Samræður við hund er í báðar áttir

Margur missir af því hvað það er að eiga samfélag við hunda því þeir eiga hunda. Flestir hundar liggja rólegir á uppáhalds fletjum sínum, eru teknir út að gera þarfir sínar þrisvar til fimm sinnum á dag, fá útivist vikulega og fá að vera vinalegir við gesti.

Hundar sem æfa vinnu af því tagi sem við ástundum eignast allt aðra sýn á daglega tilveru. Þeir læra að fara með eiganda sínum í hóp þar sem er annað fólk og fá stundum að hitta hundana þeirra. Þeir eignast líka samfélag, breytast úr því að vera eign og verða félagar.

Leitarhundur sem er í vinnu, jafnvel þó svæðið sé lítið, er að nota eigin hæfileika til að finna mannveru sem er í felum. Þetta þarf hundurinn að gera án þess að vera stjórnað, hann þarf að virkja eigið sjálfstæði og frumkvæði.

Þegar hann hefur fundið leynimannveruna þarf hann að finna mannveruna sem er félagi hans í leitinni og láta vita að mannvera sé fundin. Aftur þarf hundurinn að nota eigið hyggjuvit til að koma skilaboðum sínum til skila með árangri.

Því næst þarf hundurinn að halda fókus þar til hann hefur sýnt félaga sínum hvar leynimannveran er falin. Allan þennan tíma getur ýmislegt gerst.

Stundum er annað fólk í svæðinu og hundurinn þarf að fatta að þetta sé ekki fólkið sem hann leitar. Hann gæti rekist á fugl á hreiðri, sem gæti fangað athygli hans frekar en leitin. Hann gæti þurft að kúka og gleymt eftir það að hann sé að leita.

Allt þetta virkjar greind hundsins og sýn á lífið en það virkjar einnig sýn eiganda hans – eða foringja hans eða félaga hans – á það tungumál og persónu sem dýrinu er eiginlegt. ´

Til að mynda þó við lesum um táknmál hunda þá eru þau ekki algild og læra þarf að lesa og skilja hvernig hundurinn hugsar út frá því að fylgjast vel með og af vissu næmi. Allt þetta þjálfar bæði mann og hund og smám saman vaknar samfélag milli þeirra.

Salka er þjálfuð í sporaleit og víðavangsleit. Rétt áðan settist hún við hlið stóls þar sem ég sat við tölvuna. Þegar hún sá að ég veitti henni enga athygli ýtti hún með nefinu í lærið á mér, svo ég leit á hana. Þá dillaði hún skottinu smávegis og hélt augnasambandi.

Greinilega vildi hún tjá eitthvað. Ég skeytti því engu og mínútu síðar ágerðist þetta hjá henni. Tveim mínútum síðar sat hún þarna enn. Svo mér datt í hug, þó við séum nýlega búin að vera úti og hún gerði bæði A og B, að kannski væri henni aftur mál.

Ég stend upp og stend kyrr og horfi í augu hennar, með lófana aðeins útrétta en hún veit af reynslu að þá er ég að bjóða henni að sýna mér hvað hún vill. Átti ég von á að hún myndi benda mér með trýninu í átt til útidyra og færa aðeins framhluta sinn í þá átt. Nei.

Hún fór í aðra átt, til herbergis þar sem er búr og matardallur. Ég elti hundinn og hún fer að matardallinum – sem var fullur – og stillti sér þar upp. Stóð ég um stund og horfði á dallinn, síðan á matarstampinn sem er þar bak við, og sé ekkert sem hana vantar.

Ekkert matarnammi var þarna nærri, ekkert nagbein var þarna nærri. Hún var nýbúin að borða, nýbúin að vera úti, þarna var ekkert. Nema bak við matarstampinn er bókahilla.

Fyrir þrem dögum síðan tók ég gúmmíleikfang af gólfinu sem Salka er hrifin af. Ég gerði þetta vegna þess að Sunna vildi ná því af henni og þær eru ekki alltaf sáttar. Ég hafði tekið litla rauða gúmmídótið og sett það á stað í hillunni þar sem ekki sést í það.

Hundarnir höfðu ekki séð mig fela dótið og hef ég lært það af reynslu að ef ég ætla að fela dót að gera það svo ekki sé tekið eftir. Auk þess var þetta svo hátt uppi að einungis fullvaxin mannvera næði þarna upp.

Dótið sést ekki en greinilegt var að hundurinn hafði stillt sér þannig upp að beina línu mátti draga frá nefinu og í áttina þar sem dótið lá. Ég teygði mig upp í áttina að dótinu og tíkin tók viðbragð. Svo ég tók dótið niður og rétti henni. Hún dillaði skottinu, greip dótið, og liggur nú á mjúkri dýnu með fjársjóðinn við hliðina á trýninu.

Stundum eru það litlu hlutirnir sem gera stóru hlutina. Rétt í lok þess að ég hripaði saman þessi orð rifjaðist upp fyrir mér að þetta tiltekna dót hefur lengi verið til og á sér sögu sem ég ritaði um í annarri færslu ekki alls fyrir löngu.

 

 

This entry was posted in Greinar and tagged , . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.