Taumganga

Ganga í taum

Innan allra bæjarmarka á Íslandi er skylda að hundar séu alltaf í taumi. Sumir hundaeigendur hafa ánægju af að sýna að þeirra hundi sé treystandi taumlausum. Slík karlmennsa er jafn gæsileg og “rota konur á víðavangi og draga þær heim í hellinn”.

Hundur í taumi verður ekki fyrir bíl. Slíkur hundur verður heldur ekki innikróaður af barni og mun því ekki glefsa í það. Engin hætta er á því að hundur í taum muni týnast.

Fyrir ungan hund – eða hvolp – sem fer fyrstu skiptin með eiganda sínum í útivist utan bæjarmarka er gott að hafa Flexi taum eða tíu til fimmtán metra snúru. Sá sem þetta ritar fær reglulega fréttir af hvolpum á fyrsta ári sem týndust á námskeiði í Heiðmörk vegna þess að þeir skelfdust erfiðar aðstæður og stungu af.

Mjög gott er að hafa nota langan taum í útivist þar til öruggt er að hvolpur gegni innkalli eða komi þegar flautað er hátt. Flestir ábyrgðarfullir hunda eigendur hafa keypt sér hundaflautu og lært að nota hana – enda eru þær hundódýrar.

Erfitt að ganga í taum

Allir hundar toga í tauminn og þeir elska að gera það. Ef hundar hefðu ekki gaman af að toga í tauminn gætu þeir ekki orðið sleðahundar. Fyrir suma hunda getur verið súpersport að fá að draga snjóþotur eða hjólakerrur.

Sumir hafa gaman af að hengja sleðahunda í aktýgi og láta þá draga eiganda sinn. Slíkt er yfirleitt merki um vanþekkingu á hundasálinni. Þessir sömu hundar læra að draga eiganda sinn við allar aðstæður. Betra væri að láta þá draga hluti en þeir læra að þekkja muninn á slíku.

Lang besta leiðin til að kenna hundi taumgöngu er að stoppa þegar hann togar og rigsa af stað þegar slakar á taumnum. Hann er fljótur að þekkja muninn. Sé hundurinn óvenju þrjóskur er gott að snúa í hann baki og ganga rólega í aðra átt, en gæta þarf að því að hálsbandið meiði hann ekki.

Mjög gott er að hafa í huga á slíkum göngum að gönguferðin snýst um hundinn en ekki þig. Hvort heldur notað sé átta metra Flexi band eða stuttur taumur, að þegar hundur finnur lykt gleymir hann taumnum. Best er þegar hundur gleymir sér í lykt er að bíða bara í tvær sekúndur eftir að hann haldi áfram. Þá þarf ekki að rykkja í hann né stjórna honum á annan veg.

Sé notuð sú venja að stöðva þegar hundurinn togar og rigsa af stað þegar hann slakar á fer hann fljótlega að njóta gönguferðanna með þér og leyfa þér að stjórna. Er ekki betra að stjórna þegar manni er gefin stjórnin en að taka valdið með ruddaskap?

Sumir þjálfarar nota lágvær hljóð við göngur. Þegar hundur togar fast má stöðva og gefa frá sér neikvætt hljóð á borð við “eeh!” og þegar hann slakar á má segja “áfram” um leið og gengið er af stað. Fljótlega má segja áfram til að minna hundinn á að ganga áfram.

Á helgarnámskeiðum okkar hjá hundasport er lögð mikil áhersla á fallega og góða taumgöngu. Það er þó ekki hið sama og hælganga, þó hún sé líka kennd á námskeiðum okkar. Falleg taumganga snýst um að hundurinn er ekki að toga þig áfram, skiptir þá engu máli hvort hann er framan við þig eða aftan við þig.

Að lokum er gott að hafa tvennt í huga: Taumurinn er öryggislína en ekki stjórntæki. Þegar þú gengur frá upphafsstað til endastaðar, gengur hundurinn frá lykt að lykt, finndu málamiðlun þar á milli.

 

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.