Hvað er þjálfun

Birta Ljúfsdóttir í kúristund

Merking orðsins þjálfun táknar allt sem gert er með hnitmiðuðum hætti í þeim tilgangi að skila skilgreindum árangri. Einnig má túlka orðið þjálfun sem endurtekna æfingu á þeim árangri sem stefnt var að í þeim tilgangi að taka framförum og styrkja.

Í raun er allt sem þú gerir með hundi einhver tegund þjálfunar. Gönguferðir, inniverra, útivist, æfingar, fimi og hvað sem er. Líka knúsistundir, því hundurinn lærir allt og styrkir við endurtekningu. Því er mikilvægt áður en þjálfun hefst að ákveða hvað gera skal með hundinum og hvernig á að þjálfa hann.

Tegundir þjálfunar

Hegðunarþjálfun: Þar sem að hundi eru kenndir góðir siðir gagnvart mönnum og hundum. Honum er kennt að vera húshreinn og t.d. hvaða húsgögn eða herbergi hann skal sniðganga. Taumganga og annað sem gerir hundinn að ánægjulegum félaga.

Hlýðniþjálfun: Kennir hundi að ganga við hæl, sitja, liggja og gegna innkalli er algengasta grunnþjálfun í hlýðni. Áherslan er lögð á skjóta og nákvæma framkvæmd. Hundar sem hafa verið hlýðniþjálfaðir eru skemmtilegri félagar og auðvelt að bæta við þá nýjum hundakúnstum.

Vinnuþjálfun: Þjálfun sem er fyrir skilgreind verkefni á borð við veiðar, smölun, efnaleit og leitarstörf. Einnig eru til sérhæfingar á borð við blindrahunda og aðstoðarhunda. Þessi þjálfun getur einnig flokkast undir að finna húslykla, sækja síma sem hringir, elta bolta eða sækja kasthlut.

Hvaða þjálfunaraðferð er rétt

Engin aðferð er rétt eða röng en mismunandi aðferðir skila betri árangri eftir aðstæðum. Þá þarf að taka tillit til þess hvaða aðferð passar bæði eiganda og og hundi. Vel er þekkt að mismunandi persónuleikar hunda vinna mismunandi úr aðstæðum.

Framangreind fullyrðing er þó á mjög stóru og gráu svæði. Til að mynda velja þjálfarar blindrahunda úr hvolpahóp eftir vel skilgreindum og margprófuðum aðferðum og svo er um alla reyndari þjálfara í hvaða tegund vinnuþjálfunar sem er. Hins vegar þegar ekki er þjálfað í átt til prófs af einhverju tagi má oft þjálfa erfiða og sérvitra hunda til sömu verkefna en tekur þá e.t.v. lengri tíma eða gerir aðrar kröfur.

Erfiða þjálfunin getur líka verið skemmtileg og passar þá heimilishundi. Við hjá Hundasport þjálfum oft hunda í víðavangs- og sporaleit sem aldrei yrðu teknir í björgunarsveitir, en gerum það því bæði eigandi og hundur hefur ánægju af. Í okkar vinnu er áherslan einmitt fólgin í að njóta ánægjunnar.

Persónuleiki þinn og hundsins, markmið þitt og hæfileiki þinn sem þjálfari, auk reynslu þinnar við þjálfun hunda spilar stóran þátt í þjálfun. Mikilvægt er að átta sig á því að þú munt gera mörg mistök í þjálfun meðan þú ert að læra. Allir leiðbeinendur þekkja þetta vel, að mistökin á fyrstu hundunum hjálpuðu þeim að þjálfa þann næsta. Því er þolinmæði gagnvart sjálfum sér, og sanngirni gagnvart hundinum, mikilivægur þáttur.

Sanngirni skiptir miklu, á báða bóga, því hún er þáttur í að byggja upp gagnkvæmt traust og virðingu milli manns og hunds.

Ef notuð er aðferð sem maður eða hundur (teymi) eru ósáttir við, hver svo sem ástæðan er, þá er ólíklegt að teymið geri hana vel. Hundurinn skynjar tregðu foringjans og deilir kvíða og ósætti. Þetta endurspeglast í vinnugleði hans og sjálfshvöt til árangurs. Sérstaklega er hér mikilvægt að gæta hófs í kröfum. Þeir sem ætla hundinum of mikils fyrirfram, geta ekki hælt honum nægilega fyrir það smáa sem hann gerir rétt. Þetta síðastnefnda er lykillinn að farsælli þjálfun.

Hundar eru ólíkir, bæði sem tegundir og persónur. Sem einstaklingar læra þeir á ólíkum hraða. Hundar sem læra fljótt læra mistök jafn fljótt og sé hann þverplanki gæti orðið erfitt að laga mistökin síðar. Ef hundurinn er sterk og ákveðin týpa gæti vinna sem ekki á við hann gert þjálfun hans erfiðari og hamlað árangri.

Þjálfun á aldrei að vera ströng og leiðinleg. Ef hundurinn gerir mistök á að leiðrétta hann án refsingar. Forðast skal ofbeldi og reiði, nema hundurinn eigi að temja sér reiði og ofbeldi. Hundar eru samskiptaverur og mjög næmir á líkamstjáningu, því þarf að gæta vel að því hvernig við tjáum okkur bæði í orði og æði.

Það eru til margar aðferðir til að ala upp hund. Félagsleg hegðun er sterkur þáttur því hundar læra hver af öðrum. Hvatning fyrir góða hegðun skiptir miklu máli og að hunsa og jafnvel áminna varðandi neikvæða hegðun.

Hér koma verðlaun sterkt inn, því hundar elska bragðgott hundanammi og eru fljótir að bregðast við – eða vinna fyrir – verðlaunum af því tagi. Sé hundur vaninn á viðbrögð með namminu, t.d. glaðlegu hljóði eða smell (með tungu eða clicker) má skipta nammi út fyrir verðlaun af því tagi. Yfirleitt eru leitarhundar verðlaunaðir með leik en það er þó ekki algilt. Hjá Hundasport eru t.d. sporhundar verðlaunaðir með nammi.

Hundar hafa gott minni og þeir muna minnstu smámuni bæði jákvætt og neikvætt. Algilt er að þegar hundur lærir eitthvað og fær kúristund kemur hann sterkari úr kúristund og bendir það til þess að í kúristund dreymi þá um það sem æft var, eða yfirfari í huganum. Reyndari þjálfarar nota þennan eiginleika mikið.

Salka Perludóttir nýsköpuð mamma.

Endurtekning skiptir eðlilega miklu máli í upphafi. Yfirleitt er talið að hundar þurfi þrjár endurtekningar í röð til að fullskilja það sem þeir eiga að læra. Þetta er vissulega misjafnt eftir tegundum og aldri. Sumir hundar læra strax en aðrir eru lengur að vinna úr. Hins vegar er algilt að þegar hundurinn hefur einu sinni lært bragðið – eða mistökin – man hann það jafn lengi og fíllinn.

Varðandi framansagt er mikilvægt að muna að æfing á ætíð að vera skemmtileg. Forðast skyldi að stilla upp æfingu ef foringinn (manneskjan) er leið, döpur eða langar ekki að æfa. Hundar tengjast fólki og skynja fólk í gegnum tilfinningalíðan og hún skiptir máli í æfingu. Augljóst er að manneskja á erfiðara með glaðlegt hól fyrir framgöngu hunds ef ekki liggur vel á henni. Einnig skerpist innsæi foringjans á framgöngu hunds s.s. ýmis smáatriði í hreyfingum og augnagotum ef áhuginn er sterkur og lundin glöð.

Því skyldi hætta eftir stuttar atrennur og þá þegar hæst stendur. Þannig ætti alltaf að ljúka æfingu á einhverju sem heppnast, jafnvel þó það sé í endurtekningu, því það tekur hundurinn með sér í kúristundina. Sýni hundur þreytumerki eða áhugaleysi er betra að setja hann orðalaust í hvíld (búrið eða bílinn). Hafi hann hins vegar staðið sig vel þá skyldi hann fá hól þegar hann fer í hvíld svo hann viti að hann stóð sig vel.

Smápunktar: Þreyttur hundur hefur ekki ánægju og maðurinn ekki heldur. Pirraður hundur og pirraður maður hafa minni einbeitingu. Augnsamband segir oft meira en mörg orð. Æfing sem endar skemmtilega er skráð í minnið en æfing sem endar leiðinlega einnig.

Glaður geðjast glöðum en leiður forðast leiðan!

Fyrir marga hundaeigendur eru hlýðninámskeið frábær kostur til að taka fyrstu skrefin til að skilja hunda. Einnig er hollt að fara á útisvæði og hitta hundafólk með reynslu og langbest að læra af fólki sem æfir vinnuhunda reglulega. Nú vilja sumir eigendur síður fara með hunda sína á útisvæði vegna ótta við ýmsa smitsjúkdóma: Hver sagði að hundurinn ætti að koma út úr bílnum á meðan þú hittir hundafólk og færð góð ráð?

Umfram allt: Sýna skal þolinmæði og samkvæmni við alla þjálfun.

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.