Móðursýkin

Eitt

Einu sinni kom tík til mín í pössun yfir langa helgi. Eigandinn vildi komast með konu sinni í helgarferð. Börnin voru hjá ömmu og afa en tíkin kom til mín. Hún var þá átján mánaða. Ég átti bara einn hund það árið og var það tæplega ársgömul tík.

Frá því gesturinn kom inn fyrir dyrnar og þar til hún fór fjórum dögum síðar var stöðugur leikur í gangi. Þær flugust á, þær fóru í eltingaleik, þær rifust um leikföng, þær sömdu um virðingarröð við matardallinn. Ærslin fóru fram í hverju herbergi frá morgni til kvölds, en á nóttinni sváfu þær hlið við hlið við rúmstokkinn minn. (Jæja, kannski fengu þær að kúra uppí). Í útivist voru ærslin og eltingaleikirnir miklu öflugri.

Þetta var allt í góðu en það var mikið urrað og sást mikið í tennur. Stundum var gelt. Vinátta tíkanna var einlæg og hlý. Aldrei meiddu þær hvor aðra og aldrei var nein hætta á ferðum. Þegar eigandinn kom að sækja tíkina sína kom frúin með. Aðstæður mínar voru þannig að utan við heimilið var port þar sem hægt var að hafa hundana lausa. Við fórum þrjú saman út í portið með hundana og spjölluðum í smástund.

Sem von var þá upphófust leikar hjá vinkonunum og voru ærslin sem fyrr. Allan tímann var frúin á nálum: Hún hrópaði upp í hvert sinn sem heyrðist í urr eða sást í tennur. Hún kallaði á hundinn sinn í hvert sinn sem henni varð um sel og átti hún gríðarlega erfitt með að horfa á leikinn. Hún var sannfærð um að þær væru að slást í vondu og önnur myndi skaða hina. Engu tauti var við konuna komandi.

Tvö

Einhverju sinni var æfingahópurinn í upphitun. Hún fer þannig fram að áður en æfingar hefjast fer hópurinn í stutta göngu með alla hundana svo þeir geti hlaupið um og teygt á sér. Þetta er bæði gert til að tappa spennu af dýrunum, hita upp vöðvana þeirra og æfa þau í félagsvitund. Hundarnir elska þetta og við líka.

Þennan dag fór æfing fram á svæði þar sem fólk er stundum í útivist. Við reynum að stilla því í hóf en æfingahundarnir þurfa að venjast mismunandi aðstæðum. Nú vill svo til að í veg fyrir okkur gengur kona í útivist nema hún er með ungan Labrador rakka.

Sem venja er í hundahópum hleypur einn rakkinn í okkar hóp til unga hundsins og grípur í hálskragann á honum. Venjulega er þetta gert til að láta vita hver ræður í hópnum og koma nýkomna hundinum á réttann sess. Nú var ungi Labrador hundurinn óvanur þessu og vældi pínkupons og tvær tíkur í hópnum hlupu til. Það er líka venja þegar tveir hundar takast á – séu það ekki í leik – að einn til tveir hundar reyna að skakka leikinn.

Mannfólki bregður alltaf í brún þegar þetta gerist. Okkur sem erum vön finnst þetta líka óþægilegt, en við höfum lært að bera virðingu fyrir þessu. Ef hundar virkilega ætla að meiða hvorn annan þá gerist það hraðar en við ráðum við. Að sjá einn rakka setja annan á sinn stall og tvo aðra reyna að stöðva hann, það virkar alltaf mjög harkalegt. En það er ekkert sem við getum gert í því annað en horft á og beðið eftir að það lagist.

Ég hef séð svo mörg svona tilfelli að ég get ekki einu sinni talið þau upp. Aldrei hef ég séð rakka skaða annan rakka hinum til óbóta. Þó hef ég séð hund meiða sig í átökum en í öllum tilfellum hefur það verið óhapp vegna aðstæðna.

Eins og allir vanir hundamenn vita þá tekur maður aldrei þátt í æsingi hjá hundum. Þegar hundur gjammar eða ærslast þá eykst það bara ef maður skiptir sér af. Vissulega eru til aðferðir til að skakka leikinn en þær eru eingöngu notaðar í neyð.

Í þessu tilfelli rauk konan upp á sitt háa. Hún öskraði af öllum lífs og sálar kröftum, sannfærð um að átökin væru af illum toga. Hún reyndi að sparka í aðkomu hundinn, algjörlega blind fyrir því að hún æsti hundana bara meira upp. Sérstaklega sinn eigin.

Ekki nóg með það heldur reyndi hún að hundskamma æfingahópinn fyrir “að reyna að láta myrða hundinn sinn” og tók engum ábendingum. Þegar forysturakkinn hljóp síðar að unghundinum aftur – eins og venja er til að staðfesta lexíuna – ætlaði hún að ganga af göflunum og ráðast á hundinn.

Forysturakkinn í þessu tilfelli er þekktur í stórum hópi manna og hunda fyrir blíðlyndi og umhyggjusemi gagnvart mönnum og dýrum.

Þrjú

Einu sinni vorum við að ljúka æfingu að sumri til og var veður mjög gott. Við vorum þrír í hópnum og vorum að taka einn hund í smá auka hundakúnstir. Var þetta á tímabili sem verið var að styrkja hann í ákveðnu atferli. Þetta er Sheffer hundur með mikla reynslu af æfingum og er þekktur fyrir yfirvegun og blíðlyndi.

Inn á svæðið kemur miðaldra par í útivist. Eru þau með millistóran hund með sér – blending af Beagle og Cocker – sem hljóp með þeim áhyggjulaus. Sheffer rakkinn hleypur til hans, þefar af honum, og aftur til okkar sem fylgdumst áhyggjulausir með.

Við vissum af reynslu að þetta eru hættulausar aðstæður. Ef til átaka kæmi myndi smærri hundurinn hlaupa undan ef hægt væri, leggjast á bakið ef hann þyrfti að sýna undirgefni, eða bara rífast smá (með urri, tönnum og gjammi) og þeir jafna sig á innan við mínútu.

Ekkert gerðist á milli hundanna og þegar rakkinn okkar kom aftur í til okkar héldum við áfram að kenna honum (leika við hann).

Tuttugu mínútum síðar var parið á leið aftur framhjá æfingasvæðinu, búin að ganga sína gönguferð. Þegar þau koma í augsýn við okkur en eru enn í u.þ.b. tvö hundruð metra fjarlægð byrja þau að hrópa og kalla á hundinn sinn sem þó hlýðir þeim engu. Atferlið sagði okkur strax að hundurinn fær ekki eðlilegt hundauppeldi. Hundur sem fær grunnhlýðni gegnir ávallt innkalli og treystir eiganda sínum. Þessi hundur trúði greinilega að hann væri foringi parsins.

Eftir þó nokkur innköll – hróp öllu heldur – kemur hundurinn til konunnar og er þrifinn upp. Hún hélt honum við barm sér og var greinilega dauðhrædd við Sheffer hundinn. Annað merki um að hún vissi lítið um hunda – Sheffer hundar eru eitt af þrem blíðustu hundategundunum. Síðan gengu þau rösklega framhjá æfingasvæðinu. Um það leyti sem þau hverfa úr kallfæri stendur einn okkar það nærri þeim að hann heyrir orðaskipti þeirra. Það ætti að banna svona mannætuhunda heyrist konan segja við manninn sinn.

Frá því þau komu inn á svæði í fyrra sinnið og þar til þau fóru í síðara sinnið, gerðist ekki eitt atvik sem gæfi til kynna að Sheffer hundurinn myndi gera neitt af sér, þvert á móti. Auðvelt er að ýminda sér – af viðbrögðum þeirra og orðaskiptum að dæma – hvernig þeirra lýsing á atvikinu er.

Fjögur

Hægt væri að skrifa heila bók um viðbrögð fólks við hundum. Þessi þrjú dæmi eru tekin fram hér sem einföld dæmi og upprifjun. Af nógu er að taka um öll þau dæmi um hundavandamál þar sem manneskjan er vandamálið og hundurinn misskilinn.

 

 

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.