunnu við matinn er ef ég aðskil þær. Setji ég Sölku fram í forstofu svo Sunna geti borðað ein heimtar Sunna að ég sæki hana. Svo er einnig á hinn veginn. Setjist ég fram í stofu meðan þær borða sækja þær mig á víxl til að passa – þó ekki alltaf. Þannig hafa þær sýnt mér að þær vilja borða saman en rífast þó allan tímann.

Niðurstaða?

Þú hefur þínar matarvenjur og hundurinn einnig. Rétt eins og þú kennir ekki hundi hvort hann má klóra sér eða ekki, geturðu ekki kennt honum hvernig hann á að borða. Þú getur þó kennt honum að bíða þar til sagt er gjörðu svo vel ef þér finnst það sniðugt.

Á mínu heimili er aldrei skammtað heldur matur alltaf í boði og hefur það reynst mér vel. Ég gef þurrmat að mestu en leyfi mér ekki að skrifa um einstök vörumerki.

Að öðrum merkjum ólöstuðum þá nota ég öll vörumerkin sem birtast á auglýsingum á þessum vef. Ég býð einungis þeim aðilum að auglýsa á hundasport.is sem ég ber virðingu fyrir, að öðrum ólöstuðum.

Eitt árið var ég mikið í ódýru fóðri og þá kom upp viðkvæmni með tennur í þrem hundum. Tannlæknir sem hefur sérhæft sig í tönnum og tannviðgerðum gæludýra benti mér á að Lýsi, Súrmjólk og AB-mjólk styrkja tennur og gef ég slíkt nærri daglega. Þá daga sem ekkert lýsi er gefið fær hver hundur eina matskeið af Ólífu olíu og oft gef ég döprum hundi matarrjóma.

Þá eru jógúrt nagbein sérlega vinsæl á okkar bæ og hafa virkað mjög vel gegn tannsteini. AB-mjólkin virkar líka gegn tannsteini enda vinnur hún á sýrum í maga sem koma upp um vélindað og setjast á tennur. Þá er gott að gefa soðin hrísgrjón þegar hundur er viðkvæmur í meltingarvegi eða svíður undan hægðum.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.