Það koma þessar einstöku stundir á æfingum sem gera þetta allt saman, enn skemmtilegra, og er þó skemmtilegt fyrir.
Það er sérstök manngerð sem stundar svona þjálfun. Manngerð sem fílar að standa úti, í öllum veðrum, með öðru skrýtnu fólki, og horfa á hund finna týndan mann. Þegar leitarhundar fá þjálfun er aðeins einn hundur að vinna í senn, og allur hópurinn fylgist með hverjum hundi.
Fyrir flesta er þetta ekkert merkilegt: Það gerist næstum því hið sama á hverri einustu æfingu. Í veröld hundsins gerist eitthvað nýtt í hvert sinn. Hver einasti hundur tekur einhverjum framförum í hvert einasta sinn. Mannverur sjá oft ekki þessar framfarir en við sem mætum á hverja æfingu, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, sjáum þessar nanóframfarir. Einstöku sinnum sjáum við stórstígar framfarir hjá einstaklingi, og er þá mikil gleði í hópnum.
Sá sem þetta ritar lendir oft í því að sjá merkjaboð hjá hundi, sem gefa mikilvægar upplýsingar, og finnur um leið undrun áhorfenda. Áhorfendur eru oft byrjendur eða komnir skemra á veg, og sjá ekki litlu nanómerkin. Við sem höngum í öllum veðrum, við mikla ánægju, og lesum hund eftir hund, föttum oft ekki að við erum þjálfuð í að sjá þessi nanómerki.
Ég hef stundum spurt sjálfan mig, þegar við – ég og hundarnir mínir – tygjum okkur á æfingu; Hvers vegna? Er þetta ekki ruglað sport? Svo hristi ég það af mér, ég get ekki hugsað mér að missa af æfingu. Auðvitað kemur fyrir að æfing fellur niður. Án undantekninga eru hundar mínir daufari vikuna á eftir. Þeir eru alltaf kátari fyrstu daga eftir æfingar en fyrir. Það eitt er nóg fyrir mig.
Nýlega var aukaæfing að kvöldi. Hópurinn hittist í iðnaðarhverfi og æfði Hverfaleit og Spor. Rigning var og suddi. Eins og venjulega var fígúrant falinn fyrir okkur Ljúf án þess að við vissum hvar hann væri. Við erum löngu hættir að spá í slíkt. Við viljum bara vita í hvaða svæði við eigum að leita, Ljúfur sér um rest. Svo var þetta kvöld.
Svæðið var frekar stórt og við notuðum Flexi-taum eins og venjulega í Hverfaleit. Slík leit, í iðnaðarhverfi, er um margt skyld rústaleit og er holl þjálfun. Þegar hundurinn finnur fígúrantinn, eða fnykinn af honum, dregur hann foringja sinn þangað.
Oft spyrja byrjendur í slíkri leit, “hvernig þekki ég muninn þegar hundurinn finnur eða vill bara fara eitthvað”. Venjulega svarar leiðbeinandinn litlu, því hundurinn svarar þessu sjálfur í fyrstu leit: Hundurinn bókstaflega dregur þig á staðinn, í því felst munurinn.
Þetta einstaka kvöld, í rigningu og sudda, vorum við Ljúfur búnir að kemba hálft svæðið þegar hann hverfur inn í myrkur á milli tveggja skúra, smýgur þar undir einhverja risastóra stálpramma og kemur ekki aftur. Flexið strekkt, algjört myrkur hjá mér, eftir smástund kemur hann svo aftur. Stendur hjá mér, horfir á mig stórum augum og gefur mér öflugt gelt. Svo smýgur hann til baka. Ekki var nokkur leið fyrir mig að komast á eftir honum. Í síðara sinnið sem hann hverfur tekur hann sér stöðu hjá týnda manninum og gelti ákaft á meðan ég prílaði yfir.
Markering hundsins var ekki bara fullkomin, heldur frábær. Þvílík stund þarna í brjáluðu veðrinu! Ekki bara að ég hafði enga hugmynd um hvar maðurinn var falinn, og hefði ekki séð hann. Ekki bara að hundurinn fann manninn. Heldur að hundurinn krafðist þess af mér, og fylgdi því eftir, að ég kæmi til týnda mannsins.
Þessi stund er enn umtöluð meðal þeirra sem voru á svæðinu. Það þýðir ekkert að útskýra svona fyrir þeim sem ekki hafa æft leitarhund – maður þarf að reyna þetta.