Hundarækt

Á persónulegu nótunum

Ég var alinn upp á sveitabæ þar sem ég lærði að vinna, að umgangast dýr og umfram allt: Átti góðan vin í mörg ár sem hét Loppa.

Á vænum voru stundaðar kynbætur með sauðfé árum saman, bæði með stofninn heima og í nánu samstarfi með bónda á þarnæsta bæ. Báðir stofnarnir voru ræktaðir samhliða og var einnig víxlað á milli þeirra.

Eftir því sem árin liðu lærði ég ræktunina. Ég komst ekki hjá því að fylgjast með öllum þeim samræðum og tilraunum sem í gangi voru ár eftir ár.  Þegar ég var fulltíða maður og fór út í heiminn hafði ég þekkingu í farteskinu sem ég bjóst ekki við að nota, enda ætlaði ég mér ekki að verða bóndi.

Dýramaðurinn

Þegar ég eignaðist fyrsta hundinn minn hafði ég streist á móti í mörg ár. Þar sem ég er alinn upp í sveit fannst mér, eins og mörgum, að hundar ættu heima í sveit en ekki á mölinni.

Ég kynntist og umgekkst daglega tvo hundaþjálfara á Írlandi fyrir fáeinum árum, en ég bjó þar í um ár, lærði ég margt sem fjárhundurinn heima hafði ekki kennt mér. Hundar eiga heima þar sem maðurinn er, það er þeirra náttúrulega val. Þessir góðu menn hjálpuðu mér að rifja upp margt sem Loppa sagði mér með táknmáli sínu og kenndu mér að nýta það.

Ári eftir að ég kom heim fékk ég mér hund og fór að hagnýta það sem ég hafði lært. Þegar sú þekking var þurrausin leitaði ég uppi menn sem vissu meira og lærði af þeim. Þeirri vinnu er alls ekki lokið en síðustu árin hef ég engu að síður lært mest af hópnum mínum. Til að mynda æfi ég vinnuhunda tvisvar í viku síðustu árin og á stóran hóp hunda. Þetta er mikil vinna en gleðirík og mjög lærdómsrík.

Tveir Sheffer/Labrador hvolpar með föður sínum

Tveir Sheffer/Labrador hvolpar með föður sínum

Í öllu þessu ferli hef ég kynnst mörgum hundum. Ég kenni reglulega á helgarnámskeiðum og leiðbeini á vinnuhunda æfingum er ég sífellt að kynnast nýjum hundum, nýjum eigendum og nýjum aðstæðum. Smám saman hefur eigin smekkur slípast til og eru þrjár tegundir næst mínu áhugasvið og þar trjónir Sheffer hæst.

Sheffer hundar eru fallegir og meðfærilegir hundar. Frábærir félagar, traustir gagnvart fólki og sérstaklega góðir við allt ungviði. Það er auðvelt að kenna þeim en um leið skemmtileg ögrun að beina þeim í sum störf. Til að mynda á þessi tegund gott með að læra viðbrögð en erfiðara með sveigjanleika.

Hvað meina ég með “læra viðbrögð” eða “vinna í sveigjanleika”?

Allir hundar læra mynstur og vinna úr mynstrum, rétt eins og við. Yfirleitt þarf hundur þrjár endurtekningar til að eitthvað sé lært. Fái hann tíma til að sofa á því og endurtaka skömmu síðar vinnur hann úr lærdómnum og tileinkar sér. Hundur sem lærir að visst orð segi honum að stökkva á mann, þá kann hann það. Læri hann að fá verðlaun fyrir að ganga á hæl þá gerir hann það, eða finna ákveðna lykt s.s. fíkniefnavinna. Þessi atriði henta vel í fimi, hlýðni og flestum hundastörfum.

Leitarhundur þarf að vinna í sveigjanleika. Hann þarf að vinna úr leitarsvæði, lesa aðstæður, og nota miklu fleiri pælingar í mun flóknara ferli. Sheffer hundar eru hrifnir af fastmótuðum ferlum, læra þá vel og mynda sér skoðanir á þeim. Það er mikil vinna að framkalla í þeim áhuga á sveigjanleika s.s. í Leitarþjálfun. Til að ná fram sveigjanleika þarf viðhorf og ástundun sem hentar fáum og því eru Labrador eða Border Collie vinsælli í slíka vinnu, tegundir sem eiga auðvelt með sveigjanleika og krefjast tilbreytingar.

Sjálfur hef ég einmitt gaman af að ögra þessum mörkum í Sheffer, aðallega því þeir hafa sveigjanleikann í sér en það er kúnst – eða list – að ná því fram.

Gott og vel. Kallinn er með Shefferdellu, en hvað hefur það að gera með ræktun?

Ég á þrjá Sheffer hunda í dag og þeir eru allir í vinnuþjálfun auk blendings sem einnig þjálfar. Hver og einn þessara hunda hefur innsýn í vinnu hinna – og þurfa að nýta sveigjanleika – en hver og einn er að vinna eftir ákveðinni línu. Til að mynda hefur einn þeirra þjálfað víðavangsleit í teymi með blendingstíkinni (Lab/Border), en slíkur árangur er sjaldgæfur.

En hvað með ræktun?

Þegar Þýski fjárhundurinn kom fyrst fram var hann blandaður úr fjárhunda- og vinnutegunum. Þar voru áberandi tegundir úr Niðurlöndum (Belgja og Holland) og er Belgíski fjárhundurinn (Malinois) mjög líkur Sheffer í útliti.

Þessir hundar eru fallegir og urðu fljótt vinsælir. Þeir búa yfir hæfileika fjárhundsins: Geðprýði,  sjálfstæði, vökur og sveigjanleg hugsun og hæfileg stærð auk útlits. Þetta eru stórir hundar en þó ekki of stórir fyrir bíla og heimili samanber Sankti Bernhards eða Stóri Dani. Auk þessa búa þeir yfir verndarhæfileikum og allt þetta gerir þá fjölhæfa. Þessi fjölhæfni fer þó minnkandi.

Forvitin hreinræktuð Sheffer tík

Forvitin hreinræktuð Sheffer tík

Í Evrópu eru fjárbændur með önnur viðmið en við þekkjum á Íslandi. Fjárbóndi í Evrópu sleppir ekki á fjall né heldur lætur hann hjörðina valsa um lendur nágrannans. Jarðir eru hólfaðar niður og fénu er stýrt milli hólfa. Þar sem aðgengi er að fjalllendi eða opnum svæðum, eins og við þekkjum í mörgum sveitum hérlendis, er farið með fjárhópa saman um sameiginlegar lendur en aldrei án eftirlits.

Þýski fjárhundurinn er hóphundur en ekki smölunarhundur og því hentar hann vel í þessar aðstæður. Hann hefur áráttu til að halda hópnum saman, hvort sem er fjárhópur, hvolpahópur eða mannahópur. Ég nefni tvö skemmtileg dæmi:

Nýlega naut ég aðstoðar við vélritun á miklu efni fyrir vefsíðu sem ég tók að mér að forrita. Já, hundakallinn er tölvuforritari. Verkefnið tók sex vikur og vélritarinn kom til mín daglega og vann með mér. Í lokin fóru Sheffer hundarnir að mótmæla í hvert sinn sem vélritarinn fór heim. Í þeirra augum var manneskjan orðin meðlimur í hópnum og þeir vildu halda hópnum saman. Þeir bæði mótmæltu þegar hún fór og héldu sig hjá henni fyrsta klukkutímann eftir að hún kom aftur. Sama ferli gera þeir við heimilismeðlimi. Til að mynda refsa þeir hver öðrum fyrir að fara of langt frá hópnum í útivist.

Þessi hegðun Sheffer hundsins er eitt af því sem takmarkar getu hans til að vinna í víðavangsleit. Þeir vilja ekki fara langt frá eða úr augsýn frá manninum sínum. Ég nota tvær vinnuaðferðir til að vinna á þessu hjá þeim en þær taka margar vikur og jafnvel mánuði til að ná góðum árangri.

Hitt dæmið var Sheffer sem ég hitti við vinnu í sveit á Írlandi. Ég bjó um tíma í smáþorpi í sveit á suður Írland. Morgun einn gekk ég fram á fjárhóp sem var í útjaðri beitarsvæðis. Kindurnar voru líklega um þrjátíu talsins á beit. Ég tek eftir að þrjár kindur voru komnar dálítið frá hópnum þegar Sheffer hundur birtist skyndilega í stærri hópnum miðjum. Hann lallar sér í hring út fyrir kindurnar þrjár og stuggar þeim aftur í hópinn. Síðan fór hann aftur inn í miðjan hópinn og lagðist niður.

Þetta er styrkur Sheffer hundsins, hann getur vissulega lært að smala eins og Íslenskur fjárhundur, en hann vill frekar passa hópinn og fylgja honum eftir. Smalinn á að velja hvar hópurinn skuli vera en getur lesið ljóð allan daginn, hundurinn bæði heldur hópnum saman og verndar hann fyrir árásum.

Hvar er þessi ræktun

Allt sem á undan er nefnt hefur að gera með þekkingu ræktanda á hundinum sínum og tegundinni. Ég hef aldrei stefnt á að verða hundaræktandi, nema kannski af nauðsyn. Mig langar í betra vinnuhundakyn, skítt með lúkkið.

Eins og áður kom fram hefur Sheffer hundur til að bera verndar eiginleika. Þeir eru mjög vakrir þegar kemur að slíku og frábitnir ónauðsynlegu ofbeldi. Það er til dæmis þekkt með þessa tegund að heimilisofbeldi þekkist varla þar sem slíkir hundar eru til heimilis: Þeir stöðva slíkt.

Í öllum þeim hundaræktunum sem ég hef kynnst á Íslandi er eingöngu ræktað útlit. Eðli fjárhundsins og varnareðli er að mestu horfið og eftir situr taugaveiklaður þverhaus sem lítur vel út á velli.

Til að mynda er sjaldgæft að ræktendur hér á landi stundi vinnuþjálfun sem hluta af ræktun. Þeir duglegustu láta duga einhver námskeið í spori og hlýðni með einhverjum lokaeinkunn. Í fyrra tók ég upp á myndband hvernig skapgerðardómur fer fram og hef ýmsar athugasemdir við fagmennskuna þar á bæ. Slíkt bíður betri tíma.

Hvað er þá rétt hundarækt

Það er eins með hundarækt og þjálfun eða pólitík. Rétt eða rangt er afstætt. Viljir þú fallegan og væminn fjölskylduhund sem er stór og flottur, þá færðu þér nútíma-Sheffer. Þú getur þjálfað hann vel í viðbraðgsþjálfun en viljir þú kenna honum sveigjanlega vinnu þarftu að stunda æfingar í langan tíma undir yfirvegaðri leiðsögn og þróa vinnubrögð.

Til að rækta hunda þarftu eftirfarandi aðstæður, nema þú sért eingöngu að þróa útlit:

  • Fyrir hvert foreldri sem þú velur til undaneldis þarftu að eiga dýrið í lágmark þrjú ár til að vita hvernig persónuleiki þess þroskast.
  • Þessi þrjú ár þarftu að vinnuþjálfa hundinn við allar þær aðstæður sem tegundin er þekkt fyrir. Dæmi: Sértu að rækta Blóðhund þarftu bara að þjálfa sporaleit, fyrir Labrador þarftu að kenna honum að veiða. Fyrir Border þarftu að kenna honum að smala auk fimi. Sheffer þarf að smala, spora, leita víðavang, leita að efnum, verja mann eða heimili og fimi.
  • Einungis vinna og tími geta leitt persónulega eiginleika dýrsins í ljós, auk þess sem þú þarft reynslu í að þekkja hvernig eiginleikar bæði erfast til afkvæma og blandast við eiginleika úr annarri átt.
  • Fyrir hvert undaneldis dýr þarftu lágmark fimm dýr í hóp til að átta þig á hvaða hundur ber af og hvers vegna. Þú þarft að skrá hjá þér allt sem hundurinn lærir eða gerir. Þú þarft að skoða, mæla og meta útlit hans ef útlitsþættir skipta máli og þú þarft að meta vinnhæfni hans við mismunandi aðstæður. Auk þess þarftu að prófa dýrin við þekktar álagsaðstæður.
  • Fyrir þau dýr sem eru góð en átt önnur betri þarftu hiklaust að vana verri einstaklingana og senda þá til góðra heimila.
  • Ræktandi heldur sambandi við ræktendur með svipuð viðhorf og lærir að þekkja þeirra hóp jafn vel og sinn eigin. Að sjálfsögðu skipta sýningar máli en ekki til að sýna heldur til að kynnast öðrum ræktendum (á góðum nótum). Hér á landi er því miður algengt að ræktendur vinni meira á móti hvor öðrum en saman.
  • Ræktandi vinnhundalínu þarf því að kunna þjálfun og stunda hana. Hann þarf að skilja að það tekur margar kynslóðir að beina stofni sínum í mismunandi áttir og hann veit að fyrsti góði árangurinn sést á þriðju til fimmtu kynslóð: Eftir tíu til fimmtán ár.
  • Ræktandi þarf auk þess að hafa hliðarlínur. Hann velur góð dýr af öðrum tegundum, með æskilega eiginleika, og blandar þeim inn í stofninn. Til að geta styrkt stofn sinn með blöndu þarf hliðarlínan lágmark fimmtán ár til að skila góðum árangri, sérsaklega ef það má ekki bitna á útliti.

Farsældar frón

Flestir ræktendur Íslenskra vinnuhunda eiga þrjú til fimm dýr og yfirleitt í bæjarfélagi. Yfirleitt eru þrjú til fimm dýr í fóðurvist þess utan. Þeir fara með hunda sína í útivist, sýniþjálfun og stöku sinnum í skammvinna vinnuþjálfun

Lélegri dýrin eru nær aldrei vönuð heldur notuð minna en hin því selja þarf afkvæmi bæði í hagnaðarskyni og til að standa undir kostnaði. Stöku sinnum er flutt inn dýr frá erlendum ræktanda en það er svo kostnaðarsamt að fá dýr eru flutt inn árlega. Af þessum sökum eru erlendu dýrin oft gjörnýtt án tillits til gæða afkvæma sinn.

Niðurstaðan af framangreindu er sú að ræktendur lenda í hvolpaframleiðslu sem hefur lítið að gera með árangur í ræktun. Að einhver segi við mig “ég hef ræktað í tólf ár” hljómar í mínum eyrum svipað og “ég hef framleitt mikið af hvolpum” en segir mér ekkert um árangur í ræktun einhverrar tegundar.

Næsta fáheyrt er að Íslenskir Sheffer hundar geti smalað eða passað fjárhóp. Yfirleitt þarf að passa þá í útilegum að þeir rjúki ekki í fé og skaði það í taugaveiklun. Þeir eiga oftast erfitt með að tileinka sér sveigjanleika í vinnuþjálfun og heilu kynslóðirnar eru ofurviðkæm taugaveiklunardýr.

Allt sem hér kemur fram er ritað af reynslu síðustu ára. Ég hef kynnst tugum Sheffer hunda á landinu, farið á sýningar, sýnt einn hunda minna, þjálfað vinnuhunda og aðstoðað fólk í erfiðleikum. Ég hef séð afkvæmi frá mörgum þekktra hunda og ég hef sjálfur náð framúrskarandi árangri með afkvæmi frá foreldrum sem fengu lélega skapgerðardóma í sama prófi og áður var nefnt.

Öll gagnrýn hér á þó ekki bara við ræktun hérlendis því mikið er um ræktendur á vesturlöndum í sömu sporum og hér. Af þessum sökum er komið svo að þýska lögreglan velur í dag frekar Malinois hunda í vinnu umfram Sheffer. Sú tegund hefur ekki verið háð sömu vinsældum og Sheffer og í þeim hundum hefur varðveist eðli sem Sheffer fékk þaðan fyrir um það bil öld. Ég hef ekki enn kynnst Íslenskum ræktanda sem myndi þora að taka góðan Malinois hund inn í hliðarlínu hjá sér til að styrkja einhverja eiginleika: Þeir hvolpar myndu ekki seljast, auk þess sem ræktunarklúbburinn myndi gera þann ræktanda óvinsælan!

Fyrir ári síðan var ég með blandað got í mínum hóp. Ég á Sheffer rakka sem hefur tekist að þjálfa afburða vel, þvert á væntingar sérfræðinga. Ég á Labrador/Border Collie tík sem er einstakur vinnuhundur á alla lund. Þau eignuðust saman sex hvolpa, allir með vaxtarlag föðurins en fjórir með litina hans. Þau fengu reyndar eyru móðurinnar.

Ég hafði hvolpana nógu lengi til að geta valið afkvæmi til vinnuþjálfunar og hefði ég valið tvö þeirra útfrá geðslagi. Þessi tvö afkvæmi eru vingjarnleg við fólk, vinnusöm, mjög fljót að læra og mjög huguð. Þau voru óhrædd að prófa nýja hluti en skoðuðu alltaf aðstæður fyrst. Þá voru þau klók að vinna úr flóknum aðstæðum. Hin afkvæmin voru ýmist of hrædd við að prófa eða önuðu áfram í hugsunarleysi.

Annað þeirra hafði þannig litasamsetningu að næsta eða þarnæsta kynslóð hefði fengið fullkomið Sheffer útlit en með nýtt og endurbætt geðslag. Auk þess eru engir sjúkdómar á borð við mjaðmalos eða annað los í móðurættinni. Reyndar er móðirin og hennar foreldrar mjög hraust og sterk.

Frá sjónarhóli þess sem þjálfar vinnuhunda var þessi hliðarlína í ræktun fullkomin. Allir hvolparnir höfðu til að bera góða vinnueiginleika frá foreldrum sínum. Tveir þeirra voru auk þess spenanndi til ræktunar. Allir fóru á góð heimili og allir eru þeir hraustir. Þegar hin hreina og fagra Shefferdeild Hundaræktarfélags Íslands frétti af gotinu var ég kærður til siðanefndar félagsins þar eð faðir þeirra var skráður þar. Hann á reyndar hreinræktuð afkvæmi sem öll eru heilbrigð og sterk, og þrjú þeirra eru í vinnuþjálfun með góðum árangri.

Ég nefni þetta atvik  sem dæmi um viðhorf sem er ríkjandi í ræktun hérlendis: Það er bannað að koma með nýtt blóð inn í stofna. Það er bannað að prófa aðrar áherslur í útliti. Það er bannað sem ekki er í tískuviðhorfi eða vinsældum þess tíma: Út frá útlits viðmiðun og félagslegum gildum á borð við það að falla í hópinn. Menn á sakaskrá eru t.d. óæskilegt hundafólk í þeirra augum og skiptir þar engu hversu færir hundamenn þeir eru eða annar árangur þeirra. Ræktunarviðmið hafa meira að gera með staðlað útlit og einkunn úr einhverjum smáprófum, frekar en vinnuviðmið.

Ræktendur sem búa í bæjarfélagi og hafa fá dýr geta ekki kallað sig ræktendur, heldur hvolpasala. Ég nefni dæmi:

Sheffer hundum er stillt upp í myndatökur þannig að annar fóturinn sýr aftur, skott lafir niður og hundurinn horfir fram með upprétt eyru. Glögglega kemur fram smá sveigja í bakinu. Ef ég færi til Austur Evrópu og flytti inn hund úr vinnulínu með beinna bak fengi hann stóran mínus á sýningum hér. Hann yrði óvinsæll og enginn ræktandi með sjálfsvirðingu myndi nota hann.

Loðinn og dökkur með beinna bak

Í Austur Evrópu var mun meira um ræktun vinnuhunda a dögum kalda stríðsins. Á vesturlöndum á sama tíma var mun meira um hvolparækt til sölu á heimilin. Austur Evrópufólk hafði ekki efni á að kaupa sér Sheffer auk þess sem stjórnvöld kommúnistaríkja kærðu sig ekki um slík dýr meðal almennings. Yfirleitt eru þessar línur með beinna bak, dekkri á feldinn og vinnusamari.

Það eru einmitt þessar vinnulínur sem Þýska lögreglan getur ennþá notað í vinnu en því miður eru þær orðnar minni eftir fall járntjaldsins því Vestur Evrópsku línurnar eru vinsælli til sölu. Markaðurinn ræður hér valinu – því markaðurinn velur þægilega heimilishunda – en ekki vinnuhunda þörf.

Nú veit ég ekki hvers vegna bogna bakið skiptir máli. Ég er sjálfur hrifinn af beina bakinu í Labrador og Border Collie og þó bakboginn á Sheffer gefi fallegt útlit þá veit ég ekki ennþá hvort það skipti máli fyrir vinnuhund. Þó hef ég heyrt því fleygt að bogna bakið hafi áhrif á þætti á borð við mjaðmalos og eins stökk kraft.

Í þessu mætti benda á að Border Collie er með mjaðmir hærra í lofti en bóginn, og hann er úrvals vinnuhundur í smölun, en smölun reynir mjög mikið á hreyfigetu og úthald t.d. þegar farið er í göngur. Blendings hvolparnir mínir munu ekki hafa þetta bogna bak og það verður gaman að skoða þegar þeir fullrðnast hvaða áhrif það hefur á vinnugetu þeirra s.s. að fara yfir hindranir.

Að endingu

Kæri lesandi.

Ég bið þig að lesa allt sem hér kemur fram sem mína persónulegu skoðun um ræktun. Það veitir mér enga ánægju að tala niður til Hundaræktar félags Íslands eða Sheffer deildarinnar.

Í engu ætla ég niðra þá Íslenska ræktendur sem hafa flutt inn Þýska fjárhunda og stækkað og styrkt stofninn hérlendis. Án þessa fólks ætti ég ekki Sheffer hunda í dag auk þess sem ég hef persónulega kynnst mörgu góðu fólki í þessum stóra hóp.

Skoðun mín er einföld: Til að rækta hunda þarftu að gæta að fleiru en útliti. Þú þarft að hafa breiðan sjóndeildarhring og slá niður fordóma. Þú þarft að þora að gera tilraunir og læra af reynslunni. Þú þarft að taka áhættur og umfram allt: Þú þarft að vinna með hundum þínum, þjálfa þá og hugsa í áratugum en ekki árum.

Tveir Þýskir fjárhundar í fertugum Fjárbíl

Tveir Þýskir fjárhundar í fertugum Fjárbíl

Kynni mín af Sheffer og því umhverfi sem hann er sprottinn úr á okkar góða landi hefur vakið áhuga minn á því sem mér var kennt í sveitinni heima. Mun ég líklega sannreyna þessar skoðanir mínar á eigin stofni, ef Guð lofar. Rétt eins og með þekkingu mína og lærdóm í hundaþjálfun: hún er sprottin úr því að sannreyna allt í vinnu með hundum mínum.

Hér má vel koma fram að ég hef heimsótt ræktun á Íslandi sem starfar á svipuðum nótum og ég vil halda fram. Heimastofn ræktandans telur á milli tólf og átján dýr, allir hundar fá þjálfun og foreldrin eru valin út frá vinnuhæfileikum umfram útlit en þó ekki að útliti útilokuðu. Þessi ræktun er þekkt að vönduðum og afburða hæfum hundum. Allt utan hins heilaga Hundaræktarfélagi Íslands.

Í öllu þessu, ræktun, þjálfun, námskeiðum og öðru, vona ég að hundafólk minnki dálítið persónulegar árásir, baknag og róg. Við eigum öll að stuðla að góðri hundamenningu, í öllum þeim litum sem við höfum.

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.