Smelluþjálfun með Clicker

Clicker smelluþjálfun er einföld – og stundum misskiling – tækni sem oft er í tísku. Markmiðið hennar er að hrósa hundi með smellum með þar til gerðu tæki sem vel fer í hendi.

Til að ná árangri með Smellu er í fyrstu hrósað með nammi og smellt um leið og nammið er gefið. Síðar er nammið tekið út úr ferlinu og smellirnir duga þá sem hrós.

Oft heldur fólk að smelluþjálfun sé áhrifarík því að hundar séu næmari á smellinn en hrós raddar. Margir halda að nóg sé að kenna smelluna í nokkrar mínútur og eftir það megi nota smelluna til að kenna hvaða hegðun sem er. Svo er ekki.

Það er enginn munur á að hrósa með háum tón á borð við „já“ og „duglegur“ eða smellu, smella fingrum eða sletta í góm. Hundinum er sléttsama svo lengi að hann fái hrós.

Margir nota smellu því hún gefur tvennt: a) hægt er að gefa click á sekúndunni sem hegðun fer fram og b) hún krefst ekki látbragðs eigenda.

Látbragð

Það sem máli skiptir við hundaþjálfun er blanda af hrósi og leiðréttingu. Hrós er í upphafi nammi, hver svo sem aðferðin er við þjálfun og þegar maður og hundur hafa kynnst hvor öðrum dugar hrós yfirleitt. Leiðrétting er aftur á móti fólgin í að hunsa eða grípa í hálskragann.

Margir hundaeigendur eiga erfitt með að hrósa með þeirri væmni sem hundar laðast mest að, og grípa því til smellu. Í raun mætti alveg eins sletta í góm – enda þyrfti þá ekkert aukatól. Margir sem æfa á leitaræfingum hjá Hundasport hafa þurft talsverðan tíma í að læra á þetta, því fólk á oft erfitt með látbragð og ýkta framkomu í mannheimum. Látbragð og ýkt framkoma er hins vegar tungumál sem hundar skilja mjög vel.

Hvernig sem á þetta er litið er áhrifaríkara til lengri tíma litið að fá leiðsögn hjá vönum hundamanni í að ná ýkta tóninum eða látbragðinu. Það er sérstakt með okkur Íslendinga að slíkt er jafn erfið konum og körlum – við erum stumdum dálítið frosin í tjáningu.

Þeir menn, og konur, sem ná bestum tökum á að þjálfa hunda sína, eru einmitt þeir sem hafa æft sig í tón og látbragði og byggt upp gott samband við hundinn – eða æft sig í hundahvísli. Engar tískuaðferðir geta komið í stað þess.

Á bæði námskeiðum okkar og æfingatímum er tekið fyrir hvernig fólk nær þessum tón og það æft. Því þetta er einfalt og virkar best. Nú mætti vel skilja þessa grein þannig að leiðbeinendur hjá Hundasport séu neikvæðir í garð Smelluþjálfunar. Svo er alls ekki. Okkur líkar vel við allt sem stuðlar að góðri hundaþjálfun og bættri hundamenningu fyrir menn og hunda.

Fyrir kemur að fólk æfir hjá okkur sem kýs að nota Smellu og er það í góðu lagi.

Til eru hundaflautur sem smalaþjálfarar – og aðrir – nota til að senda hundum merki. Ég hef sjálfur æft flautuna og nota hana mjög oft í ferðum úti á landi þar sem hundar mínir fá að vafra lausir. Með flautunni get ég kallað á þá úr meiri fjarlægð en röddin ræður við. Einnig hef ég þjálfað sjálfan mig í að flauta á klassískan hátt og hæla með látbragði, svo ég geti þjálfað við allar aðstæður hvort sem ég er með smellu eða flaut eða án þeirra.

 

This entry was posted in Greinar and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.