Hundanudd

Hvers vegna hundanudd?

Það eru margar ástæður fyrir því að við vildum taka fyrstu skrefin í hundanuddi.

Íþróttafólk þekkir vel það álag sem það er á sinar og vöðva að taka á sprett án upphitunar. Alls kyns kvillar geta komið upp í líkama sem reynir mikið á sig. Nudd er almennt séð best heppnaða aðferðin til að bæði laga kvilla sem koma upp hjá íþróttafólki og sem fyrirbyggjandi aðgerðir.

Við teljum að eini munurinn á æfingahundum og íþróttamönnum sé sá að hundar geta ekki sagt “mér er illt”!

Á æfingum forðumst við að leyfa hundum að æfa án upphitunar. Ævinlega er byrjað á hópgöngu manna og hunda þar sem hundar fá að hlaupa og liðka sig og kynnast hver öðrum. Einnig veitir þetta bæði hundum og mönnum tækifæri til að vinna með hunda við flóknar félagsaðstæður, auk þess að hita hundinn upp og losa um spennu.

Hundur sem fær vikulegt nudd hjá eiganda sínum er yfirleitt rólegri, afslappaðri og yfirvegaðri, auk þess sem slíkur eigandi þekkkir hund sinn betur og tekur betur tillit til hans við þær aðstæður sem hann er settur í.

Sá sem þetta ritar og fjóra hunda og þjálfar þrjá þeirra reglulega. Reynslan af nuddi er mjög góð hjá þessum hundum og fá þeir oft upphitunarnudd áður en farið er á æfingu.

Síðan nuddið kom til sögunnar er feldur hundanna meira glansandi og mýkri en áður. Auk þess er greinileg breyting í hreyfingum eldri hundanna tveggja. Annar eldri hundurinn hefur satt að segja gjörbreyst til hins betra – feldur, lundarfar og hreyfingar – síðan nudd komi til sögunnar, svo líklega hefur hann haft vöðvabólgu eða spennu í skrokknum góðan part vetrarins.

Námskeið

Kvöldið 12. maí hittist æfingahópurinn með alla hundana. Tilefnið var að fá grunntilsögn í hundanuddi. Við höfum leitað á landinu að lærðum hundanuddara án árangurs.

Lendingin var að við fengum Catrinu hjá hestanudd.net til að veita okkur tilsögn. Það er margt líkt með vöðva uppbyggingu hesta og hunda. Báðar tegundirnar geta slakað á tímunum saman og rokið á hlaupasprett á sekúndunni. Báðar dýrategundir eru með svipaða beina og vöðvabyggingu, álagspunkta á svipuðum stöðum og margt líkt í húðinni.

Catrin lærði hestanudd í Svíþjóð í skóla sem einnig kennir hundanudd. Hún hefur umtalsverða reynslu af að nudda hunda. Bæði í félagi við kunningja sinn sem hefur lært hundanudd og einnig hjálpaði hún hundi sem varð fyrir hryggjarskaða til að ganga á ný með notkun nuddtækninnar.

Einn leiðbeinenda okkar hefur áður setið fyrirlestur og sýnikennslu um hundanudd hjá norskum hundanuddara sem var á ferð hérlendis vorið 2010.

Námskeiðið var vel heppnað og var almenn ánægja meðal hundanna við þá meðhöndlun sem þeir kynntust.

 

This entry was posted in Hundaþjálfun. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.