Venja við búr

Þegar hvolpur er vaninn við búr þarf að hafa í huga að “hundum líður vel í búrum”. Vellíðan þeirra kemur af því að þeir “liggja í eigin bæli” og “þeir vita að þú kemur aftur”.

Hundur sem venst búri er öruggari, honum líður vel, eigandinn veit líka að ekkert skemmist á heimilinu (eða í bílnum) á meðan.

Til langs tíma litið, þá tekst alltaf að venja hund við búr. Um leið og hundur hættir að “hrópa og kalla á þig” þá fer hann að slaka á í búrinu og geta sofið þar rólegur. Fljótlega eftir að hundur eða hvolpur fer að nota búrið, kemst hann að því að foringi sinn kemur alltaf aftur, eða einhver, og hleypir honum út.

Margir hundar verða svo hrifnir af búri sínu að þeir sofa þar líka þegar eigendur eru heima.

Fara í búrið

Ég nota ávallt þessa aðferð við að kenna hvolpi orðið “búr” og að fara inn í það. Ég sest hjá búrinu með nammi, gef hvolpinum fáeina mola og fer því næst að setja molana inn fyrir gættina.

Ég gef mér góðan tíma, sit þarna og gæli við hvolpinn á milli þess sem ég gef honum nammi. Smám saman hendi ég molunum lengra inn í búrið. Ávallt gæti ég þess að láta molana liggja ef hvolpurinn sækir þá ekki.

Í hvert sinn sem hvolpurinn fer inn í búrið segi ég blíðlega “búr” eða “búrið”.

Að vera í búrinu

Fyrstu skiptin sem hvolpur á að bíða í búrinu byrja ég sama “leik”. Síðan tek ég að halla aftur hurðinni þegar hvolpurinn fer í það. Að því kemur að ég loka búrinu, geng því næst aftur fyrir – án þess að nema staðar – og opna aftur.

Smám saman venst hvolpurinn því að búrið er skemmtilegt og tengist nammi. Þegar ég er tilbúinn skil ég hvolpinn eftir í svosem 10 mínútur.  Yfirleitt hafa mínir hundar vanist búrinu á tveim til þrem dögum, sé þetta gert daglega í þrjá daga.

Í bílnum

Ég set hvolpa ávallt í búr í bílnum, án undantekninga. Þú veist aldrei hvenær eitthvað er nagað í bílnum eða hvar kemur piss eða gubba.

Þegar hvolpur fer fyrst í búrið í bílnum má búast við gjammi og ýlfri. Hann fattar mjög fljótt að þú ert með í bílnum og gleymir gjamminu. Ég hef aldrei verið í vandræðum með hvolp hvað þetta snertir.

Venjur

Ég opna aldri búr á meðan hvolpur ýlfrar, gjammar eða krafsar í búrið. Það gerist nær alltaf með hvolpa að þeir gjamma eða krafsa þegar þú ferð frá þeim í búrinu.

Þegar ég kem aftur að búri og hvolpur gjammar eða krafsar bíð ég eftir sekúndunni sem hann hættir og opna. Stundum þarf að bíða dálitla stund og getur það tekið á taugarnar. Þegar svo ber við er gott að muna að gjammið og krafsið er ekki sársakafullt né skaðlegt, bara óþægilegt fyrir okkar eyru.

Þegar hvolpar gjamma og ýlfra – ef ég er viss um að frekja ræður för – loka ég alltaf eyrunum. Smám saman fattar hvolpurinn að hann stjórnar þér ekki með röddinni. Ég hef tekið við hvolpum frá heimilum þar sem þeir komust upp með gjamm og voru jafnvel til vandræða. Með þessari aðferð hefur gjammið alltaf horfið innan mánaðar.

Fyrstu skiptin sem þú skilur hvolp eftir í búri og ferð að heiman máttu búast við að hann gjammi lengi. Sumir hvolpar hafa gjammað allt að fjóra tíma, en það er sjaldgæft. Nærri alltaf þegar þú kemur aftur byrjar gjammið áður en þú opnar. Þegar svona er, bíð ég átekta við búrið og opna á sekúndunni sem gjamminu lýkur.

Erfiði hvolpurinn

Einn hvolp hef ég átt sem var sérstakur. Hann hafði fengið mikið nammi og kjass í gotinu sínu, í hvert sinn sem hann gjammaði. Þegar ég fékk hann var hann því mjög gjammsækinn og þar að auki viljasterkur persónuleiki.

Smámsaman minnkaði gjammið eftir að hvolpurinn kom. Hann var greindur og var mjög snöggur að sætta sig við búrið, sérsaklega í bílnum. Engin vandamál þar.

Enginn vandi var að kenna hvolpinum að fara í búrið svo ég var bjartsýnn. Þegar hvolpurinn var 11 vikna þurfti að skilja hann eftir – með heimilishundunum – yfir nótt. Ég ræddi við nágrannann sem fylgdist með.

Morguninn eftir fékk ég þær fréttir að hvolpurinn hefði gjammað þó nokkuð fyrsta klukkutímann og svo tekið rokur næstu tvo tímana. Að sjálfsögðu hófst gjammið þegar ég kom heim en við því var að búast. Þegar ég stóð við búrið þurfti ég hámark að bíða í 5 mínútur eftir þagnar-sekúndunni. Allt virtist ganga vel.

Vandinn var skapið ef hann var settur í búr og skilinn eftir. Sem fyrr segir var hvolpurinn frekar viljasterkur. Þegar hann var 12 vikna þurfti ég að setja hvolpinn í búr í hálfan dag en vera þó heima við. Þvílíkt gjamm! Þvílíkt úthald!

Þegar hvolpurinn hafði gjammað viðstöðulaust í allt að klukkutíma gafst ég upp. Ég var við búrið og ef hann gjammaði, opnaði ég snöggt, tók í þéttingsfast í hnakkadrambið (eins og tíkin gerir) og hvæsti eða urraði.

Eftir þrjú til fjögur slík tilfelli minnkaði gjammið og varð að kjökri. Í hvert sinn sem þetta gerðist fékk hvolpurinn hól og nammi. Ef hann þagnaði alveg tók ég hann út og gældi við hann.

Því næst stóð ég upp og endurtók leikinn en í hvert sinn tveim skrefum lengra frá búrinu. Smám saman skildi hvolpurinn að ég ætlaði ekki að leyfa honum að ráða og fór að lúlla sér. Ég settist í næsta herbergi að skrifa en stóð upp á tíu til tuttugu mínútna fresti og gaf hvolpinum hól og nammi.

Í heila tvo tímana var hvolpurinn rólegur í búrinu og var að lokum hleypt út.

Daginn eftir prófaði ég að setja hvolpinn í búr í næsta herbergi. Við fyrsta gjamm hvæsti ég, hvolpurinn þagnaði, ég fór fram, kom svo eftir tíu mínútur með hól og nammi. Næstu vikuna gerði ég þetta annan hvern dag. Björninn var unninn og hvolpurinn var sáttur við búrið upp frá því.

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.