Fallegt sakleysi

Stundum koma þessar litlu stundir í lífi með hundi. Stundir sem minna á að hundur á innra líf, rétt eins og við mannfólkið. Hver hefur ekki horft á hund dreyma? Þetta er ein ástæða þess að við getum þjálfað hunda, því við vitum að þeir hugsa um það sem þeir læra. Annars myndu þeir ekki lærdóminn.

Ljúfur er öldungurinn í hópnum og þekktur að sérvisku. Ég hef það eftir honum en ekki öfugt. Eitt einkenna sérvisku hans er að hann fussar við nagbeinum. Því miður veit hann ekki að þá fær hann tannstein og viðkvæmara tannhold. Í heildina hefur hann misst fimm tennur vegna þessa, en honum er sama, hann vill ekki hvaða nagbein sem er.

Reyndar er hægt að plata hann smávegis til að naga. Stundum virkar að hafa hann einan lausann og tíkurnar í búri. Þá tekur hann stundum beinið en aðeins þegar hann er tilbúinn og getur það tekið hálfan daginn.

Betur virkar að hafa eitt aukabein og gefa öllum eitt. Þá ræna tíkurnar hver sínu beini – en hann hefur komið þeim upp á frekju því hann er mjög eftirlátur við skvísurnar sínar – og eitt bein er á lausu. Þá laumast Ljúfur á milli tíkanna og situr um að ræna beini sem byrjað er á. Væri hann mennskur töffari myndu stelpur glotta og kalla hann „útséðan.“

Í dag reyndum við fyrrgreindu aðferðina, að setja uppáhalds beinið hans (jógúrtbein) á gólfið, og tíkurnar í búrin. Leit hann ekki við því!

Að fenginni reynslu læt ég eins og ég viti ekki af þessu beini og líður nú smástund. Laumast hann þá að beininu svo lítið bar á og tekur það í munninn. Nú líður góð stund þar sem hann ranglar um heimilið með beinið í kjaftinum. Hér og þar ber hann niður og reynir að fela beinið undir sessu, púða, bak við stól og svo framvegis.

Að lokum finnur hann felustað við hæfi og vandaðr sig lengi við að fela beinið eins og aðstæður leyfa. Nú þegar þessi grein er skrifuð liggur hann makindalega í sjónlínu frá felustaðnum og leyfir deginum að líða.

Hvað hann er að hugsa? Hann á sitt innra líf.

 

This entry was posted in Fréttir og molar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.