Leikur, virðing, vinátta

Vinátta

Hundur er rándýr með tilfinningar, rétt eins og við. Þeir hafa gaman af að elta bráð, drepa hana og éta, rétt eins og við. Hundar elska fjölskyldu sína og vini, rétt eins og við. Hundar hafa skoðanir á málefnum (s.s. boltum, kisum, …) og þeir hafa flókin samfélagstengsl, rétt eins og við.

Hundar hafa gaman af að leika sér, jafn mikið og við.

Þú hefur gaman af að tala við vini þína og gera með þeim eitthvað skemmtilegt. Það er gaman að fara á fótboltaleik eða í saumaklúbb með vinum og eiga góðar stundir. Slíkt styrkir vináttubönd. Hið sama á við um hunda.

Fyrstu kynni gleymast ei

Hlaupa saman, elta saman, togast á saman, gelta saman. Gera hluti saman styrkir vináttubönd.

Því meira sem þú leikur við hundinn þinn, því betri vinur þinn er hann. Hundar eru meðvirkir í eðli sínu. Þeir nota þann hæfileika til að móta samfélag. Hundurinn þinn verður þér alltaf hlýðinn. Hvort viltu að hann hlýði þér af eðlishvöt sinni, eða vegna vináttu ykkar?

Við erum yfirleitt tillitssöm og eftirlát við vini okkar, rétt eins og hundar. Ef þú átt gott leiksamband við hundinn þinn, þá eigið þið gott samband á öllum öðrum sviðum. Ef hundurinn þinn vill ekki leika einhverja leiki við þig s.s. leiki sem aðrir hafa kennt þér, þá er jafn líklegt að þú sért ekki að fíla þann leik. Hundar hafa einstaka hæfileika til að vita hvað þú elskar og laga sig að því. Þess vegna er hægt að þjálfa þá.

Virðing

Ég á núna fimm hunda og þrír þeirra eru þjálfaðir í leitarvinnu, þó ekki allir í því sama. Misjafnt er hvaða áherslur þeir hafa þjálfað og einn þeirra hóf nýlega efnaleitarþjálfun.

Ég skipti mér aldrei af því hvernig heimilishundarnir haga sér innbyrðis. Á heimilinu eru þeir tillitssamir hver við annan. Aldrei stígur hundur á annan hund komist hann hjá því. Aldrei ýtir einn hundur við öðrum. Gagnkvæm virðing er þeim mikils virði. Þeir stela stundum dóti hver frá öðrum, en spyrja ávallt leyfis fyrst. Þeir spyrja með augnatilliti og hreyfingum.

Fyrir kemur að hundarnir takast á innbyrðis um stöðu sína innan hópsins. Yfirleitt gæta þeir þess að valda ekki hver öðrum skaða. Ég hef séð tvo fullorðna Sheffer rakka takast á af hörku, skyndilega náði annar þeirra taki á eyra hins sem kjökraði af sársauka, takinu var samstundis sleppt og slágsmálin enduðu sekúndum síðar. Auðvitað hef ég séð hund meiða annan svo blæði, en það er alltaf óvart. Að hundur skaði annan í reiði er sjaldgæft og sjaldnast viljandi.

Hundar eru meðvitaðir um tennur sínar. Þeir vita upp á hár hve fast þarf að bíta til að blæði. Þeir geta tekið egg í munninn án þess að brjóta það, rétt eins og við. Hundar vita nákvæmlega hvar mörkin eru á milli þess að taka eitthvað upp með blíðu eða hörku, rétt eins. Við getum bæði veitt blíðu og sársauka með eigin höndum, hundar með skoltinum.

Leikur

Við mannfólk höfum ýmsar kenningar um hunda, hundasálfræði, hundaeðli og hundadrauma. Já, hundinn þinn dreymir og það er nýtt af þjálfurum. Þegar ég byrjaði að leggja stund á hundaþjálfun leitaði ég uppi menn með reynslu og lærði af þeim. Bæði í hundaklúbbum og einnig hef ég heimsótt menn sem höfðu á sér orð fyrir hundaþjálfun. Að ógleymdum gamla snillingnum sem komu mér á bragðið á Írlandi. Ég gluggaði í bækur og lærði.

Sækja og skila, með þrem hundum í útivist

Að lokum ákvað ég að læra meira af hundum en mönnum. Mönnum ber oft ekki saman um hunda og oft leiðréttu hundar mig í því sem fólk hélt fram. Eina leiðin til að læra meira var að láta hundana hafa síðasta orðið. Til að geta það var bara ein leið í boði og það var að stofna og þjálfa hundahóp. Af öllu því sem mannfólk heldur fram um hunda er leikurinn er umdeildastur.

Hvenær á ég að leika við hundinn? Hvenær á ég að hætta að leika við hann? Hvaða leiki á ég að velja? Eiga aðrir í fjölskyldunni að leika við hann? Hvaða leikföng eru best? Hvaða aðstæður eru bestar? Hvernig tengist leikurinn foringjahlutiverkinu. Spurningalistinn er lengri.

Eitt skemmtilegt dæmi eru aðstæður. Við sem æfum leitarhunda notum leik sem verðlaun fyrir verkefni. Mest er notað af reipitogi en einnig eru notaðir eltingaleikir og boltaleikir. Aðrir leikir eru sjaldgæfari en ekki útilokaðir.

Fólk hefur mismunandi skoðun á hvað hentar best við hvaða aðstæður. Við vinnuaðstæður hef ég mesta trú á leikjum sem styrkja samband á milli manns og hunds t.d. togleik. Við aðstæður sem krefjast mikillar tilfinningaspennu t.d. að kenna hundi að gelta eða hlýðni/fimi er oft betra að nota hluti (sem hundurinn elskar) á borð við bolta eða gúmmíslöngu.

Sumir halda því fram að leikföng sem notuð eru við vinnuverðlaun, séu eingöngu notaðar við þær aðstæður. Talið er að hundur sem fær tiltekið dót, eða tiltekinn leik, við tilteknar aðstæður eingöngu, hann verði æstari í þá vinnu. Tilhlökkunin að fá leik sem hundurinn fær annars ekki, sé þá meiri og vinnugleðin meiri.

Þetta er allt saman gott og gilt. Eins og svo margar hugmyndir manna um hunda, þær eru oft flóknari en hundurinn. Enda erum við flóknari en hundurinn.

Reynslan hefur kennt mér að hundurinn elskar meira að foringinn leiki við sig en aðrir og það skiptir hann meira máli að foringinn leikur við sig en hvaða dót er notað. Því skiptir máli að foringinn noti leiki sem hann sjálfur elskar, en ekki öfugt.

Hinn einfaldi leikur foringjans

Ég rak mig snemma á það að engu máli skiptir ekki öllu hvaða dót er notað, við hvaða aðstæður eða við hvaða takmörk. Sumt dót hefur önnur áhrif en önnur. Togleikur styrkir persónusamband meðan hlutur styrkir egóið.

Það sem skiptir mestu máli eru leikreglurnar fjórar:

  1. Elskaðu leikinn og notaðu bara leiki sem þú elskar.
  2. Notaðu dót sem þú fílar, og haltu þig við það.
  3. Stjórnaðu leiknum: Þú ákveður hvenær leikur hefst og hvenær honum lýkur.
  4. Aldrei leika við hundinn þegar þú ert þunglyndur, ert dapur, þér leiðist, eða í leik eða með dót sem þú ekki fílar.

Ef þér finnst þetta of einfalt til að vera satt, skaltu halda þig við flóknu hlutina. Hundurinn þinn mun þó elska þig meira, hlýða þér betur, og vinna betur fyrir þig, ef þú fattar einfaldleikann.

Ég lendi stundum í vafa, vissulega, um það hvaða dót ég ætla að nota við þjálfun og aðrar aðstæður. Taktu vel eftir notkun orðanna, ég ætla, því ég hef engar áhyggjur og hef aldrei þurft að hafa, hvort hundurinn vill leik eða ekki, eða hvort einn leikur sé betri en annar. Hins vegar lendi ég stundum í vafa með hvað hentar mér sjálfum og hvers vegna.

Að gera og laga mistök

Maður sem treystir foringjahlutverkinu, treystir hundinum sínum, og er vakandi fyrir táknmáli hundsins, getur prófað sig áfram. Þó hann geri mistök þá getur hann leiðrétt þau.

Meðan ég þjálfaði Ljúf sem leitarhund leyfði ég mis-hæfum leiðbeinendum að skipta sér af þjálfun hans. Þeir vildu kenna honum að grípa í mig sem markeringu og á sama tíma espa upp æsing hans að mörkum stjórnleysis. Auðvitað kom að því að hann beit mig í leit. Þegar ég kvartaði yfir þessu hlógu þeir bara.

Ljúfur og Salka skoða nýfæddan Kettling

Ljúfur og Salka skoða nýfæddan Kettling

 

Þegar ég gafst upp á þessum góðu leiðbeinendum og hóf eigin þjálfun héldu þeir því fram að ég hefði slegið hundinn þegar hann reyndi að bíta mig. Það tók fjóra mánuði að vinda ofan af misþjálfun þessara manna og kenna hundinum nýja tækni við markeringu.

Ég nefni framangreint sem dæmi um að hægt er að laga alla hunda. Ég hafði treyst faghóp fyrir þjálfun okkar. Þegar þeir höfðu nærri eyðilagt fyrir mér hundinn þá var samt hægt að laga hann. Staða hans í dag, þrem árum síðar:

  1. Hann er útlærður í Víðavangsleit og Hverfaleit.
  2. Hann klárar allar leitir með árangri – vikulega síðustu 34 mánuði.
  3. Hann fer hiklaust allt að 800 metra frá foringja í leit.
  4. Hann hefur lært að láta aðra stjórna sér í leit.
  5. Hann markerar þannig: staðnæmst hjá foringja og geltir, vísar síðan örugglega.
  6. Hann hefur þjálfað samvinnuleit með öðrum hundi úr hópnum.

Atriði þrjú til sex hér að ofan eiga Sheffer hundar ekki að geta lært. Ljúfur er hreinræktaður Sheffer hundur.

Auk þess hafði hann farið á milli sex heimila fyrstu tvö árin sín. Hann kom til mín á 2ja ára afmælisdaginn sinn. Leiðbeinendur í tveim faghópum héldu því fram að hann gæti ekki orðið leitarhundur.

Hann er sex ára gamall þegar þetta er ritað og 14 hunda faðir. Þrjár dætur hans eru í þjálfun í dag: Ein í sporaleit, ein í fíkniefnaleit og ein í víðavangsleit. Daginn áður en ég eignaðist hann stóð til að svæfa hann. Shefferklúbburinn vísaði honum úr sínum röðum yfir að börnin hans væru ekki ættbókarhæf samkvæmt sínum reglum.

Ég hef frá upphafi leikið við Ljúf í hverri viku, heima og heiman. Ég hef notað sama dót heima og í þjálfun. Ég leyfi honum að biðja um leik og hann á ýmis uppáhalds leikföng. Hann leggur dót við fætur annarra og biður um leik. Margir halda því fram að vont sé að nota sama dót heima og á æfingu. Því eru mínir hundar stórlega ósammála.

Aðalatriðið í þessari tölu um Ljúf er þessi: Leiktu við hundinn og notaðu reglurnar fjórar. Þá færðu vinnusaman, hlýðinn, skemmtilegan hund. Hornsteinninn að árangri þessa hunds, sem allir elska sem kynnast honum, er að hann leikur við mig og það oft, og honum er sýnd virðing.

Ég nefni eitt að lokum. Þegar einhver hundur í hópnum sýnir á sér erfiðleika: þá tek ég hann einan í leiki. Yfirleitt dugar það til að laga vandann.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.