Hundafimi

Hundafimi er upprunnin í Englandi þar sem hún var fyrst aukagrein á hinni frægu hundasýningu á Crufts.

Forsagan að þessari stórskemmtilegu íþrótt var sú að forsvarsmönnum Crufts fannst vanta atriði sem áhorfendur hefðu mikla skemmtun af. Hannaðar voru brautir og tæki sem sambærileg voru hindrunum fyrir hesta og bætt við nokkrum sérhönnuðum fyrir hunda. Til að gera langa sögu stutta þá sló íþróttin í gegn á þessari fyrstu hundasýningu. Ekki eingöngu skemmtu áhorfendur sér konunglega heldur finnst bæði eigendum og hundum þetta mikil skemmtun og hundarnir líta yfirleitt á hundafimi sem leik með eiganda sínum.

Upp frá því hefur íþróttin verið að breiðast út um allan heim og er nú farið að keppa í henni á nær öllum stórum hundasýningum auk sérsýninga. Erlendis eru sérskólar sem æfa og keppa síðan hver á móti öðrum. Hundafimi kom fyrst til Íslands um 1988 en náði þá ekki að festa sig í sessi. Nú er íþróttin komin til að vera.

Hundafimi eða Agility er hindrunarhlaup með hund. Í hundafimi læra hundarnir að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir svo sem að: skríða í gegnum göng eða poka, hoppa yfir margar gerðir af hindrunum og í gegnum dekk, jafnvægisæfingar á brú, klifra yfir vegg og ganga yfir vegasalt. Auk þess lærir hann að vinna með eiganda sínum skv. skipunum og bendingum. Með því að æfa hundafimi verður hundurinn meira meðvitaður um líkama sinn, lærir að vinna þrátt fyrir truflun frá öðrum hundum og fær andlega örvun sem gerir það að verkum að hundurinn verður rólegur og glaður heimilishundur sem fær að vinna.

Einnig er hundafimi góð íþrótt fyrir eigandann þar sem eigandinn hleypur með hundinum, en hlaupin miðast samt við getu hvers og eins. Eigendur á öllum aldri geta tekið þátt í hundafimi, jafnvel fólk á hækjum og í hjólastólum keppa í hundafimi.

Margir hundar, ekki síst í borgum og bæjum fá og litla hreyfingu. Þeir hvílast of mikið á daginn og safna orku sem þarf að fá útrás fyrir á einn eða annan hátt. Það er mikilvægt að við sem hundaeigendur getum stýrt þessari orku þannig að hún fái jákvæða útrás. Ef svo er ekki, getur þessi þörf hundanna fyrir útrás verið til vandræða s.s. árásagirni, eyðilegging á innanstokksmunum, stressi hjá hundinum o.s.fr.

Að þreyta hund líkamlega getur verið erfitt, en að þreyta hann andlega þarfnast miklu minni orku af okkar hálfu.

Hundafimi gerir kröfu um aga, einbeitingu og athygli. Hundurinn þróar betri hreyfingar og betra jafnvægi. Þetta styrkir sjálfstraustið og byggir upp samband hunds og eiganda. Hundafimi er holl hreyfing fyrir hundinn og örvar hann á jákvæðan hátt. Enginn er neyddur til að keppa, það er hægt að þjálfa hundafimi bara vegna þess að hún er skemmtileg.

Allir hundar geta tekið þátt í hundafimi, líka blendingar. Til að geta tekið þátt er mikilvægt að viðkomandi hafi góðann grunn í hlýðni ásamt góðu sambandi við hundinn. Án sambandi milli hunds og manns er mjög erfitt að kenna hundinum. Bæði smáhundar og stórir hundar verða að ná 12. mánaða aldri áður en þjálfun í hundafimi hefst.

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.