Skipanir

Skipun er orð sem hundur tengir við athöfn. Beztur árangur næst ef þú notar skýr og einföld orð sem tengjast einhverju sem hundurinn gerir sjálfur. Með þroska hundsins fer hann að vilja framkvæma skipunina til að þóknast þér.

Hundar bregðast við greinilegu handmerki og stuttum ákveðnum skipunum. Forðastu endurtekningar á skipunum, það ruglar hunda. Dragðu athygli hundsins að þér með hreyfingu, hljóði eða lykt af nammi.

Líkamstjáning er mikilvægari en skipanir í upphafi. Hundar nota hreyfingar og látbragð til að gefa hver öðrum skilaboð. Allir reyndir hundaþjálfarar hafa tamið sér að nota hreyfingu fyrir flestar skipanir sínar og ná miklu árangri þannig.Þá er í raun hreyfingin kennd og síðar tengd við skýr orð eða hljóð.

Hundurinn verður að tengja skipun við það sem hann er að gera t.d. segið „sitja“ um leið og hann sest. Hundar bregðast best við skýrum skipunum. Skipanirnar mega ekki vera of líkar „sitja“ og „liggja“ er betra en „sestu“ og „leggstu“. Notaðu einföld orð eins og „Frjáls“ þegar þú losar hundinn úr skipun.

Tímasetning skipana og að vita hvenær þú átt að segja „nei“ er mikilvæg. Þegar þú kennir hundinum og hann gerir rangt, segir þú „nei“ og leiðréttir hundinn þannig. Sé það ekki nóg má leiðrétta hann snöggt með því að grípa í hálskragann.

Hundar skilja líkamstjáningu vel og vita þegar þú missir einbeitingu eða þegar þér leiðist í þjálfun. Reyndu alltaf að halda athygli hundsins með því að vera árvakur á meðan á allri þjálfun stendur. Kenndu hundinum að bregðast við bæði skipun og hreyfingu.

Tvær skipanir er mikilvægt að kenna snemma. Innkall og stopp:

Ef þú heldur báðum höndum út eins og vængjum á meðan hundur hleypur til þín, kennirðu honum að það sé innkall. Þetta geturðu nýtt þér þegar hundur er úr kallfæri og þarf að kalla á hann.

Ef hundur kemur hlaupandi á móti þér geturðu bent handlegg til himins og gengið föstum skrefum a móti honum og hrópa skýrt “stopp”. Fljótlega mun hundurinn stoppa við þetta og þá geturðu hrósað honum. Eftir örfáar æfingar geturðu notað þetta til að stoppa hann á hlaupum t.d. svo hann hlaupi ekki fyrir bíl.

 

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.