Hundaofbeldi

Við erum líklega öll sammála um að rangt sé að beita hunda og önnur dýr ofbeldi. Það er ljótt að sjá manneskju misþyrma besta vini sínum, í tilgangslausu reiðikasti. Það er líka ljótt að breiða út lýgi um aðra, að segja að hinn eða þessi berji dýrin sín sé það ósatt.

Hundar geta ekki sagt ósatt en fólk kann það. Hundar sýna ávallt á atferli sínu ef þeir eru beittir ofbeldi heima fyrir. Það eru ýmis merki sem þeir nota til að láta vita af því.

  • Rófan. Ef hundur klessir rófuna inn á milli afturfótanna þegar eigandi hans talar við hann, þá er næsta víst að eigandinn á það til að þrífa í hundinn í tilgangsleysi.
  • Eyrun. Hundar leggja eyrun flöt aftur með höfðinu (kollþúfur) ef þeir eru óöruggir og í vafa með hvað gerist næst. Ef eigandi talar við hundinn sinn og hann bregst við með kollþúfum er næsta vísta að eigandinn er ekki samkvæmur sjálfum sér í samskiptum við hundinn.
  • Hik. Hundar sem eru leiðréttir með ofbeldi verða óöruggir og eiga erfitt með að skilja til hvers sé ætlast af sér. Slíkir hundar verða hikandi við ýmsar aðstæður t.d. þar sem eigandinn eða aðrir ætla að leika við þá. Þetta hik verður sérlega áberandi ef ætlunin er að þjálfa þá til vinnu s.s. leitir, smölun eða veiði.
  • Ókunnugir. Hundar sem eiga erfitt með að heilsa ókunnugum og tengjast nýju fólki eru ekki vanir því að fólkið í kringum þá sé blíðlegt og samkvæmt sjálfu sér. Hér þarf þó aðgát áður en dæmt er: Margir hundar fara í manngreinarálit við fyrstu viðkynningu við fólk, gjamma á suma gesti og reisa makkann við aðra. Séu þeir aldir upp við jafnvægi og blíðu eru þeir hinir sömu ávallt tilbúnir að leyfa gestinum að strjúka á sér kinnina og tala við sig. Séu þeir hins vegar aldir upp við ofbeldi koma þér sér sem fyrst frá hinum ókunnuga og eru lengi að þýðast hann.
  • Grimmd. Hundar eru í eðli sínu vingjarnlegir og gagnkvæm virðing skiptir þá miklu máli. Sé hundur orðinn grimmur í garð ókunnugra og líklegur til bits eru afar sterkar líkur á að hann sé beittur reglulegu ofbeldi og við ólíklegar aðstæður. Hundar sem eru aldir upp við jafnvægi sýna ekki grimmd komist þeir hjá því en hundar sem eru aldir upp við ofbeldi og ósamræmi beita grimmd sem forvörn.
  • Vantraust. Sumir hundar sem hafa alist upp við ofbeldi jafna sig fljótt á nýjum heimilum en þeir gleyma aldrei aðstæðum. Hundur sem hefur flutt á betra heimili gæti glímt alla ævina við vantraust ef hann mætir manneskju sem minnir á þann sem hefur beitt hann ofbeldi. Margir hundaeigendur þekkja þetta vel.
  • Vanmáttur. Til að þjálfa hund til vinnu þarf að ala hann upp við jafnvægi og blíðu. Hann þarf að geta treyst foringja sínum og hafa vinnugleði. Hundur sem elst upp við ofbeldi hefur ekki það sjálfstraust sem þarf til að taka framförum við vinnuþjálfun né heldur vinnugleði.

Hér eru lauslega upptalin merki sem geta sagt okkur hvort hundur búi við óöryggi. Heildarfjöldi merkja er ekki alveg tæmandi, sumu er hér sleppt og sumt er á gráa svæðinu. Aðal atriðið er að hundur lýgur ekki til um það hvort hann sé beittur ofbeldi og reyndir menn sjá það fljótt.

Sumir hundaþjálfarar hafa lært atferli hunda og geta prófað þá. Hægt er að setja hunda í aðstæður og prófa hvernig þeir bregðast við ákveðnu áreiti. Þannig er hægt að meta með nokkurri nákvæmni hvort hundur búi við ofbeldi eða ekki.

Hundaþjálfarar sem beita ofbeldi við þjálfun sína ná engum árangri. Fólkið sem æfir með þeim og lærir hjá þeim myndi strax sjá í gegnum slíka menn.

Ólíkt hundum þá hefur mannfólk fundið up óheiðarleika og beitir honum í ýmsum tilgangi. Frekar skal dæma hundaeigenda eftir atferli hundsins hans en orðagjálfri …

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.