Að þjálfa hundinn sinn

Hundar eru krútt, á því leikur enginn vafi og það er gaman að þeim. Þeir eru alltaf í góðu skapi, þeir elska að kúra, leika og að fara í útivist. Þeir fyrirgefa auðveldlega og fylgja manni skilyrðislaust.

Síðustu ár hefur hundaeign aukist mjög í borg og bæ á Íslandi. Mikið hefur verið innflutt af smærri tegundum sem henta vel í kaupstað. Foreldrar vilja að börn sín kynnist dýrum og læri að umgangast þau. Margir upplifa að eitthvað skorti ef engin húsdýr eru á heimilinu.

Hið gamla viðhorf, að hundar eigi ekki erindi í kaupstað heldur bara í sveit, er á undanhaldi. Þeir sem þekkja til hunda vita að þeir eiga erindi með manninum hvort heldur í sveit eða kaupstað. Enn er áberandi viðhorf hjá mörgum að stærri hundar séu grimmir og drepi smáhunda ef þeir geta. Á hverju ári koma yfirborðskenndar fréttir af slíkum viðburðum. Nær alltaf, þegar grannt er skoðað, kemur í ljós að um var að kenna þekkingarskorti eigenda þessara hunda.

Sem betur fer eykst það einnig að fólk með skilning á hundum skiptir sér af yfirborðskenndri fjölmiðlun og viðhorf eru smám saman að breytast. Sú tíð er að mestu liðin að hundar séu teknir af lífi, án dóms og laga, nema fyrst sé kannað í þaula aðstæður sem ollu bit-slysi.

Yfirleitt þegar í ljós kemur að hundur hagaði sér illa, hvort heldur við menn eða hunda, kemur í ljós að eigandi hans hafði ekki næga þekkingu til að ala hundinn rétt upp. Þó fer sífellt í vöxt að eigendur fari á hundanámskeið og læri grunn í hundasálfræði og hundauppeldi.

Mörg bæjarfélög styðja við að eigendur leiti á námskeið með afslætti á hundagjöldum. Því miður er þó enn um það að bæjarfélög geri upp á milli námskeiða – til dæmis hafa námskeiðin hjá Hundasport ekki enn fengið verskuldaða viðurkenningu. Nóg um það síðar. Mest um vert er þó að fólk er hvatt til að leita sér þekkingar með bestu leiðinni sem býðst, með gulrót.

Hundaþjálfun er fjör

Allt frá því að snjóflóð féll á Súðavík hefur áhugi fólks á leitarhundum verið all nokkur. Á þeim tíma voru ekki margir slíkir hundar hérlendis. Mest hafði aukist um þá eftir snjóflóðin á Neskaupstað og er nú all nokkur hópur manna hérlendis sem stundar slíka þjálfun.

Algengt er að fólk haldi að þjálfun af þessu tagi sé kostnaðarsöm, flókin og aðeins á færi sérþjálfaðra manna. Slíkt fer fjarri en sá sem þetta ritar hélt þetta sjálfur áður en hann kynntist þessari skemmtilegu og gefandi þjálfun.

Það er einstök tilfinning að hlýðniþjálfa hundinn sinn og taka næsta skref í hundafimi. Tæknin er einföld og er fljótlærð á hlýðninámskeiðum. Þegar eigandi hefur náð valdi á tækninni getur hann kennt hundi sínum flestar hundakúnstir og það í einrúmi með honum. Ekki er nauðsyn á öðrum aðstæðum en tíma, nammi og þolinmæði í einrúmi með hundinum sínum. Hið eina sem takmarkar það sem hægt er að kenna hundinum er skortur á þolinmæði og ímyndunarafli.

Að hafa ræktað gott samband við hundinn sinn og unnið með honum í hlýðni, fimi eða veiðitækni er skemmtilegt og gefandi. Að fara með slíkum hundi innan um annað fólk – og hunda – og njóta aðdáunar þeirra sem kynnast hundinum, það er bara gaman.

Að þjálfa varðhund eða lögregluhund er álíka einfalt. Það krefst þó meiri þolinmæði og nákvæmni sem hvoru tveggja kemur með reynslu. Í raun er næstum ekkert í hundaþjálfun sem krefst hærra flækjustigs utan tvenns: Leitarhundaþjálfun og smalahundaþjálfun.

Þjálfun Smalahunds eða Leitarhunds

Hér verður ekki farið sérstaklega í þjálfun smalahunda enda er ekki eðlismunur á þessu tvennu þó viðfangsefni og vinnutækni sé ólík. Rétt er að benda á bókina Fjárhundurinn eftir John Holmes sem er afbragðs fróðleikur um slíka þjálfun. Hún er uppseld hjá útgefanda en til á mörgum bókasöfnum og einnig á Amazon á ensku.

Þrenns konar vinnubrögð eru þjálfuð í þjálfun leitarhunda: Sporaleit, Víðavangsleit og Snjóflóðaleit.

Af þessu þrennu er sporaleitin einföldust og auðþjálfuð. Margir hundanna hjá Hundasport æfa reglulega spor en við skiptum því ekki í I, II og III eins og sums staðar er gert. Sporahundar okkar taka yfirleitt hröðum framförum og þeir leita ætíð að fígúrant. Hver hundur fyrir sig stjórnar því sjálfur hversu miklar framfarir hans eru og hversu langt hann nær.

Næst á eftir þessu er snjóflóðaleit en hún er einnig frekar einföld. Við hjá Hundasport æfum einungis C vinnu og teljum að þeir sem vilji fara lengra ættu að æfa hjá Björgunarhundasveit Íslands eða Leitarhundum Landsbjargar. Þetta viðhorf okkar er af þeirri ástæðu að best er að æfa lengra komið í aðstæðum þar sem margir reyndir snjóflóðamenn eru til staðar. Sérstaklega vegna þess að æfingar fara fram þar sem viðhafa þarf góðar öryggiskröfur fyrir bæði æfingahóp og fígúranta.

Víðavangsleit er flóknasta ferlið af þessu þrennu og jafnframt það skemmtilegasta. Hundarnir elska þó snjóflóðaleitina meira. Eins og allir hundaeigendur vita þá elska hundar að hoppa og skoppa og krafsa í snjó. Það sem gerir víðavang svo skemmtilegt fyrir bæði mann og hund er að hún reynir meira á gagnkvæman skilning og traust á milli manns og hunds. Auk þess eru stærra ferli komið í leitina.

  • Þegar fígúrant hefur verið falinn þarf hundurinn að ákveða sjálfur hvernig hann vinnur leitarsvæðið. Eina viðmið hans er göngustefna foringja síns sem þó má gefa bendingar hafi hann kennt hundinum að skilja þær. Yfirleitt forðumst við bendingar því við viljum einmitt að hundurinn ákveði sjálfur hvernig hann nýtir hæfileika sína.
  • Þegar hundur hefur fundið fígúrant sinn þarf hann að finna foringja sinn, en á stóru leitarsvæði gæti hann verið bak við runna eða í hvarfi við hól. Einnig þarf hann að finna út hvort óvæntir útivistarmenn séu viðfangsefni eða ekki.
  • Þegar hann finnur eiganda sinn þarf hann að gefa honum skýr skilaboð, “maður fundinn”. Oft fer mesta vinnan í að tryggja að hundurinn velji sem skýrust skilaboð. Við notum yfirleitt að hundurinn hoppar á foringja sinn eða staðnæmist hjá honum og geltir á hann.
  • Þessu næst þarf hundurinn að sýna hvar fígúrantinn er staddur. Margir hundar vilja helst hlaupa við hlið foringja síns á þessu stigi og mörgum hundaeigendum reynist þetta skref erfiðast, því æskilegt er að hundurinn hlaupi spölkorn á undan.
  • Þegar eigandinn (foringinn) er kominn með hundi sínum að fígúranti (týndi maðurinn) þarf annað hvort að verðlauna hundinn eða ákveða hvort leita skuli strax að öðrum …

Í einföldun sinni: Maður er falinn, hundurinn leitar og lætur vita, maðurinn er fundinn.

Hér er þetta greint niður því í huga hundsins og í samspili manns og hunds eru margir þættir sem spila inn í. Með öðrum orðum: hér er um langtum flóknara ferli að ræða en einföld hlýðniþjálfun eða hundafimi. Þess vegna er þessi hundaþjálfun fjör.

Hundarnir okkar elska þessar æfingar og það er gaman að hitta bæði hitt fólkið og hina hundana. Á æfingum erum við sífellt að læra eitthvað nýtt í atferli á milli hundanna sjálfra, á milli okkar mannfólksins og í stuttu máli: við lærum eitthvað nýtt á hverri æfingu.

Það er einhver dýnamík sem ekki er auðvelt að útskýra, útivist, hundar, gott fólk, og skemmtileg viðfangsefni.

 

 

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.