Hin dökka hlið hundaþjálfunar

Til eru mismunandi stefnur í hundaþjálfun og eru þær allar réttar.

Hver einasti hundaþjálfari, sem ástundar þjálfunar stefnu, veit með vissu að allar hinar eru rangar. Svo er einnig um hina þjálfarana. Eins og alkunna er þá er samfélag okkar lítið og nú er ein stefna í tísku og hinar í felum á meðan, því landið er svo lítið. Gott og blessað, þannig er bara landið okkar. Að sjálfsögðu vita allir hundaþjálfarar að allir aðrir þjálfarar eru bölvaðir asnar, þannig á það líka að vera.

Hvað sem öllum þjálfunarstefnum líður þá er hornsteinn þeirra allra byggður á einu og aðeins einu: Samskipti milli manns og hunds. Maðurinn kennir hundi sínum að skilja samskipti frá sér og lærir samskipti frá hundinum. Samskipti eru málið, og sýnist sitt hverjum.

Hvað sem öllum stefnum, tískum og skoðunum líður, þá er mjög gaman þegar hundur og maður læra að gera kúnstir saman. Sérstaklega ef þeir sýna öðrum hvað þeir kunna. Þó er myrk hlið á þjálfun sem hvergi er varað við, samanber eftirfarandi.

Taka skal fram – því bölvaðir asnar gætu lesið þetta – að greinin er skrifuð í gríni – hinir eru búnir að fatta það.

Eftir því sem samskipti á milli mín og hunda minna slípast – já því ég slípast í að skilja þau eins og þau mig – skiljum við hvert annað betur. Eins og einn félagi orðaði vel, “mér finnst stundum ég ekki vera að kenna hundinum heldur draga fram það sem er þarna inni”. Þetta getur haft afleiðingar:

1. Þegar hundakallinn fer að sofa  kemur Ljúfur og gefur skýr skilaboð um að hann langar að kúra til fóta. Fái hann það ekki, sefur hann á dýnu við fótagaflinn. Meðan ég sofna heyrist reglulega óánægjustuna ætluð til að minna mig á að dýnan sé ekki nógu góð, rúmið mitt sé betra.

Á sama tíma situr Salka úti á miðju gólfi og starir á kallinn, með hálfupprétt eyrun í stellingu sem segja: “Sjáðu hvað ég er sæt og væri góð í að kúra hjá þér.” Rétt í þann mund að hundakallinn festir svefn, hrekkur hann upp: Salka stendur við öxlina á honum, dillar rófunni gleðilega eins og þyrilskrúfa, mænir beint í augun hans. Um leið og hún sér að hann opnar augun bendir hún með nefinu á leikfangið sem hún lagði við hálsinn hans. Eins og hún segi “sjáðu fallega boltann, þig dreymir betur ef þú kastar honum nokkrum sinnum!”

Um leið og hann fær frið frá Sölku og Ljúf, laumast Birta ofur blíðlega – já brussan sú arna á til blíðu – upp í rúmið. Hún er ekki enn orðin svo fullorðin að vita hvað hundakalli finnst vont þegar 25 kílóa Sheffer hvolpur traðkar á maganum hans. Áður en hann nær að reka hana frammúr, hlammar hún sér við hlið hans, rekur sakleysislegt trýnið upp að kjammanum á honum. Ef hann álpast til að líta á hana blasa við risastórar brúnar sakleysis undirskálar þar sem augun hennar eru, fullar af ást og hlýju: Á ég að kúra hér og hlýja þér meðan þú sefur?

2. Kallinn tók kjöt út úr frystinum og það er að þiðna í ísskápnum – sosum ekki í frásögur færandi. Nú er það svo að hann á fjóra hunda. Ég veit, þeir eru full fáir, en það má vona. Hver einasti hundur á þrjá uppáhalds staði til að liggja á. Þegar kallinn er í tölvunni eða glápir á imbann, veit hann varla hvar hundarnir eru, þeir kúra bara á sínum stöðum og oft í öðrum herbergjum. En ekki þegar kjöt þiðnar í ísskápnum!

Allir hundarnir liggja þá í sama herbergi og hundakallinn, ekki nóg með það. Ef hann lítur út undan sér á hundana virðast augu þeirra lokuð. Teygi hann sig eftir kaffibolla, og gjóar augum á hunda um leið, sér hann glytta í glyrnur á öllum fjórum hundum. Fylgst er grannt með hverri hreyfingu, ef ske kynni að hann væri á leið í ísskápinn. Standi hann upp að sækja kaffi í eldhúsið, verður hann að opna ísskápinn mjög hljóðlega til að sækja mjólk. Hundar hafa mjög næma heyrn og enn næmari þegar ísskápur er opnaður. Nái hann ekki að gera þetta laumulega, gægist hljóðlátt trýni inn á milli stafs og hurðar og bendir vingjarnlega á skálina með kjötinu.

Því hundurinn er bara að nota sitt næma nef og láta kallinn vita að þarna sé kjöt – handa honum sko!

3. Nú líður að því að sjóða kjötið! Yngri hundarnir liggja í hæfilegri fjarlægð, allan tímann sem kjötið er á hellunni. Eldri hundarnir eru nær kallinum. Það rymur í þeim, þeir liggja við fætur hans, þeir snúa bakinu í hann, þeir teppaleggja eldhúsgólfið. Allt til að láta kallinn vita að það er kjöt á hellunni. Hann má að sjálfsögðu fá fyrsta bitann!

4. Útivist? Sko! Kallinn fer daglega með hundana sína út fyrir bæinn og sleppir þeim lausum í gönguferðir, hlaup og leiki. Einu sinni gerði hann tilraun á þeim og fór bara vikulega. Smám saman höfðu hundar hans breyst í letihunda voru sáttir og vikuleg útivist var bónus. Að fara daglega myndi líklega gera hundana glaðari og skemmtilegri?

Ónei. Vei þeim hundakalli sem sleppir úr einum degi af daglegri skyldu: Það er nuddast í honum í tíma og ótíma, yngri hundarnir slást “bara hjá honum og oft“, eldri hundarnir sleppa honum ekki úr augsýn, það rymur í þeim öllum og þau bylta sér. Eirðarleysi nei. Skilaboð já.

5. “Hverfið mitt!” Ljúfur er rakki og hann á hverfið, þegar aðrir rakkar eru annars vegar. Hann er mjög ákveðinn í því að merkja skal göturnar og það daglega. Hvernig veit hundakallinn þetta? Jú hann fer stöku sinnum með hunda í útivist á morgnana, aftur um miðjan daginn og aftur um kvöldmatarleytið – þegar þannig stendur á að hann geti leyft sér.

Tíkurnar eru hæstánægðar með þetta og þurfa þá ekki labbitúra, þeim dugar að skvetta smá í garðinn í tvö viðbótarskipti, og þær láta vita ef þarf. Ljúfur er lítið fyrir slíkt kæruleysi. Þessa daga sem farið er í margar útivistir og tíkur bleyta garðinn, rymur í honum af óánægju, hann krafsar í útihurðina, hann kemur reglulega og nuddast í kallinum (bókstaflega) og þegar farið er út teygir hann dálítið á taumnum og bendir með trýninu eftir götunni: Hér þarf að merkja hverfið hundakall og ekki seinna en í kvöld!

Að lokum

Freistandi er að halda áfram að telja upp samskipti af ýmsu tagi því af nógu er að taka en þessi fimm atriði duga.

Að vera hundakall er voða gaman, mikið af knúsi, skemmtileg útivist, heilnæmur félagsskapur, og mikil gleði. En stundum væri kannski þægilegra líf fyrir kallinn ef hann og hundarnir hans hefðu ekki lært að skilja hvert annað svo vel, því hundarnir lærðu snemma að hann skilur nöldrið í þeim …

Svo nei, hundaþjálfun snýst ekki um stjórnfýsi nema af hálfu hundanna!

 

This entry was posted in Greinar and tagged . Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.