Hundar gelta til að sýna spennu, gleði eða áhyggjur. Þeir vara við gestakomum og einnig ef þeim líst ekki á eitthvað. Þrennt er einkennandi fyrir gelt. Að vilja eitthvað, að óttast eitthvað, og leikur (spenna). Í öllum tilfellum er hundurinn í samskiptum.
Að gelta er náttúruleg leið fyrir hunda til að eiga tjáskipti, og það getur verið bæði indælt og leiðinlegt. Það er ekki hægt að láta hunda hætta öllu gelti en það hægt að minnka það mikið.
Í flestum tilvikum er hundurinn að gelta á foringja sinn. Þó geltið beinist e.t.v. að einhverjum sem kemur í heimsókn, þá er hundurinn að láta foringja sinn vita. Einnig þegar gelt er að öðru fólki eða hundum úti á götu, þá er hundurinn alltaf meðvitaður um foringja sinn.
Því skiptir sköpum að foringinn sé meðvitaður um rétt viðbrögð við geltinu.
Yfirvegun
Oft hafa hundar – sérstaklega á yngri árum – gaman af að gelta. Hundur hefur þó meiri ánægju af foringja sínum. Að láta hundinn vita að þú, sem foringi, viljir ekki gjamm er því öflug leið til að fá hann til að hætta. Fyrsta aðferðin til þess, er að láta sér standa á sama.
Þegar að hundurinn er hættur að gelta, hrósaðu honum þá. Hundurinn lærir að þögnin færir honum frekar lof en hávaði.
Dempun og truflun
Hundar gelta oft vegna þess að það er eitthvað fyrir utan sem nær athygli. Það gæti verið hundur að gelta í nágrenninu og þinn geltir til að svara. Hér eins og víðar í hundaþjálfun er gott að dreyfa eða dempa athygli hundsins.
Ein leið til að fá hunda til að hafa lægra er að hindra eða a.m.k. dempa hávaðann. Með því að hafa útvarpið kveikt þegar þú ferð út, eða loka gluggum. Því minna sem þeir heyra, því minna gelta þeir.
Einnig má dreifa athygli hundsins. Ef hann er að byrja gjamm, þá getur þú staðið upp og farið í annað herbergi. Líklega mun hundurinn elta þig þangað, því hann hefur meiri áhuga á þér en gjammi í næstu götu.
Komi hann ekki, getur þú framleitt hljóð sem lokkar hann til þín, t.d. með hringli í leikfangi. Ekki nota þína eigin rödd því hún getur stutt við geltið.
Breyttu umhverfinu
Það sem hundar sjá getur líka örvað geltið. Allt frá smáfugli sem spígsporar í garðinum eða köttur sem er fyrir utan gluggann getur leitt til þess að hundurinn gelti.
Að draga gluggatjöldin fyrir minnkar truflun fyrir utan gluggann. Ef það virkar ekki, reyndu þá að hafa hundinn á einangruðum stað á meðan þú ert ekki heima, ásamt leikföngum og góðu teppi til að liggja á.
Sítrónusprey
Hunda sem gelta er stundum hægt að leiðrétta með Sítrónusprey. Sá sem þetta skrifar myndi þó aldrei beita slíku. Þegar hundurinn geltir er spreyjað sítrónuúða, sem er náttúrulegt efni og skaðar hann ekki. Hundinum bregður og mislíkar lyktin.
Eftir smá tíma fær hundurinn þá hugmynd að ef hann geltir sprautast á hann vond lykt. Sítrónusprey virkar í um 70% tilvika þar sem hún er notuð rétt. Orðið Rétt er lykilorð hér, því óvanir klúðra gjarnan þessari aðferð, og hún skemmir traust hundsins á þeim sem beitir henni.
Einnig er hægt að fylla úðabrúsa með vatni og smá edik, og sprauta aftan á hnakka hundsins þegar hann geltir, ekki þó láta hann sjá þig sprauta á hann, því hann á aðeins að tengja þetta við geltið.
Þessar aðferðir eru aðeins nefndar hér því sumir hafa notað þær og eru þær þekktar sumsstaðar. Metnaðarfullir og reyndir þjálfarar nota aldrei svona aðferð.
Hreyfing og athygli
Jafnvel þó þú hafir þægilegan, afgirtan garð er ekki gott ráð að skilja hundinn eftir einan á meðan þú ert ekki nærri. Að skoða sig um og leiðast að vera skilinn eftir, getur hrint af stað stanslausu gjammi.
Það er ráðlegt að hafa hundinn inni á meðan þú ert ekki í burtu. Reyndir þjálfarar láta hunda aldrei vera eftirlitslausa utan dyra, né heldur láta þeir börn viðra hunda sína. Þú veist aldrei hvenær stórir hundar æða á eftir köttum eða rakkar lenda saman svo barnið ráði ekki við hundinn. Jafnvel þjálfuðustu og öruggustu hundar geta lent í ófyrirséðum uppákomum sem börn ráða ekki við.
Leiði
Hundar sem hafa mikla orku og fá ekki mikið að fara í göngutúra, fara stundum í gjamm til að fá útrás. Bara vegna þess að þeim leiðist og þurfa örvun og hreyfingu.
Að veita hundinum næga hreyfingu og athygli hjálpar. Gott ráð er að leika við hundinn, einsog að kasta bolta eða priki. Allir hundar þurfa þó reglulega útivist þar sem þeir hlaupa frjálsir. Einnig er gott að láta hundinn leita að nammi innandyra. Öll vinna örvar greind hundsins og róar innri spennu.
Æfingar og hjálp
Líklegar er hundurinn einn heima á meðan þú ert í vinnunni. Hundar þrá félagskap og að vera einn lengi getur aukið spennu. Heyri slíkur hundur umferð, gæti hann haldið að þú sért að koma heim. Þá fagnar hann þér með með gelti. Sumir ráðríkir hundar nota líka gelt til að vekja athygli á hvar þeir séu – haldi þeir að eigandinn heyri til þeirra.
Sá sem þetta skrifar setur hunda sína reglulega í sín afdrep á daginn en er samt heima. Þetta venur hundana við sín afdrep en það getur reynt á taugarnar. Ef hundurinn – sérsaklega yngri hundar – heyra að gengið er um munu þeir gelta ef þeim hættir til gjamms. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir er mikilvægt að láta sem maður heyrir ekki gjammið. Markmiðið er jú að þeir fái ekkert út úr gjamminu. Í þessum æfingatilvikum er mikilvægt að hleypa þeim ekki út nema algjör þögn ríki.
Ef þú ert ekki fær um að veita hundinum þínum félagskap á daginn gætir þú ráðið “fóstru” eða fengið einhvern úr fjölskyldunni, vin eða nágranna til að kíkja á hundinn einu sinni á dag, leika við hann og hleypa honum út. Reyndir þjálfarar gera þetta þó ekki – því þeir geta ekki vitað hvað þessi aðili gerir við hundinn. Hundaþjálfun er nákvæmnis vinna og þeir reyndari vilja sjálfir vera viðstaddir allt sem hundur þeirra gerir.
Betra er að venja hund við að vera einn og, ef hægt er, láta granna sína vita að maður sé að þjálfa þá. Góðir grannar sem vita af hvað sé í gangi geta látið vita ef gjamm er mikið og verið ómetanleg stoð meðan á þjálfun stendur.
Keðjan
Þetta er aðferð sem aðeins reyndir hunda eigendur mega beita og aðeins í neyð. Ef þú kannt þetta ekki er best fyrir þig að fá reyndan þjálfara til að sýna þér tökin. Sett er keðja um háls hundsins sem herpist að hálsinum þegar hann togar í tauminn. Margir eigendur nota svona keðju að staðaldri, en þeir reyndari nota svona keðju aðeins í neyð.
Á gönguferð er eigandi vakandi fyrir ef ókunnugir ganga um eða hundar eru í grenndinni. Keðjan er þá færð efst upp að kjálka hundsins og haldið við hana með fingrunum. Sumir halda stíft í tauminn en betra er að hafa hendina við keðjuna. Þegar hundurinn byrjar að gjamma er kippt snögglega í keðjuna svo höfuð hundsins rykkist örlítið til. Þetta þarf að gera varlega svo hundurinn meiði sig ekki. Markmiðið er að hundinum finnist þetta óþægilegt og að foringi hundsins sé sjálfum sér samkvæmur.
Reynsla þeirra sem nota þetta ráð er að hægt er að stöðva óæskilega hegðun samdægurs. Ítreka skal ítrustu varkárni við þessa aðferð.
Saga 1
Þegar þetta er ritað eru fjórir hundar í kjallaraherberginu. Ég er einn að vinna heima. Frammi í eldhúsi er að malla heimagerður hundamatur handa einum þeirra. Úti er sól og sumar og megnið af grönnunum á ferðalagi eða í vinnu. Sjálfur er ég að nota tækifærið og venja hundana á að vera einsamlir niðri.
Þetta gefur mér tækifæri til að heyra það sem grannarnir myndu annars heyra. Þetta ástand hefur varað í viku og gjammið hefur minnkað dag frá degi. Í dag veit ég að tveir eldri hundarnir gjamma ekkert á daginn, þeir sofa bara. Ef heyrist í krökkum í götunni gjammar hvolpurinn öðru hvoru, en bara öðru hvoru. Ef næst yngsti hundurinn heyrir í mér ganga um hér uppi, heyrist í henni, en frekar lítið.
Dag frá degi er sú næst yngsta að venjast þessu, hvolpurinn er þó misjafn eftir dögum. Í heildina er þó gjamm komið í lágmark. Grannkonan sagði mér í gær að hún heyrir stöku sinnum í hundunum en er sátt. Hún veit hvað ég er að gera og er ánægð, sérstaklega því hún sér (eða heyrir) framför.
Saga 2
Yngsti hundurinn minn sem er sex mánaða þegar þetta er skrifað, hún er gjammari. Þegar ég fékk hana úr gotinu gjammaði hún í sífellu. ef ég stóð upp og fór í eldhúsið, var gjammað. Ef hana vantaði knús, var gjammað. Ef gengið var framhjá húsinu var gjammað. Hún er af hinu þögula Sheffer kyni!
Nú eru þrír mánuðir síðan hún kom á heimilið og gjamm er (að mestu) hætt að vera vandamál. Aðferðin var sú sama og ég beiti á alla hundana. Ef hún gjammaði fékk hún engin viðbrögð!
Alveg sama hvernig hún lætur, ef hún gjammar innanhúss fær hún engin viðbrögð. Þetta hef ég líka gert á gönguferðum. Hún vill þó ekki hætta að gjamma að ókunnugu fólki eða hundum á gönguferðum svo næsta skref var við hæfi, sjá keðjan hér fyrir ofan.
Við það hefur gjamm á gönguferðum snarminnkað á tveim dögum. Rétt er að taka fram að sá sem þetta skrifar notar þessa síðari aðferð einungis í ítrustu neyð og helst ekki af fullum þunga. Þó tilgangurinn sé samskipti frá foringja til hunds er stutt úr samskiptum til ofbeldis með þessari aðferð.
Að lokum
Eins og sagt er í byrjun, snýst gjamm hunds um samskipti. Í flestum tilvikum, jafnvel þegar gjammað er úti á götu, snýst það um samskipti hunds við foringja sinn. Ef hann er sannfærður um að enginn heyri til sín, þegir hann.
Ef foringi hunds lætur sér á sama standa hvað “öðru fólki finnst” um gjammið, þá minnkar það strax um þriðjung. Þetta er þrautreynt. Ef foringi sýnir engin viðbrögð minnkar það aftur um þriðjung. Þetta er einnig þrautreynt.
Síðasti þriðjungurinn snýst þá um samskipti foringjans við hund sem gjammar. Mikilvægt er að það sé í þriðja og síðasta sæti.
Hæla skal hundi um leið og hann þagnar. Sussa skal á hundinn, blíðlega en ákveðið, alls ekki með reiðilegum tón, og hæla honum ef hann hlýðir því. Ef greinilegt er á augnatilliti hundsi að hann skilur sussið en gegnir því ekki, má ganga ákveðið að honum (ekki reiðilega) og taka þéttingsfast í hálskraga hans. Að taka í hálskragann er náttúruleg leiðrétting frá tík til hvolps og hundurinn skilur hana sem slíka.
Ef þetta þrennt þrýtur þá er hundurinn ekki að sjá eiganda sinn sem foringja. Þegar um slíkt er að ræða er eigandinn með hund sem heldur að hann sé sjálfur foringinn. Jafnvel hlýðnir hundar halda þetta oft. Í slíkum tilfellum þarf eigandinn að fara á námskeið eða kalla til einkaþjálfun.