Litlu hlutirnir

Eitt sinn sagði kona við mig “þú ert með hunda til að fá útrás fyrir stjórnsemina”. Henni fannst ég stjórnsamur og var sannfærð um þetta. Vafalaust er ég stjórnsamur þó mér finnist það ekki. Við sem höfum sterkar skoðanir virkum oft þannig.

Mér fannst þetta fyndin fullyrðing hjá konunni, því hún tók ekkert mark á útskýringum mínum. Ég er með hunda því ég elska þá. Þegar ég lít í augu hunds, klingir einhver strengur í hjartanu og mig langar að knúsa hann, hlaupa með honum, eða eiga við hann samskipti. Þess vegna er ég með hunda; ég elska að eiga við þá samskipti. Enginn nennir að fara út að labba oft á dag eða vikulega á æfingar vegna stjórnseminnar. Það verður að koma fleira til.

Mér finnst gaman að skilja litlu skilaboðin sem hundar gefa frá sér, sérstaklega þegar ég skil þau. Ég hef engann áhuga á að vita öll merkjafræðin úr bókum sem þeir flétta saman með táknmáli sínu. Ég hef áhuga á að skilja hvern og einn, eins og hann birtist persónulega. Að geta síðan tekið þessi skilaboð og nýtt þau í samskiptum veitir fullnægju.

Eigum við að ræða eitthvað um gúmmíbolta?

Þegar Ljúfur lætur mig vita á sinn persónulega hátt að það sé kjötlykt úr ísskápnum. Hvernig hann lætur mig vita að hann þarf út að kúka eða gubba. Hvernig Sunna dóttir hans notar aðra aðferð til að segja hið sama. Hvernig Káta gefur blíðlega í skyn að hún hafi ekki fengið knús nýlega. Hvernig Salka notar sín skilaboð til að segja mér að ég hafi ekki kastað bolta fyrir hana lengi, lengi, lengi. Hvernig Birta segir mér á sinn mjög persónulega hátt að ég hafi tekið Sunnu systir sína framyfir og að hún upplifi sterka höfnun.

Mörg þeirra skilaboða sem hundar í hópnum gefa frá sér eru svo persónubundin að við á heimilinu þekkjum vel hvað þau eru að pæla, meðan ókunnugir sjá bara hund.

Við eigum samfélag saman sem er byggt á litlum atriðum í samskiptum. Það veitir gleði sem er miklu stærri en vinnan við hundahaldið sjálft. Að fara í gönguferðir, sópa hárug gólfin eða þrífa eftir smáslys (unghunda) eftir nóttina, það er ekki vinna. Það er ekki vinna eða vesen að hugsa vel um þau sem þú býrð með í kærleiksríku samfélagi.

Kúkur og piss

Allir hundar velja staði til að kúka. Ljúfur á sína pissubletti og viðheldur lyktinni af þeim. Hann merkir þá vandvirknislega og þegar aðrir rakkar hafa merkt staði í hverfinu skellir hann smá lykt þar líka. Fari ég í útivist kvölds og morgna, en það fullnægir megninu af pissu og kúki þörf dagsins, þá ætlast hann samt til þess að geta viðhaldið blettunum sínum, og hann minnir mig á það.

Ljúfur vill helst kúka fyrir framan tvenn bílastæði í götunni. Hann á líka smá malar-rein í þar næstu götu og varastað á einu götuhorni í enn einni götunni. Salka á tvo uppáhalds staði sem báðir krefjast þess að hún hoppi yfir eitthvað. Hún er líka hrifin af malar-reininni hans Ljúfs.

Káta notar helst ákveðinn stað við enda götunnar og stundum annan staðinn hennar Sölku, hún er líka hrifin af malar-reininni. Birta vill nota miðja götuna til að kúka, helst fyrir framan húsið okkar eða nágrannans, en annars bara á miðja götuna. Hún er þó sátt við að gera það í lok gönguferðar ef hún mundi ekki eftir því ekki í byrjun.

Sunna vill garðinn okkar og er henni sama hvoru megin við húsið. Hún á það til að gleyma sér við að hnusa af nágrenninu og þarf því að gefa henni þrjár mínútur í lok gönguferðar, til að muna eftir að pissa eða kúka, annars krefst hún þess að fara út aftur fimm mínútum eftir að kallinn er kominn úr úlpunni.

Öll eiga þau varastaði, en það er enginn vafi: Þau pæla í því hvar þau vilja ganga örna sinna og þau vita hver á hvaða stað.

Að fara höndum um hundinn

Ég minntist á það í síðustu grein að hundar stíga ekki hver á annan, né mannfólk, ef þeir komast hjá því. Yngri hundar eru ekki alltaf með þetta á hreinu og þetta á ekki við þegar þeir þurfa knús. Hundur sem veit að hann má koma í fangið þitt er ófeiminn við að prýla.

Þegar hundar eru að umgangast hvern annan stíga þeir ekki á hund sem liggur útaf. Þegar hundahópurinn minn fer inn forðast þeir að ýta við öðrum hundi. Þeir reyna að smjúga framhjá en oft bíða þeir bara eftir að hinn hundurinn færir sig. Káta sem er smágerð hefur stundum smeygt sér undir Sheffer hunda til að komast framhjá og er dálítið fyndið þegar hún gerir það, og hún er alltaf roggin á svipinn þegar það gerist.

Hundar eru mjög meðvitaðir um þetta. Ef ég tek utan um einn hund og lyfti honum upp, á líta allir hundarnir upp og horfa á mig alvarlegum augum á. Jafnvel ef ég aðstoða einn hund sem þarf að hjálpa t.d. upp í bíl eða yfir hindrum, þá líta allir hundarnir alvarlega á handbrögðin. “Kallinn fer höndum um” sér maður í augm þeirra.

Sérstaklega er þetta áberandi varðandi hvolpa. Taki ég upp hvolp og stend upp fylgjast allir hundarnir með. Það er alvarlegur hlutur að fara höndum um hund og stýra honum eða taka hann. Þeir vita vel af þessu og fylgjast með. Ég hef oft tekið eftir því að hvolpur getur látið vita með hátíðnihljóði ef honum mislíkar meðferðin. Þegar það gerist koma eldri hundarnir og standa við hlið mér og gaumgæfa meðferðina á hvolpinum. Þetta er alvarlegt mál í þeirra heim.

Hvolpar og allt ungviði er hundunum heilagt. Meðan hvolpur er hvolpur má hann ögra fullorðnu hundunum eins og þeim sýnist. Þegar þeir koma á gelgjuna breytist það og þeir fá uppeldi fullorðinna dýra. Hvolpar mega hins vegar leika sér og alast upp eins og þeim sýnist.

Þar sem ég hef lengi fylgt þeirri stefnu að minn hundaskóli sé hópurinn hef ég oft brugðið frá hinu hefðbundna í uppeldi hunda minna og leyft þeim sjálfum að leiðrétta mig. Þegar Birta kom á heimilið tók ég sömu afstöðu með uppeldi hennar. Það er mál manna sem þekkja hana í dag 18 mánuðum síðar að hún hafi þroskast í mjög heilsteyptan persónuleika.

Til að mynda var hún mikill gjammari þegar ég fékk hana og mjög viljasterk t.d. varðandi óhlýðni. Margir voru efins um að hún yrði nokkurn tíma hlýðin eða meðfærileg. Í dag er gjamm nánast úr sögunni og hún tekur leiðsögn mjög vel. Segja má að hún hafi valið sjálf að verða hlýðin og skemmtileg – en hún er uppalin af hópnum sjálfum en ekki mér.

Einkarétturinn

Hundarnir sofa og kúra á völdum stöðum. Yngri Sheffar tíkurnar eru hrifnar af þröngum skúmaskotum. Ljúfur elskar blettinn við útidyr. Káta og Salka eru báðar hrifnar af rúminu mínu (á daginn) en aldrei báðar í einu. Káta vill þó frekar vera til fóta. Allir hundarnir eru hrifnir af stófusófanum, helst þó ekki tveir í senn en sá staður er meira í öðru sæti. Salka er einstaklega hrifin af tilteknum púða á hægindastól, og ef koddinn minn er einhversstaðar er hún vís til að hlamma sér á hann. Hún og Sunna eru jafn hrifnar af sama hægindastól og eru þar stundum báðar í einu en ávallt er samkomulag gert í senn.

Að sjá hunda kúra saman er ekki algengt í hópnum. Þó er algengt að hvolpur (hundur yngri en 16 mánaða) kúri hjá uppáhalds eldri hundi. Algengast er að Ljúfur sé fyrir valinu; allt ungviði nærist á hlýjunni frá honum hvort sem eru kettlingar, börn eða hvolpar. Káta sem ræður öllu í hópnum heldur meiri fjarlægð.

Þannig sjá þau einkaréttinn: Ég á rúmið og þau vita að ég á það. Ég hef aldrei kennt þeim að umgangast rúmið á nokkkurn hátt. Öll þeirra virðing gagnvart rúminu er frá þeim sjálfum komin og þau sýna bælum hvors annars sömu virðingu.

Allir hundarnir hafa gaman af að grafa holur, sérstaklega þeir yngri. Eldri hundarnir vilja vissulega grafa líka en þau gera það frekar í útivist og helst þar sem ég get ekki fylgst of vel með þeim. Þau eru ekki hrifin af að aðrir hundar fari í holurnar sínar.

Birta á fjórar holur í garðinum, hún á þær sjálf og bannar öðrum hundum að fara í þær. Salka átti eina þeirra áður en Birta kom í hópinn. Sú hola tilheyrir þeim báðum í dag. Þær voru lengi að sættast um þessa holu og ekki alltaf blíðlega en samkomulag náðist.

Sunna á núna eina holu sjálf og Birta fær að kenna á því ef hún ætlar sér að grafa í henni. Smámsaman er Birta farin að gefa eftir með eina af sínum holum fyrir Sunnu. Sú tiltekna hola var fyllt af mér. Hún var djúp og mjó, svo ef maður steig óvart í hana í myrkri gat maður meitt sig svo ég fyllti í hana. Þrem dögum síðar voru Sunna og Birta, í sameiningu, búnar að róta upp úr henni aftur.

Hundur hnusar af lykt, annar verður forvitinn að gá að lyktinni

Eldri hundarnir eru gætnari með sínar holur en það eru til eignarréttarholur á sumum útivistarstöðunum mínum. Þau sem eldri eru vita að þessar holur eru verðandi felu- og rotunarstaðir fyrir bein svo þeim er alvörumál að eiga holur sínar fyrir sig.

Einnig eru mjög áhugaverðar niðurstöður sem Elisabeth Marshall Thomas í þessu samhengi. Hún tók eftir að hundahópur sem ekki fær aga frá mannfólki grefur sér göng inn í hóla. Sé jarðvegur nógu góður eru göngin höfð nógu löng, með stærra svæði innst, svo þrír til fjórir hundar geti sofið þar inni heilan dag. Tík getur einnig haft hvolpa í slíku greni. Hundahópurinn hins vegar leyfir bara sumum hundum að “eiga heima” í holunni.

Litlu skilaboðin

Ég hef tileinkað mér að læra sem mest af tungumáli þeirra af þeim sjálfum og því hef ég allar reglur í lágmarki. Þannig hef ég lært að taka eftir litlu skilaboðunum.

Með öllu þessu á ég við eitt: Hundurinn þinn gefur allan daginn frá sér lítil skilaboð og oft eru þau mjög persónuleg. Lykillinn að táknmáli hans er að muna að hann er hundur en ekki barn. Að hann talar eins og hundur og ef þú horfir á hann, setur þig í hans spor, tekur eftir hreyfingum hans, og setur fyrirfram mótaðar hugmyndir til hliðar, þá getur þú skilið hundinn þinn eins og maður skilur mann.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.