Að ala upp hvolp

Margir líta svo á að þjálfun ætti að byrja snemma og aukast síðan rólega. Gott sé að setja sér markmið og halda sig við þau.

Ekki má þjálfa hvolpa lengi í einu. Betra er að leika við þá stutt í senn og þá oftar. Athygli hvolps er bundin við örskamma stund og greind hans þarf að þroskast.

Mikilvægt er að hafa í huga að fyrsta ár hvolpsins er hann barn í þroska. Börn læra ekki þegar þeim leiðist og því er nauðsynlegt að einblýna á gleði og ánægju í allri vinnu hvolpsins.

Heimilishundar mega hefja grunnþjálfun eftir síðara gelgjuskeið sér að meinalausu. Sumir reyndari þjálfarar vilja hefja þjálfun vinnuhunda strax við tíundu viku. Þessi regla á við mjög reynda þjálfara sem eru að stefna að mikilli sérhæfingu hunds við flókna vinnu.

Þó hvolpur skilji skipun fljótt gleymir hann þó hvað hann var að gera, jafnvel þó hann muni skipunina. Til dæmis ef honum er kennt að sófinn sé bannsvæði og hann hlýðir, hefur hann gleymt því tveim mínútum síðar. Endurtekning skiptir því miklu.

Nauðsynlegt er að vera sjálfum sér samkvæmur og viðhalda reglunum. Því þarf oft að endurtaka og ætíð nota blíðu við leiðréttingu. Hvolpar skilja ekki reiði og óþolinmæði enda ekki notuð af eldri hundum heldur nota þeir festu og yfirvegun í uppeldi hvolpa.

Misjafnt er hvað hvolpar eru lengi að læra. Þolinmæði er því fyrsta og síðasta regla við alla þjálfun, og að vera ætíð samkvæmur sjálfum sér.

Ég hef leyft hundahópnum – eða eldri hundum – að ala upp hvolpa á heimilinu. Í öllum tilfellum urðu þeir að sjálfsöruggum og viljasterkum hundum sem elska að vinna og hafa þroskað gáfur sínar vel. Einn hundur sem kom til mín stórskemmdur var settur beint í bataferli uppeldis hinna hundanna því hundar kunna að ala upp særða meðlimi hópsins.

Ég þurfti aðeins að grípa inn í með leiðréttingar og ytri mörkum til að beina þessum einstaklingum í réttan farveg. Þetta staðfestir hið sama og fyrr segir – þolinmæði, festa, traust og virðing er aðal hundaþjálfarans.

Hundar elska að þóknast foringja sínum og fólki. Þegar þeim mistekst er það sjaldan viljandi – því skilja þeir ekki óþolinmæðis reiði og fruntaskap. Einnig er nauðsynlegt að muna að hundar hafa kímnigáfu, þó hún sé ólík okkar.

Einn hundurinn minn þverneitar að sleppa hlut sem hann kemur með til mín. Mér fannst hann þvílíkt lengi að læra að hann átti að skila! Þegar ég loks skildi að Sheffer hundurinn minn er ekki tregur þverplanki heldur léttlyndur stríðnispúki gjörbreyttist þetta. Hann vildi leika við mig „um að ná af sér hlutnum“. Síðan leikum við okkur oft en ef ég set „í tóninn“ sleppir hann og skilur að ég vil ekki stríðnisleik.

Að bregðast rétt við

Aldrei skal beita hvolp ofbeldi – ekki undir neinum kringumstæðum. Yfirveguð afstaða, og endalaus þolinmæði við endurtekningar sýnir honum í samkvæmni hvers er ætlast til af honum. Fullorðnir hundar nota ekki ofbeldi við mótun hvolpa en þó með einni undantekningu. Þegar hvolpur kemur nýr í hópinn má búast við að miðaldra rakkar hristið þá til að sýna hver ræður – en það er yfirleitt bara rétt fyrst.

Gera þarf hvolpum grein fyrir hvað má og hvað ekki. Besta skipunin er ákveðið „Nei“ þegar hvolpurinn gerir það sem hann má ekki. Stundum þarf að leiðrétta með inngripi en aðferðin skal vera sú sem hundar sjálfir nota: Að taka þéttingsfast og ákveðið í hálskragann en sleppa sem fyrst.

Gott er að æfa þetta inngrip í rólegheitum með hvolpinum svo vel að þegar grípa þarf í hvolpinn – eða fullorðinn hund – sé það ekki gert með flumbruhætti og með reiðikrafti. Hafi höndin verið æfð í að þæfa hálskragann aftan og neðan við eyrun má nota þessa aðferð mjög hnitmiðað og hundinum að meinalausu.

Að leika við hvolpa er ávallt betra og skemmtilegra en vinna og stífni. Leikur er sú aðferð sem úlfar nota til að kenna ylfingum. Hvernig leikið er við hvolp hefur áhrif á hegðun hans síðar.  Því eru allir mótaðir þroskaleikir góðir svosem að fá hvolpinn til að finna dót, nammi, sækja bolta og sérstaklega reipitog.

Rétt er að minna á að reipitog þarf að nálgast varlega fyrsta ár hundsins. Ef manneskja kippir og togast á við hvolp notar hún mun meiri kraft en hvolpurinn. Slíkur kraftur getur losað tennur og jafnvel skemmt vígtennur. Því er betra að halda í reipið af svipuðum krafti og hvolpurinn. Aldrei skyldi rykkja í reipið.

Börn vilja oft fara í leiki við hvolpa en það skyldi ætíð vera undir eftirliti.

Kenna þarf börnum að umgangast hvolpa með virðingu. Hvolpar í hvolpahópum slást hiklaust með kjafti og tönnum þegar þeir fljúgast á. Þegar þeir fara í gegnum kynþroskann læra þeir að umgangast tennur og skolta af virðingu. Á þessu fyrsta ári vita hvolpar ekki að mannfólk hefur viðkvæma húð og þetta þarf að kenna blíðlega.

Þegar hvolpur fullorðnast vaknar hann til meðvitundar um eigin skolt. Hann getur þá  tekið upp egg án þess að brjóta og hann notar skoltinn eins og við notum hendurnar. Við getum bæði haldið á eggi og brotið það milli fingra.

Að hvolpur togist á við peysu og vettlinga er saklaust ef þeir skilja hvar mörkin eru. Af þessum sökum þarf fullorðinn að kenna bæði hvolpi og barni hvar mörkin eru og hvernig eigi að nálgast þau. Allir á heimili ættu því að kunna sömu skipanir og aðferðir. Annars getur hvolpurinn orðið ráðvilltur.

Þá er mikilvægt að allt heimilisfólk skilji hvað sé hvolpinum góð hegðun og hvaða reglur eigi að gilda um dýrið. Alltaf þegar skipun er gefin skal aðgæta tóninn og hvernig hvolpur bregst við tóntegund. Hið sama á við um alla líkamstjáningu því hún er hið náttúrulega tungumál hunda.

Þegar hvolpurinn er orðinn fjögurra mánaða eða eldri væri snjallt að fara á hlýðninámskeið. Við hjá Hundasport erum ekki með sérstök hvolpanámskeið. Reynsla okkar af helgar- og hlýðninámskeiðum er sú að hvolpar geta nýtt sér sömu námskeið. Þó þarf að fylgjast með þeim svo þeir þreytist ekki – því öll þjálfun á að vera leikur.

Hundurinn lærir af manninum þegar hann er samkvæmur sjálfum sér og þegar hann er meðvitaður um eðli hundatjáningar. Því er hlýðninámskeið meira ætlað fyrir manninn. Stundum geta einkatímar hjá reyndum þjálfurum hjálpað. Oft er spurt hvert sé best að fara á námskeið og er okkar svar „alls staðar!“

Hver eigandi mun velja þá aðferð og það viðhorf sem hentar honum persónulega og hann mun læra margt af hundinum sjálfum. Námskeið kennir í raun að nýta þetta tvennt sem best. Því er gott að fara á fleiri staði á námskeið eða í æfingahópa til að læra. Smám saman myndast samlegðaráhrif sem auðvelda fyrrgreinda slípun.

Hegðun

Besti tíminn til að leiðrétta ranga hegðun, er á andartakinu sem hún gerist. Til að ná því þarf að fylgjst vel með hegðun hvolps og því mikilvægt að fylgjast með hvolpinum öllum stundum.

Hvernig umgengstu hvolpinn dags daglega? Hvaða hegðunarmynstur skapar þú hjá honum? Hefurðu hitt aðra hundaeigendur til að fá hugmyndir og heilræði – eða til að sjá hvað þeir gera rangt?

Þeir sem lengst hafa náð í hundaþjálfun eru sífellt að fylgjast með hundum og þá sem áhorfendur frekar en þáttakendur og án fyrirfram mótaðra skoðana. Ég viðurkenni að mínar fyrstu hundavikur – fyrri mörgum árum – fannst mér þetta vera stór kvöð. Nú orðið gerist þetta sjálfkrafa og ég er sífellt meðvitaður um hvar besti vinur minn er, hvernig hann hreyfir sig, og hvernig hann bregst við umhverfi okkar.

Að lokum kemur hér smá æfing fyrir þig. Þegar hvolpur bítur fast í annan hvolp vælir hinn. Sú aðferð virkar líka vel hjá fólki. Almennt vilja hundar ekki meiða aðra og eru tillitssamir hvað þetta varðar. Prófaðu með hvaða hljóð segi þínum hvolpi að hann sé að meiða þig!

Umfram allt æfðu að segja ákveðið „Nei“ og horfa í augu hans á meðan. Að bæði maður og hundur kunni rétta notkun á Nei getur bjargað mörgu í framtíðinni.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.