Atferli hunds

Hundar deila sömu þörfum og tilfinningum og við. Þeir eru félagsverur og þrífast á félagskap. Fyrir vikið eru þeir vakandi fyrir samskiptum og eru fljótir að læra bæði eigin viðbrögð og okkar.

Eins og öll önnur rándýr eru hundar mjög vakandi fyrir endurtekningum eða mynstrum. Bæði í náttúrunni og í samskiptum. Þeir hafa þróað fíngerð samskiptamynstur og þegar þú fylgist með hundum í hóp þá sérðu fljótlega hvaða mynstur þeir nota.

Eitt dæmi um þennan fínleika: Þegar hundur vill segja öðrum hundi – eða þér – að hann sé ósáttur við viðkomandi og vilji fá hann með sér í eitthvað, snýr hann baki í viðkomandi. Vilji hann hins vegar segja að hann vilji ekki samskipti þá snýr hann höfðinu undan. Á þessu tvennu er stigsmunur.

Komi annar hundur upp að hundinum og vill t.d. fá hann í eltingarleik, hleypur hann upp að og fram með síðu viðkomandi, rekur öxlina í öxl hins, og hleypur áfram. Sé um eldri hunda að ræða er þetta gert af mikilli varkárni.

Vilji hann hins vegar ærslast kemur hann framan að hinum, leggur framfæturna útglenta á jörðina og rekur rassinn upp.

Ekki er ætlunin að rekja hér öll merki sem hundar nota í samskiptum. Til þess þyrfti mjög langa grein því samskipti þeirra eru fíngerð og oft fléttað saman mismunandi hreyfingum og merkjum.

Aðal atriðið er að gott er fyrir þig og hundinn þinn að hitta aðra hunda. Þú færð þannig tækifæri til að sjá þessi merki og læra þau og hundurinn þinn einnig. Hundar sem eru aldir upp á heimili sem eini hundurinn ryðgar oft í þessum merkjum og þarf að skerpa þau. Hundahittingar, námskeið og æfingar þar sem aðrir koma saman er besta leiðin.

Það er margt ritað á Internetinu um atferli hunda, margt er líka sagt manna í millum. Eins og oft vill verða þá er margt sagt í umhverfi okkar sem er ekki rétt varðandi atferli þeirra. Bæði í úreltum fræðum og nútímalegum. Besti hundaskólinn sem er einmitt hópurinn. Besti hundaskólinn sem þekkist er einmitt æfingahópur þar sem fólk og hundar koma saman í æfingum – þar lærirðu mest.

Merki milli manns og hunds

Tengitími hunda við lærdóm og þjálfun er frá örfáum sekúndum upp í fáeinar mínútur. Bezt er að verðlauna góða hegðun innan fimm sekúndna ef hægt er. Hundar eru fljótir að tengja atferli við verðlaun og er nammi yfirleitt árangursríkast. Sé hundinum hælt með háværum tón eða smell í hvert sinn sem hann fær nammi þá má síðar hætta namminu og nota tón í staðinn.

Þegar leikur eða æfing er búin má búast við að hundurinn hugsi um það sem gert var og vinni úr því þegar það er endurtekið. Betra er að æfa í fimm til fimmtán mínútur í senn en gera það daglega, frekar en klukkutíma einu sinni í viku.

Áhugaverðast er í þessu sambandi – og þetta kemur berlega í ljós í flóknum verkefnum á borð við leitarhundaþjálfun – að hundar dreyma um það sem gert er. Hundur sem lærir nýtt í dag og fær svo að fara að sofa, hann kemur oftast betri út úr svefninum. Við notum okkur þetta óspart í þjálfun.

Hundar læra alla ævina og alla daga, ekki aðeins þegar þeim er kennt. Eigandi sem er meðvitaður þetta nær yfirleitt mjög góðum árangri með hundinn. Sérstaklega þeir eigendur sem vita að gamlir hundar geta aflagt vonda siði og lært nýja.

Hver hundur hefur sinn eigin persónuleika, greind, umburðarlyndi, og getu til að læra. Sama hver tegundin er þá er eitt sameiginlegt  með þeim öllum. Hundurinn bindst tilfinningaböndum við eiganda sinn og er ávallt til í að gera honum til geðs. Persónuleikar innan tegundar eru misjafnar og þó vissar aðferðir gagnist vel í þjálfun þá er mjög algengt að hundar af sömu tegund, jafnvel einstaklingar úr sama goti, bregðast ólíkt við sömu tækni.

Hundar eiga þó allir það sameiginlegt að bregðast við eiganda sínum. Þannig séð þarf eigandi vill þjálfa hundinn sinn fyrst og fremst að vera vakandi fyrir atferli einstaklingsins, læra að tengjast honum, og vera tilbúinn að nota það sem virkar á einstaklinginn frekar en fræðin í bókinni.

Ef þú skilur hvernig að hundurinn þinn hugsar, verður þjálfunin ánægjuleg fyrir ykkur bæði.

Munur tegunda

Menn hafa ræktað hunda í a.m.k. 11.000 ár. Hver tegund var ræktuð með ákveðinn tilgang í huga.  Allir hundar eru í raun af sömu tegund, því þeir geta allir átt saman frjó afkvæmi.

Þess vegna er varasamt að alhæfa um hundategundir, það er kannski hægt að tala um útlit, veiðihegðun, og vilja til að þóknast. Hundar eru jafn misjafnir eins og þeir eru margir. Ekki eru allir Sheffer hundar góðir í leitarvinnu og ekki allir Husky hundar góðir að draga.

Að læra að vinna með allt þetta hefur oft meira að gera með reynslu – og auðmýkt – því eru námskeið og þjálfunar félagsskapur mikilvæg fyrir byrjendur og lengra komna.

Umfram allt, það sem við höfum lært af hópunum okkar: Sýna verður hundum þolinmæði og taka eitt skref í einu, og trúa að hundurinn þinn geti það sem þú óskar!

 

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.