Hundasálfræðin

Ljúfur fór til hundasálfræðings vegna vandamáls.

Þegar hópnum er gefið bein fá allir nóg. Beinum er dreift á gólfið og er þá gefið eitt eða tvö afgangs. Tíkurnar hamast í að sópa til sín því sem þarf og er passað að engin sé útundan. Ljúfur leyfir þeim að stela af sér beinum, setur sjálfan sig afgangs, fer jafnvel fram í forstofu. Eftir því sem hjá líður laumast hann á milli þeirra og reynir að stela einu, jafnvel sleppir því.

Ljúfur elskar að naga bein rétt eins og aðrir hundar. Þegar hann kom til mín (2ja ára) var hann vanur því frá einhverjum fyrri eiganda að beini væri haldið fyrir hann. Þetta er algengt með Sheffer hunda því fólki finnst gaman að sjá hakkavélina vinna á nagbeini.

Nú er Ljúfur elskaður sem aðalhundur af öllum hundum í mínum hóp. Hálfur hópurinn er uppalinn af honum. Ef hann vill eiga fyrsta rétt þá hefur hann það, engin tíkanna ögrar honum. Ef gefin eru nýsoðin hjörtu eða pylsur, þá kemst enginn framfyrir hann. Það er ekkert hik í hundinum hvað þetta varðar.

Eftir tvær heimsóknir til hundasálfræðings gaf hann okkur miða með símanúmeri annars sálfræðings. Þegar ég hringdi í númerið kom í ljós að mér var vísað á mannasálfræðing með hundinn. Ljúfur var of flókinn

Að öllu gríni slepptu. Þá er hundasálfræði bæði einföld og flókin. Það er laukrétt að þegar hundur hefur vandamál er vandinn nær alltaf sprottinn frá eiganda hans. Nærri án undantekninga er það eiganda hunds að kenna ef upp kemur vandamál sem bæði er flókið að greina og flókið að laga.

Ljúfur átti sex eigendur fyrstu tvö árin sín. Ég var svo heppinn að hann er að upplagi yfirvegaður og jafnlyndur hundur. Sunna dóttir hans kom til mín átján mánaða gömul og hafði átt fimm eigendur á undan mér.

Eitt vandamál sem Ljúfur hafði þegar hann kom var tilhneiging (algengt með Sheffer) að grípa í hendur manna með munninum. Þetta vorum við fljótir að laga í sameiningu. Sunna hafði sama vanda en hún er enn að vinna á honum heilu ári eftir að hún kom til mín.

Sunna var með fullt af vandamálum þegar hún kom til mín og hefur gengið vel með þau flest. Hún er til muna viðkvæmari en pabbi sinn og tók það langan tíma að greina öll hennar vandamál og finna henni réttan farveg. Nú er í sjálfu sér lítið mál að horfa á tiltekið vandamál – til að mynda tryllist hún við að sjá kött – og þylja upp aðferðir til að vinna með það. Hundasálfræði er því miður ekki alltaf svo einföld.

Hluti af því sem við gerum hjá hundasport.is er að lesa hundinn og prófa niðurstöðu okkar á honum þar til við sjáum hvort við höfum lesið rétt. Þetta gerum við til að greina hvað kom vandanum af stað svo við getum bæði upprætt hann og einnig áunnið traust hundsins svo hægt sé að kenna honum að vinna.

Stundum tekur þessi lestur stuttan tíma og stundum langan. Þrjá hunda gæti ég nafngreint sem voru orðnir hættulegir mannfólki og hægt var að laga í tveim hittingum. Einnig gæti ég nafngreint hund sem var orðinn eldri og vond hegðun orðin – að því er virtist – föst í honum. Hann hætti hins vegar að koma í hittinga um svipað leyti og búið var að greina hvar vandinn lá hjá eiganda hans. Oft tekur það líka langan tíma, að lesgreina hvernig eigandi hundsins er í grunninn og finna hvernig hann hefur búið til vandann og viðheldur honum.

Eins og gefur að skilja með þessa nálgun okkar, þá krefst hún þolinmæðis og íhygli. Hjá hundasport.is er öll okkar áhersla lögð á að lesa hundinn, lesgreina samskipti eiganda og hunds, og vinna með þolgæði og festu út frá því sem við lesum. Því miður er ekki öllum gefið að skilja þessa nálgun okkar, því fólk misskilur hundasálfræði.

Algengt er að fólk heldur að hundar séu með innbyggt hegðunarforrit og hægt sé að laga þá til eins og vélar. Hundasálfræði er jafn flókin og víðfem eins og okkar eigin. Hunda dreymir til að mynda og við nýtum okkur þann hæfileika þeirra – sem við höfum einnig – til að vinna úr námi og þjálfun í svefni. Persónulega finnst mér þessi sálfræði mun meira spennandi en okkar manna að hundurinn getur ekki tjáð sig með orðum.

Flestir sem læra hjá okkur á stuttnámskeiðum og leitaræfingum komast að þessu af eigin raun: Að hundurinn hefur tungumál sem hægt er að læra, og þegar við lærum það eykst tjáning hans við okkur. Það skal játað að sjálfur gleymdi ég mér í tvö ár með hópinn minn. Ég var svo upptekinn af að læra þeirra tjáningarmáta og leyfa þeim að þroskast á sínum forsendum að einn daginn var ég kominn með óþekkan hóp. Þegar þetta er ritað er ég langt kominn með lagfæringar á þeim vandamálum sem þannig skópust, en allt lítur út fyrir að nást.

Glensið í byrjun varðandi beinhegðun Ljúfs er mjög auðvelt að skilja, en erfitt að laga, þó hefur hann tekið framförum ár frá ári. Mergurinn málsins er í raun einfaldur. Við gerum öll mistök og við öll þurfum að beita íhygli til að finna þau. Hver hundur er öðrum líkur en um leið einstaklingur og beita þarf einstaklingsmiðun til að vinna með einstaklinga.

Í rauninni er þessi niðurstaða einn af hornsteinunum í því að hundasport.is var stofnað.

 

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

About Guðjón E. Hreinberg

Alinn upp með hundum og hefur lært af færum hundamönnum hérlendis og á Írlandi. Hundahvíslari lætur ávallt hundana hafa síðasta orðið um hvaða aðferð henti best.

Comments are closed.